Frá Guðvarði Jónssyni: "FJÖLMIÐLUM virðist hafa tekist að búa til fjölmiðlafár úr kreppunni og láta ráðherra og þingmenn flytja hverja útfararræðuna á eftir annarri sem boðskap til þjóðarinnar um efnahagslegt ástand og reynt hefur verið að draga sálarlíf barna inn í þessa..."

FJÖLMIÐLUM virðist hafa tekist að búa til fjölmiðlafár úr kreppunni og láta ráðherra og þingmenn flytja hverja útfararræðuna á eftir annarri sem boðskap til þjóðarinnar um efnahagslegt ástand og reynt hefur verið að draga sálarlíf barna inn í þessa líkfylgd. Kreppa er ekkert nýtt fyrirbæri í heiminum og hún virðist endurtaka sig með ákveðnu millibili, vegna þess, að menn læra aldrei af mistökum annarra. Að læra af mistökum annarra ákveða menn í kreppu, en gleyma því í góðæri því þá eru komnir nýir menn með nýjar áherslur og endurbætta menntun sem gerir mönnum kleift að meta stöðuna rétt, þar til allt fer á hausinn, þá var það vegna mistaka annarra. Semsagt, engin kynslóð lærir af mistökum, fyrr en hún hefur gert þau sjálf.

Útrásin átti að vera slík auðlind að sjávarútvegur væri nánast óþarfur og ofurlaun rétt til að tryggja að hæfir menn fengjust í lykilstöður. Engum ætti að dyljast það nú að hæfni ofurlaunamanna til að setja banka á hausinn var óbrigðul.

Fréttir fjölmiðla af ástandinu hafa verið byggðar á æsifréttamennsku og óðagoti, akkúrat það sem helst hefði þurft að forðast. Slík fréttamennska skilar engu nema óvissu og ótta. Viðbrögð ráðamanna virtust einnig einkennast af vanþekkingu og ráðaleysi. Spyrlar sjónvarpsstöðva tóku það mjög nærri sér ef illa var talað um útrásarmenn og við forsvarsmenn bankannavar talað af mikilli varfærni.

Svör ráðherra og sumra alþingismanna hafa komið mjög á óvart. Að halda því fram að eftirlit með fjármálastarfsemi hafi verið með eðlilegum hætti er ótrúleg móðgun við heilbrigða skynsemi og að fyrrverandi ráðherra skyldi halda því fram að ráðherra hafi ekki heimild til að fylgjast með starfsemi fjármálaeftirlits, sýnir vanhæfni þingmannsins. Ástæðan fyrir þessu átti að vera sú að ráðherrar væru pólitískir en stofnunin ópólitísk. Ráðherrarnir eru ekkert smálítið mengaðir að þeir skuli ekki geta sinnt sínum skyldustörfum án þess að valda skaða. Það er einnig ótrúlegt að menn ásaki Seðlabanka 300 þús. manna þjóðfélags fyrir það að geta ekki aukið gjaldeyrisforðann á móti stjórnlausum viðskiptum bankanna erlendis, í milljóna þjóðfélögum, það hlýtur að stafa af skynsemisskorti.

Það er nokkuð ljóst að stjórnvöld brugðust alveg þeirri skyldu sinni að setja þessum viðskiptaaðilum þær skorður að fjárfestingar þeirra settu ekki fjárhag þjóðfélagsins í hættu. Þegar bankarnir voru seldir átti það að vera hagur þjóðfélagsins að láta einstaklinga standa í slíkum rekstri. Hver skyldi styðja slíkt nú? Hefði Landsbankinn ekki verið seldur væri staða þjóðfélagsins önnur og betri en hún er í dag.

GUÐVARÐUR JÓNSSON,

Valshólum 2.

Frá Guðvarði Jónssyni

Höf.: Guðvarði Jónssyni