Eftir Skapta Hallgrímsson
skapti@mbl.is
FYRSTA morð vetrarins í Samkomuhúsinu á Akureyri verður framið í kvöld og hætt er við því að fleiri fylgi í kjölfarið – reyndar sama morðið í hvert skipti. Fyrirfram er vitað að fólk í rauðum áhorfendasætum gamla Samkomuhússins undir brekkunni er saklaust en allir á sviðinu liggja hins vegar undir grun.
Leikritið Músagildran eftir glæpasagnadrottninguna Agöthu Christie verður sem sagt frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar í kvöld.
Gísli Rúnar Jónsson hefur þýtt og staðfært leikritið; það gerist að þessu sinni á gistiheimili í Hegradölum á sunnanverðu Íslandi, veðrið er afleitt, snjórinn hleðst upp og hópur ferðalanga verður að halda kyrru fyrir. Og svo, ja, framið er morð en framhaldið kemur í ljós.
„Við kynnumst í fyrstu fólkinu sem búið er að bóka sér gistingu á gistiheimilinu, síðan fara að gerast hlutir sem hjónin höfðu ekki gert ráð fyrir, taugaspenna grípur um sig meðal viðstaddra og svo gerast voveiflegir atburðir; þetta er ekta Agatha Cristie,“ segir Sindri Birgisson, einn leikaranna, í samtali við Morgunblaðið. Sindri er nýútskrifaður frá Kvikmynda- og leiklistarskólanum í Holberg í Danmörku og þreytir nú frumraun sína í atvinnuleikhúsi hér heima.
Blaðamaður gerir heiðarlega tilraun til þess að leggja gildru fyrir Sindra og spyr snöggt: Leikur þú morðingjann? Eða ert þú kannski myrtur?
„Það kemur í ljós! Ég leik Jóhannes K. Guðmundsson, einn af gestunum,“ segir Sindri og lætur ekki plata sig.
Hann segir leikritið skemmtilegt. „Mín kynslóð er vön rosalega flóknum plottum úr Hollywood bíómyndum en þetta er gamaldags og flott; ég held það eigi eftir að svínvirka. Við vorum með áhorfendur í fyrsta skipti [á þriðjudagskvöldið], krakka úr leiklistarvali í grunnskólunum hér á Akureyri, og ég gat ekki betur heyrt en þau væru mjög spennt. Í hléinu veltu þau því mikið fyrir sér hver væri sekur og höfðu marga grunaða; sem er nákvæmlega eins og leikritið á að virka á fólk.“
Sindri er bara ráðinn í þetta verkefni hjá LA og fer aftur heim til borgarinnar við sundið þegar sýningum lýkur. Unnusta hans og tveggja ára dóttir eru í Kaupmannahöfn. „Það má segja að ég sé í hálfgerðri sjálfboðavinnu hérna vegna þess að krónan er svo lítils virði! Við erum að borga af íbúð í Kaupmannahöfn og stelpan í leikskóla; allt þetta venjulega. En ég nýt sem betur fer góðs af því að eiga góða að og kærastan mín er í góðri vinnu.“
Þór Tulinius leikstýrir Músagildrunni og leikarar eru átta. Meðal þeirra er Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, sem fagnar 30 ára leikafmæli á þessu ári, en hún tekur þátt í sýningunni með góðfúslegu leyfi Þjóðleikhússins. Þráinn Karlsson og Aðalsteinn Bergdal leika í verkinu og auk þeirra Sindra Anna Svava Knútsdóttir, Einar Örn Einarsson, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Viktor Már Bjarnason. Leikmynd hannar Árni Páll Jóhannesson, Sunna Björk Hreiðarsdóttir búninga og lýsingu þeir Lárus Björnsson og Sveinn Benediktsson. Kristján Edelstein sér um tónlist.
Sindri segist gott dæmi um gildi leikprufna FÍL
bdquo;MARÍA leikhússtjóri sá mig í prufum sem Félag íslenskra leikara, FÍL, hélt í Borgarleikhúsinu fyrr á þessu ári. Félagið var að taka þessar prufur upp aftur og það er frábært tækifæri. Sérstaklega fyrir fólk sem hefur lítið eða ekkert leikið hér heima,“ sagði Sindri Birgisson spurður um ástæður þess að hann var ráðinn til LA.Sindri er búsettur í Danmörku, nam list sína þar, og er aðeins í þessu eina verki á Akureyri í vetur. „Ég er talandi dæmi um að þessar prufur FÍL bera ávöxt. Fulltrúar allra leikhúsanna komu á staðinn og þetta var því góður sýningargluggi, bæði fyrir krakka sem menntaðir eru hér heima en sérstaklega fyrir okkur sem lærðum í útlöndum og fólk hér heima þekkir ekki. Líklega var helmingur þeirra sem þarna komu fram menntaður í útlöndum.“
Svo skemmtilega vill til að tveir aðrir leikarar í Músagildrunni eru menntaðir í útlandinu; Einar Örn Einarsson og Viktor Már Bjarnason lærðu báðir í Rose Bruford leiklistarskólanum í London. Einar Örn tekur þátt í þremur verkum hjá LA í vetur en Viktor Már og Anna Svava Knútsdóttir eru fastráðin hjá félaginu. Viktor Már lék í Fló á skinni með LA í fyrravetur.