Víkverji hefur gaman af nýjustu auglýsingaherferð Vífilfells fyrir Coke Zero.

Víkverji hefur gaman af nýjustu auglýsingaherferð Vífilfells fyrir Coke Zero. Eins og margoft hefur komið fram er drykkurinn markaðssettur með unga karlmenn í huga, engar stelpur takk, til að bæta upp fyrir að Coke Light ratar nánast eingöngu í matarkörfu ungra kvenna í megrun. Í reynd er þetta alveg sami drykkurinn, a.m.k. af bragðinu að dæma, en í mismunandi umbúðum. En það er önnur saga.

Nú, til að ná þessu markmiði sínu um vinsældir ungra karla hafa Coke-menn lagt niður öll sín tromp til að ná markhópnum á sitt band. Þeir bjóða upp á byssur, bíla, þokkafullar konur og, síðast en ekki síst, svalan gaur í James Bond-líki sem kýlir mótherja sinn í gólfið og tekur sér svo dömuna í aðra hönd og Coke Zero í hina. Auglýsingahönnuðir hafa líklega séð fyrir sér að karlmenn þessa lands muni sitja gapandi í sófanum heima, hugsandi með sér að einmitt svona vilji þeir vera og rjúki síðan út til að kaupa Zero. Og kýli kannski sjoppustrákinn í leiðinni. Nei, víkverji er hræddur um að þessi auglýsing missi marks, rétt eins og síðasta herferð fyrir Coke Zero. Íslenskir karlmenn eru bara ekki svona einfaldar stereótýpur.

Að öðru, Víkverji ákvað að nýta sér boð um eitthvað ókeypis á þessum síðustu og verstu og skellti sér í bátsferð út í Viðey í vikunni í boði Yoko Ono. Það var hressandi að brjóta hversdaginn upp með öðru en sjónvarpsglápi og ekki skemmdi fyrir að kvöldið var stjörnubjart og friðarsúlan óvenjuskýr. Víkverji hefur ekki komið út í Viðey síðan í bekkjarferð í barnaskóla. Þá var hápunktur heimsóknarinnar virðuleg útför sílamáfs sem fannst dauður í fjörunni. Núna var hápunkturinn að setjast inn í Viðeyjarstofu eftir göngutúr og fá sér vöfflu og einn öllara. Viðeyjarstofa náði klárlega að skáka Ölstofunni.