Traustur Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður HK, var valinn í íslenska landsliðið á ný.
Traustur Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður HK, var valinn í íslenska landsliðið á ný. — Morgunblaðið/hag
NÝSKIPAÐUR landsliðsmarkvörður og leikmaður HK, Gunnleifur Gunnleifsson, varð annar af efstu mönnum í M-gjöf Morgunblaðsins í Landsbankadeildinni í sumar.

NÝSKIPAÐUR landsliðsmarkvörður og leikmaður HK, Gunnleifur Gunnleifsson, varð annar af efstu mönnum í M-gjöf Morgunblaðsins í Landsbankadeildinni í sumar. Þetta er annað árið í röð sem Gunnleifur nær þessum áfanga en hann átti frábært sumar í ár þrátt fyrir að fall hafi orðið hlutskipti hans ástkæra félags að þessu sinni.

Eftir Sindra Sverrisson

sindris@mbl.is

„Þetta er frábært. Ég er mjög þakklátur fyrir að fólk hafi álit á mér og kunni að meta mitt framlag í sumar,“ sagði Gunnleifur þegar blaðamaður náði tali af honum. „Mér gekk mjög vel þó að liðinu hafi ekki gengið jafnvel og er mjög sáttur við mína frammistöðu sem meðal annars skilaði mér landsliðssæti. Þetta er örugglega eitt af þremur bestu sumrum mínum til þessa,“ bætti hann við.

Þó að Gunnleifur, sem kom aftur í sitt gamla félag HK árið 2002, hafi staðið sig með stakri prýði í sumar líkt og í fyrra tókst honum ekki frekar en öðrum að koma í veg fyrir að liðið félli um deild, eftir tveggja ára veru meðal þeirra bestu.

„Heldur betur nóg að gera“

„Það var heldur betur nóg að gera þarna oft og tíðum í sumar og við fengum helling af færum á okkur, en mér fannst seinni hlutinn nokkuð góður hjá okkur eftir að við fengum útlending í vörnina hjá okkur sem færði ró í okkar leik. Ég fer alltaf í alla leiki með þá trú að liðið geti unnið, sama hver mótherjinn er, og ég undirbý mig bara með það í huga. Ef ég þarf að verja helling af skotum til þess þá verð ég bara að gera það.

Mér þykir það vænt um félagið að það var mjög erfitt að falla og virkilega sárt. Það var bara margt sem gekk ekki upp í sumar hjá félaginu eins og t.d. hvað varðar útlendingana sem við fengum,“ sagði Gunnleifur sem getur ekki svarað því núna hvar hann spilar næsta sumar.

Óvissa um heimavöllinn næsta sumar

„Ég er bara að skoða mín mál í rólegheitum og maður veit að öll félögin halda að sér höndum þessa stundina og skoða sín mál líka. Ég er bara mjög rólegur og ætla að taka mér smáfrí núna í nokkra daga. Það er náttúrlega langt í næstu leiktíð. Ég held mér samt í góðu formi með minn einka markmannsþjálfara, Hjörvar Hafliðason, þannig að ég er bara í góðum málum,“ sagði Gunnleifur, en verður hann ekki að ganga í raðir úrvalsdeildarliðs til að halda sér í sínu besta formi?

„Það er erfitt að svara þessari spurningu en eflaust er æskilegt að spila meðal þeirra bestu, ég neita því ekki. Þetta kemur bara í ljós,“ sagði Gunnleifur sem varð 33 ára í sumar en lofar því að hann eigi enn eftir að sýna sitt allra besta á milli stanganna komandi ár.

„Það er ekki spurning í mínum huga að ég get bætt mig. Ég á enn eftir að toppa og á helling eftir þannig að ég lít framtíðina bara björtum augum. Ég held að ég hafi afsannað það þetta árið að ég sé kominn yfir mitt besta.“

Í hnotskurn
» Gunnleifur Gunnleifsson er fyrirliði HK og lék alla leiki liðsins í sumar utan eins. Hann var oftar en ekki besti leikmaður liðsins og hafði í nógu að snúast llt sumarið.
» Frammistaða hans skilaði honum landsliðssæti í síðustu tveimur leikjum Íslands og viðurkenningu sem leikmaður ársins að mati Morgunblaðsins.