Eftir Kim Edwards. Ólöf Eldjárn þýddi. Titill á frummáli: The Memory Keeper´s Daughter 512 bls. Mál og menning, 2008

Sagan hefst í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum. Nýgiftu læknishjónin David og Nora eignast tvíbura, dreng og stúlku. Í ljós kemur að stúlkan er með Downs-heilkenni og David tekur þá örlagaríku ákvörðun að segja Noru sem liggur meðvitundarlaus á sænginni að hún hafi dáið í fæðingu. Hann felur hjúkrunarkonu, Caroline, að fara með barnið á hæli og telur sig þar hafa verndað unga konu sína og son. Caroline fær ekki af sér að skilja stúlkuna eftir en fer og elur hana upp sem sína eigin dóttur. Ákvörðun Davids hefur djúpstæð áhrif á fjölskylduna, leyndarmál hans myndar vegg á milli hans og annarra. Nora er frávita af sorg en skilur ekkert í því af hverju David er sífellt fjarlægur og sakbitinn. Hún er síhrædd um soninn en hann hugsar oft til systur sinnar sem hann missti. Fjölskyldulífið verður öllum óbærilegt í áratugi. En litla stúlkan vex og dafnar í ást og öryggi og er mikill gleðigjafi í lífi Caroline. Það er hins vegar spurning hvort það er rétt af henni að þegja yfir leyndarmálinu.

Persónur sögunnar eru vel úr garði gerðar, djúpar og næmar. David glímir við þráhyggju og reynir að fanga heiminn í ljósmyndir, skilgreina form, birtu og skugga í öruggri fjarlægð á bak við linsuna. Það tekur Noru mörg ár að brjótast undan valdi hans og áhrifum, líf hennar mótast mjög af barnsmissinum og loks er sorgin það eina sem tengir þau hjónin saman. Ákvörðun Davids má eflaust sýna skilning að vissu marki, fordómar í garð þroskaheftra á þessum tíma voru miklir og sjálfur er hann bugaður af eigin bernsku, systurmissi og ofurást á Noru: „Hann vildi ekkert fremur en að viðkvæmt skipulag lífs þeirra héldi áfram að vera öruggt, að hlutirnir héldust alveg eins og þeir voru. Að heimurinn breyttist ekki, að þetta brothætta jafnvægi milli þeirra entist“ (152). En enginn getur haldið heiminum saman fyrir aðra, lífið er hverfult og flækjur, lygar og leyndardómar alls staðar. Dóttir myndasmiðsins er mjög dramatísk saga og hefur þegar verið kvikmynduð. Bókin er langdregin en frásögnin alltaf hlý og nærfærin. Persónurnar vekja meðlíðan, þær eru breyskar, viðkvæmar og mannlegar. Öndvegisþýðing Ólafar Eldjárn kemur langorðum og ljóðrænum texta, grimmum örlögum og sálarflækjum persónanna afar vel til skila.

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Höf.: Steinunn Inga Óttarsdóttir