Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is GEORGE W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að umsvifamiklar björgunaraðgerðir stjórnvalda myndu að lokum skila árangri. Óhætt væri fyrir áhyggjufulla Bandaríkjamenn að treysta því.

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

GEORGE W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að umsvifamiklar björgunaraðgerðir stjórnvalda myndu að lokum skila árangri. Óhætt væri fyrir áhyggjufulla Bandaríkjamenn að treysta því.

Hlutabréfamarkaðir heims hafa verið mjög óstöðugir þrátt fyrir margra milljarða dollara björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda sem áttu að koma á jafnvægi á ný. Einnig hefur dregið úr framkvæmdum vegna byggingar nýs húsnæðis um 6% og eru þær nú með minnsta móti frá því árið 1991. Samdrátturinn á bandarískum húsnæðismarkaði, minni einkaneysla og aukið atvinnuleysi þykja benda til þess að stærsti efnahagsmarkaður heims sigli hröðum skrefum inn í erfiða tíma.

„Það verður að gefa aðgerðunum meiri tíma þar til áhrifa þeirra fer að gæta. Það tók lánamarkaðinn nokkurn tíma að frjósa; það mun því taka tíma fyrir hann að þiðna á ný,“ sagði Bush.

Hvernig nota bankarnir féð?

Borið hefur á gagnrýni fjármálasérfræðinga vestra um að ekki sé ljóst hvort tilgangur aðgerðanna, það að örva lánamarkaðinn á ný, muni skila sér. Þörf sé fyrir frekari tryggingum fyrir því að peningar skattgreiðenda endi ekki í vösum hluthafa. „Þarna liggur veikleiki aðgerðanna, það er engin vissa fyrir því að bankarnir noti peningana í ný lán, þeir gætu einnig notað þá til að bæta stöðu sína,“ hefur AFP-fréttastofan eftir talsmanni Meeschaert-tryggingafélagsins í New York.

Í hnotskurn
» Bush hittir Sarkozy, forseta ESB, og Barroso, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, um helgina.
» Fundinum er ætlað að greiða leiðina fyrir heimsfundi þar sem efnahagskerfi heims verður tekið til athugunar.