Spennandi einvígi Kramnik (tv.) og Anand við taflið í Bonn.
Spennandi einvígi Kramnik (tv.) og Anand við taflið í Bonn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
14. október – 2. nóvember 2008

EFTIR rólega byrjun í heimsmeistaraeinvígi Anand og Kramnik í Ráðhúsinu í Bonn lifnaði heldur betur yfir mönnum í gær þegar heimsmeistaranum Anand tókst að knýja fram sigur með svörtu í 41. leik. Hann hefur þar með tekið forystu í einvíginu eftir tvö jafntefli og lítill vafi leikur á því að nú fer baráttan að harðna. Þeir tefla 12 skákir.

Töp Kramniks með hvítu undanfarin á eru teljandi á fingrum annarar handar. Hann virtist ekkert sérlega vel undir byrjunina búinn en setti skyndilega allt í bál og brand í 18. leik þegar hann fórnaði manni fyrir að því er virtist óljósar bætur. Eftir 22 leik hótaði hvítur að leika 22. Dh7 og Anand sá ekkert betra en að gefa manninn til baka og var þá tveim peðum undir en með frumkvæðið og sóknarfæri gegn kóngsstöðunni. Stóru mistök Kramnik virðast hafa verið að leika 27. a4 – í stað 27. Hc1 – sem gaf kost á snjallri hrinu leikja, 27. Bh3+ og 28. Bh3. Anand beitti biskupi sínum af miklu listfengi og eftir 31. Bg4 varð Kramnik að veikja sig með 32. f3. Í miklu tímahraki reyndi Kramnik að gefa drottninguna og freista þess að koma a-peðinu upp í borð. En kóngsstaðan var of veik.

3. einvígisskák:

Vladimir Kramnik – Wisvanathan Anand

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. Rc3 e6 5. e3 Rbd7 6. Bd3 dxc4 7. Bxc4 b5 8. Bd3 a6 9. e4 c5 10. e5 cxd4 11. Rxb5 axb5 12. exf6 gxf6 13. 0-0 Db6 14. De2 Bb7 15. Bxb5 Bd6 16. Hd1 Hg8 17. g3 Hg4 18. Bf4 Bxf4 19. Rxd4 h5

20. Rxe6 fxe6 21. Hxd7 Kf8 22. Dd3 Hg7 23. Hxg7 Kxg7 24. gxf4 Hd8 25. De2 Kh6 26. Kf1 Hg8 27. a4 Bg2+ 28. Ke1 Bh3 29. Ha3 Hg1+ 30. Kd2 Dd4+ 31. Kc2 Bg4 32. f3 Bf5+ 33. Bd3 Bh3 34. a5 Hg2 35. a6 Hxe2+ 36. Bxe2 Bf5+ 37. Kb3 De3+ 38. Ka2 Dxe2 39. a7 Dc4+ 40. Ka1 Df1+ 41. Ka2 Bb1+

– og Kramnik gafst upp.

Hallgerður efst í kvennaflokki á Skákþingi Íslands

Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir er efst að loknum þrem umferðum á Íslandsmóti kvenna sem stendur yfir þessa dagana í Garðabæ. Hallgerður gerði jafntefli og þar sem hún hefur þegar unnið Sigurlaugu Friðþjófsdóttur og Elsu Maríu Kristínardóttur er staða hennar fyrir lokasprettinn býsna góð en helsti keppinautur hennar, Guðlaug Þorsteinsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari kvenna og raunar tvöfaldur Norðurlandameistari kvenna, tapaði óvænt fyrir Ulker Gasavova í 1. umferð. Hallgerður og Guðlaug háðu einvígi um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra sem Guðlaug vann. Staðan eftir þrjár umferðir er þessi:

1. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir

2 ½ v. (af 3)

2.Elsa María Kristínardóttir 2 v.

3.–4.Sigríður Björg Helgadóttir og

Tinna Kristín Finnbogadóttir 1 ½ v.

5.–6.Ulker Gasanova og

Guðlaug Þorsteinsdóttir 1 v.

+ frestuð skák

7.Jóhanna Björg Jóhannsdóttir ½ v.

+ 2 frestaðar skákir.

8.Sigurlaug Friðþjófsdóttir ½ v.

Íslendingar tóku þátt í sýningarkeppninni í Beijing

Einhverskonar sýningarkeppni „hugaríþrótta“ hefur undanfarnar vikur staðið yfir í Beijing en þar keppt í skák, bridsi og fleiri greinum. Um allangt skeið hafa verið ráðagerðir uppi um það að koma t.d. skák inn sem grein á hinum hefðbundnu Ólympíuleikum og yrði þá keppt í at-skák eða jafnvel hraðskák. Forseti Skáksambands Íslands, Björn Þorfinnsson, var talsmaður þess að Íslendingar sendu keppendur til Beijing en keppt hefur verið í „Hreiðrinu“, aðalvettvangi síðustu Ólympíuleika. Flestir úr hópnum sem hélt til Kína munu skipa lið Íslands á Ólympíumótinu í Dresden í næsta mánuði, þ.e. Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Henrik Danielssen og Stefán Kristjánsson. Björn Þorfinnsson tefldi einnig en hann var fararstjóri. Ekki var vel mætt af sterkustu skákmönnum heims en þátttökuþjóðirnar voru 32 talsins. Kínverjar urðu efstir, Bandaríkjamenn í 2. sæti og Úkraínumenn í 3. sæti. Íslenska sveitin hlaut 21 ½ vinning af 36 mögulegum og hafnaði í 9.-14 sæti. Héðinn Steingrímsson stóð sig best Íslendinganna, hlaut 6 ½ vinning af 9 mögulegum.

Helgi Ólafsson | helol@simnet.is

Höf.: Helgi Ólafsson | helol@simnet.is