Kaupþing Embættismenn úr ráðuneytum stjórna bankanum.
Kaupþing Embættismenn úr ráðuneytum stjórna bankanum. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is NÝJA Kaupþing hefur verið stofnað og verður öll innlend starfsemi Kaupþings í nýja bankanum.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

NÝJA Kaupþing hefur verið stofnað og verður öll innlend starfsemi Kaupþings í nýja bankanum. Fyrirkomulagið er með sambærilegum hætti og þegar innlendur rekstur Glitnis og Landsbankans var skilinn frá eldri bönkunum, eftir að þeir komust í þrot og skilanefndir Fjármálaeftirlitsins tóku við stjórn þeirra.

Stjórn Nýja Kaupþings skipa Einar Gunnarsson, starfsmannastjóri utanríkisráðuneytisins, Helga Óskarsdóttir, rekstrarstjóri viðskiptaráðuneytisins, Jónína B. Bjarnadóttir sérfræðingur á fjárreiðu- og eignaskrifstou fjármálaráðuneytisins, Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri sem er nýr stjórnarformaður bankans og Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var ágreiningur milli lífeyrissjóðanna og viðskiptaráðherra um kaup þeirra fyrrnefndu á bankanum „stormur í vatnsglasi“. Samkvæmt sömu upplýsingum má fastlega búast við því að ný stjórn Kaupþings muni taka upp þráðinn í viðræðunum við lífeyrissjóðina á næstu dögum.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær fundaði stjórn Nýja Kaupþings um helgina og ráðning nýs bankastjóra væri eitt af því sem hin nýja stjórn ynni að. Stjórnarmaður í Nýja Kaupþingi, sem Morgunblaðið náði tali af í gærkvöldi, vildi ekkert gefa upp um hvort vænta mætti breytinga á stjórnendateymi bankans eða hvort búast mætti við uppsögnum á næstu dögum. Áformað er að greina á milli gamla bankans og hins nýja með formlegum hætti á miðvikudagsmorgun.