„VIÐ erum að sjálfsögðu ánægðir með útkomuna og vonandi verður þessi sigur til þess að við fáum tækifæri til þess að keppa á fleiri alþjóðlegum mótum,“ sagði badmintonmaðurinn Magnús Helgason úr TBR í gær en hann fagnaði sigri í tvíliðaleik með félaga sínum, Helga Jóhannessyni, á alþjóðlegu badmintonmóti í Slóvakíu um helgina.
Þeir léku til úrslita gegn Jakub Bitman frá Tékklandi og Zvonimir Durkinjak frá Króatíu. Þar höfðu Íslendingarnir betur, 21:11 og 21:14.
Bitman og Durkinjak voru fyrir mótið taldir sigurstranglegir í tvíliðaleiknum. Þeir eru númer 53 á heimslistanum en Helgi og Magnús eru í 197. sæti á sama lista.
„Ég gæti trúað því að við mundum fara upp um 50 sæti á heimslistanum eftir sigurinn. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um að einbeita okkur sérstaklega að tvíliðaleiknum. Það kemur bara í ljós.“
Magnús og Helgi fengu rúmlega 115 þúsund kr. fyrir sigurinn í Slóvakíu. „Þetta er ekki eins og að vinna golfmót á Evrópumótaröðinni, aðeins lægri upphæð. Það var á dagskrá okkar að leika á tveimur mótum um mánaðamótin nóvember/desember í Wales og Englandi. Við eigum eftir að fara yfir stöðuna með forsvarsmönnum TBR. Kannski verður niðurstaðan sú að við notum verðlaunaféð til þess að fjármagna næstu keppnisferð að hluta,“ sagði Magnús.
seth@mbl.is