Kraftmikil Sem lýsing á ferli Baader Meinhof er kvikmyndin gríðarlega kraftmikil
Kraftmikil Sem lýsing á ferli Baader Meinhof er kvikmyndin gríðarlega kraftmikil
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýsk kvikmyndagerð hefur á undanförnum árum beint sjónum að hinni stormasömu sögu Þýskalands á 20. öld og tekist þar á við hvert tabúið á fætur öðru.

Þýsk kvikmyndagerð hefur á undanförnum árum beint sjónum að hinni stormasömu sögu Þýskalands á 20. öld og tekist þar á við hvert tabúið á fætur öðru. Hér er skemmst að minnast Fallsins ( Der Untergang ), kvikmyndar um síðustu daga Adolfs Hitlers og Þriðja ríkisins sem vakti athygli fyrir að bregða upp þrívíðri mynd af Hitler í stað þess að draga upp hefðbundnari mynd af honum sem einhliða skrímsli. Myndin fór sigurför um heiminn og má kannski segja að hún hafi rutt veginn á alþjóðlegum markaði fyrir metnaðarfullar þýskar sögulegar kvikmyndir. Líf annarra ( Das Leben der Anderen ) fylgdi að mörgu leyti í fótspor Fallsins , en sú mynd tekst á við njósnir og kúgun Stasi í Þýskalandi austan járntjaldsins. Þó svo að sitt sýnist hverjum um framsetningu myndanna á sögulegum veruleika, sem enn er hápólitískur í dag, einkennast báðar af tilraunum til endurmats sem reynir að takast á við þjóðartabú án undanbragða.

Der Baader Meinhof Komplex ( Baader Meinhof-samtökin ) í leikstjórn Uli Edel er nýjasta viðleitnin til þess að taka fyrir sársaukafullt tímabil í sögu þýsku þjóðarinnar í dramatískri kvikmynd. Myndin hefur þegar verið frumsýnd í Þýskalandi og fleiri löndum og er á dagskrá Kvikmyndahátíðarinnar í London (London Film Festival) sem stendur nú yfir. Eins og nafn myndarinnar gefur til kynna fjallar hún um þýsku hryðjuverkasamtökin RAF (Rote Armee Fraktion), hóp ungs fólks sem beitti hryðjuverkum, mannránum og morðum í baráttu gegn því sem þau álitu vera upphafið að nýju fasísku tímabili í vesturþýsku samfélagi sem einkenndist af auðvaldshyggju, valdníðslu og stuðningi við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Í fjölmiðlum hlutu samtökin heitið Baader Meinhof-hópurinn, en í þeirri nafngift var vísað til tveggja leiðtoga hópsins, blaðamannsins Ulriku Meinhof og róttæklingsins Andreas Baader sem var leiðandi í hópnum ásamt unnustu sinni Gudrun Ensslin.

Kvikmyndin er byggð á samnefndri bók um samtökin sem kom út árið 1985, skrifuð af Stefan Aust, fyrrverandi ritstjóra tímaritsins Der Spiegel . Bók Aust vakti athygli á sínum tíma fyrir það að tefla hreinskiptinni sýn á ofbeldisverk Baader Meinhof gegn tilhneigingu til rómantískrar upphafningar á samtökunum sem hreyfingar ungs fólks í anda 68 kynslóðarinnar. Í kvikmyndinni er þeirri nálgunarleið bókarinnar fylgt að draga upp skýra og óvægna mynd af starfsemi Baader Meinhof-samtakanna án þess þó að láta fordæmingartón eða varnarræðu drottna yfir umfjölluninni.

Samtökin létu fyrst til sín taka árið 1968, en þá stóðu þau að íkveikju í stórverslun í mótmælaskyni við harkaleg viðbrögð lögreglu við mótmælum námsmanna gegn opinberri heimsókn shahsins í Persíu. Lögregla réðst að mótmælendum með ofbeldi og skaut námsmann til bana. Baader og Ensslin voru dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir íkveikjuna en létu sig hverfa meðan á málaferlunum stóð og mynduðu neðanjarðarhreyfingu. Þegar Baader var síðar handtekinn var hann frelsaður úr haldi lögreglu með hjálp Ulriku Meinhof og var starfsmaður útgáfufélags, sem Baader fékk brottfararleyfi til þess að heimsækja, skotinn til bana í aðgerðunum. Í kjölfarið voru RAF-samtökin formlega stofnuð og hlutu félagar þeirra m.a. þjálfun hjá palestínsku Fatah-samtökunum í Jórdaníu. Kvikmyndin rekur feril samtakanna frá stofnun og lýsir m.a. því hvernig Ulrika Meinhof, tveggja barna móðir á vel stæðu heimili, ákvað að grípa til skotvopna auk pennans og ganga til liðs við RAF. Umfjöllun myndarinnar lýkur „þýska haustið“ árið 1977, þegar rán samtakanna á farþegaflugvél Lufthansa átti sér stað og næsta kynslóð Baader Meinhof var að taka við en samtökin störfuðu í ýmsum myndum allt fram til ársins 1998.

Sem lýsing á ferli Baader Meinhof er kvikmyndin gríðarlega kraftmikil, en þar tekst að draga upp mynd af þeim stálhörðu öflum sem tókust á í þýsku samfélagi: Kaldrifjað kerfisvald sem mætt var með trylltu og blóðugu andófi.

Baader Meinhof-samtökin mun vera dýrasta kvikmynd sem gerð hefur verið í Þýskalandi og ber hún þess merki að stefna á sömu mið hvað alþjóðlega dreifingu varðar og Fallið og Líf annarra. Kvikmyndin nálgast þó á köflum þá gryfju að upphefja hina ungu, svölu og sexí uppreisnarseggi enda er myndin talsvert útlitsmeðvituð og greinilega ætlað að verða stórmynd á þýskan mælikvarða. Myndin hefur verið gagnrýnd fyrir það að vera ofbeldisfull, en ekkert er dregið undan í framsetningu á sprengjutilræðum og byssuárásum RAF, en alls féllu tugir borgara, hermanna og lögreglumanna fyrir hendi samtakanna, sem einnig misstu marga úr sínum röðum. Gagnrýnin á ofbeldi í myndinni kemur reyndar á óvart, þar sem gagnrýninn fókus myndarinnar beinist fyrst og fremst að ofbeldisverkum Baader Meinhof. En að sama skapi er leitast við að sýna hvað knúði meðlimi samtakanna áfram og hvaða hugsjónir leiddu þau að þeirri niðurstöðu að starfsemi þeirra kallaði á ofbeldisfullar andófsaðgerðir. heida@mbl.is

Heiða Jóhannsdóttir

Höf.: Heiða Jóhannsdóttir