Eftir Láru Ómarsdóttur
lom@mbl.is
EKKI stendur til að afþakka loftrýmisgæslu Breta sem fyrirhuguð er í desember á þessu ári, að sögn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Engar ákvarðanir hafa verið teknar þar að lútandi og engin skilaboð send til NATO þess efnis.
Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins samþykktu síðasta sumar áætlun um loftrýmisgæslu yfir Íslandi. Skiptast aðildarríkin á um að senda herþotur hingað til lands sem sinna gæslunni og kemur röðin að Bretum í byrjun desember.
Össur vill ekki Breta
Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra, sagðist í samtali við mbl.is í gær ekki vilja fá Breta hingað til lands til að sinna þessari gæslu. Það myndi misbjóða íslensku þjóðarstolti. Þá sagði hann að þeim skilaboðum hefði verið komið á framfæri við NATO. Orðrétt sagði Össur: „Þessi mál hafa verið rædd af okkar hálfu við NATO svo það sé alveg ljóst og þeir vita af þessu.“
Misskilningur hjá Össuri
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í gær að þetta væri ekki rétt. Hann sagði enga ákvörðun hafa verið tekna um málið og að engin tilkynning um að Bretar væru óvelkomnir hingað hefði verið send NATO. Þegar Geir var spurður hvort hann teldi að Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra, hefði talað ógætilega við fjölmiðla sagði hann að hann teldi þessi ummæli Össurar byggð á misskilningi á samtali hans og framkvæmdastjóra NATO í vikunni. Ekki væri skrítið, þótt menn fylltust gremju en íslensk stjórnvöld hefðu ekki sagt NATO, að Bretar væru óvelkomnir hingað. „En ég get ítrekað að við teljum framkomu Breta í okkar garð í sambandi við þessa fjármálakreppu algerlega óviðunandi og við munum einhvern tímann svara fyrir okkur. En ég verð að fagna því að Bretar hafa í dag endurskoðað þau fyrirmæli um frystingu eigna þannig að öll viðskipti milli Bretlands og Íslands eiga að geta farið fram með eðlilegum hætti,“ sagði Geir.Ekki náðist í Össur Skarphéðinsson í gærkvöldi til þess að fá viðbrögð hans við ummælum Geirs.
Loftrýmisgæslan
Loftrýmsisgæsla NATÓ á Íslandi var samþykkt í júlí 2007 í kjölfar óska Geirs H. Haarde forsætisráðherra, sem setti beiðnina fram eftir brotthvarf bandaríska varnarliðsins.Byggðist beiðni hans á því að ekkert NATO-ríki skyldi vera án slíkrar gæslu og að þeim ríkjum sem ekki hefðu yfir flugher að ráða yrði veitt slík gæsla af hálfu annarra bandalagsríkja.