„Já, það var eiginlega of freistandi að gera eitthvað, fyrst þetta var á laugardegi, þannig að ég verð með smáveislu uppi í Lóni, karlakórshúsinu á Akureyri,“ segir Arnheiður Eyþórsdóttir, en hún á stórafmæli í dag, verður fimmtug.

„Já, það var eiginlega of freistandi að gera eitthvað, fyrst þetta var á laugardegi, þannig að ég verð með smáveislu uppi í Lóni, karlakórshúsinu á Akureyri,“ segir Arnheiður Eyþórsdóttir, en hún á stórafmæli í dag, verður fimmtug.

„Ég býð vinum og vandamönnum, samstarfsfólki og já, svona hinum og þessum,“ segir Arnheiður. Hún býst við um það bil áttatíu manns í veisluna. Þar sem Arnheiður er matvælafræðingur liggur beint við að spyrja hana hvort hún hafi séð sjálf um allan undirbúning. Hún hlær að því. „Þú veist að matvælafræðingar kunna ekki að elda,“ segir hún svo létt og bætir við að hún hafi fengið fagmenn í verkið.

Arnheiður segir að eftir allar hörmungarfréttirnar sem dunið hafa yfir landann að undanförnu hafi hún orðið enn ákveðnari í að halda upp á afmælið. „Það er einmitt gott að hugsa um eitthvað annað og vera skemmtilegur.“

Arnheiður býr á Akureyri ásamt eiginmanni sínum, Gylfa Guðmarssyni. Hún er að sunnan og á von á fólki þaðan í veisluna. „Ég vona bara að veðrið verði til friðs, það er mjög gott í dag, en spáin var mjög leiðinleg. Hún er samt aðeins farin að skána,“ segir Arnheiður.

Uppleggið fyrir veisluna er einfalt, bannað að halda ræður nema til að gera grín að afmælisbarninu og bannað að vera væminn. sia@mbl.is