Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is Fyrir áhugafólk um stjórnmál má segja að skemmtilegir tímar fari í hönd.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

Fyrir áhugafólk um stjórnmál má segja að skemmtilegir tímar fari í hönd. Kerfið er hrunið og framundan uppbygging og endurmótun, sem kallar óhjákvæmilega á miklar og pólitískar umræður – umræður sem verða heitari en mín „eftirkaldastríðskynslóð“ þekkir. Þegar Berlínarmúrinn féll hrundi heil hugmyndafræði innanfrá, þ.e. kommúnisminn. Við það sama hvarf tvípólunin sem hafði verið ráðandi í allri stjórnmálalegri umræðu og smám saman varð kapítalismi að einráðri hugmyndafræði.

Og nú er hann kominn í krappari dans við sjálfan sig en nokkru sinni fyrr. Hruninn, segja sumir, en aðrir kenna rangri útfærslu um. Frelsið hafi annaðhvort verið of mikið eða of lítið.

Hvað sem öðru líður þá stendur þjóðin eftir með gríðarlegan skuldahala sem meirihluti hennar átti lítinn eða engan þátt í að búa til. Gagnrýnisraddir, sem áður voru kæfðar í tali um efnahagslegar framfarir, útrás og undur, heyrast nú allt í einu. Það var nefnilega eitthvað mikið sem fór úrskeiðis.

Og þá breytist orðræðan. Sum rök hverfa og önnur verða sterkari. Nú er ekki lengur hægt að segja að vinstristjórnir kunni ekkert með peninga að fara og allt í einu verður áður hallærislegt tal Framsóknar um matvælaöryggi viðeigandi.

Orðaval eftir aðstæðum

Á sama tíma nýta stjórnmálamenn sér efnahagsástandið til að rökstyðja gamlar hugmyndir. Nú á að veiða meiri þorsk út af bankakreppunni og álver á Bakka á að bjarga efnahagslífinu.

Orðavalið verður öðruvísi en áður. Í umræðum um efnahagsmál á Alþingi sl. miðvikudag sagði Geir H. Haarde: „Undanfarna daga hafa margir keppst við að lýsa yfir andláti frjálsra viðskipta og markaðsbúskapar vegna áfalla á fjármálamörkuðum. Slíkar yfirlýsingar byggjast frekar á þórðargleði en raunsæi enda getur ekkert samfélag þrifist til lengdar án frjálsra viðskipta og markaðar.“

Þorgerður K. Gunnarsdóttir tók í sama streng og þar með er ljóst hver nýja línan er í Sjálfstæðisflokknum. Nú verður allt kapp lagt á að bjarga hugmyndafræðinni. Steingrímur J. Sigfússon sagðist hins vegar ekki kannast við raddir um að frjáls viðskipti heyrðu sögunni til en vonaðist sjálfur til þess að nýfrjálshyggjan væri dauð.

Orðanotkun stjórnmálamanna í þessum efnum er ólík. Sjálfstæðismenn reyna að láta líta út fyrir að fólk á vinstri vængnum vilji engin frjáls viðskipti og helst engin viðskipti almennt. Sem er ekki rétt. Og vinstra megin er látið eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé nýfrjálshyggjuflokkur sem hafi viljað frjálsan markað á öllum sviðum þjóðlífsins. Sem er heldur ekki rétt. Formaður flokksins myndi t.a.m. seint teljast nýfrjálshyggjumaður.

Umrótið gæti hins vegar styrkt stöðu forsætisráðherrans og hans fólks innan flokksins, enda getur Geir vel kallað eftir skýrara regluverki á fjármálamarkaðnum á meðan sum flokkssystkini hans, sem hafa hallað sér lengra til hægri, ættu erfiðara með það.

Sjómennska eða prjónaskapur

En stjórnmálamenn nota líka sérstaka orðræðu þegar kemur að því að bregðast við ástandi dagsins. Sjómennskumálið virðist körlunum tamast. Það gefur á bátinn, allir eiga að leggjast á árar til að komast í gegnum brimskaflinn, annar eins brotsjór hefur aldrei gengið yfir og nú er tími til að setja björgunarbátinn á flot. Myndmálið er líka sótt í dyntótt veðrið og talað um illviðri, storm og moldviðri og ástandinu iðulega líkt við hamfarir.

Þetta myndmál er hálfhjákátlegt enda er ekki hægt að líkja hruni fjármálakerfisins við vont veður eða brim. Mannfólkið hefur nefnilega enga stjórn á vondu veðri en kerfið sem hrundi var búið til af mönnum.

Þess vegna var óneitanlega frískandi að heyra Katrínu Jakobsdóttur grípa til öllu nærtækara myndmáls í umræðum á þingi þegar hún sagði fjármálakerfið hafa raknað upp „eins og lausprjónuð lopapeysa og liggur nú eins og lúinn garnflóki“.

Og þar liggur hundurinn grafinn. Á næstunni þarf, eins og Katrín segir, að fitja upp á nýtt. Það þarf ekki að rjúka út á úfið haf á áralausum bát. Bara prjóna peysu – svolítið þétta peysu.