Anna Bentína Hermansen
Anna Bentína Hermansen
Anna Bentína Hermansen skrifar bréf til formanns samtaka atvinnulífsins: "Femínismi fjallar um samfélagslegt réttlæti og getur af þeim sökum aldrei réttlætt að annað kynið standi höllum fæti."

ÍSLAND hefur siglt í strand, stendur á barmi gjaldþrots og berst í bökkum við að bjarga efnahag þjóðarinnar. Svo ég nýti orðræðu sjómanna enn frekar, þá hefur útrás víkinganna snúist upp í útflutning víkinganna, sem sigla á snekkjum sínum til fjarlægra eyja í Karíbahafinu. Eftir sitjum við með sárt ennið og horfum upp á þjóðvæðingu tapsins eftir einkavæðingu hagnaðarins. Nú á að draga í land og sameinast í þessum mótvindi sem mætir okkur.

Þjóðin á að halda ró sinni á meðan þeir sem komu okkur í þessi vandamál reyna að ráða fram úr þeim. Í fjölmiðlum koma fram ráðleggingar um hvernig á að halda geðheilsunni á óvissutímum. Þá er gott að fara út að hlaupa, nýta árskortin sem við keyptum öll í góðærinu og hlusta á róandi tónlist með náttúruhljóðum áður en við virkjum náttúruna. Einnig koma fram ýmsar hagnýtar uppskriftir að sparnaðarréttum og nýtingu afganga. Tími Jóa Fel og matreiðsluþátta hans, þar sem þotuliðinu var boðið í humar og nautalundir er liðinn.

Ég vil ekki láta mitt eftir liggja í ráðleggjum og vil beina þeim til handhafa valdsins. Þeirra sem eru í lykilstöðu um að hafa áhrif á líf fjölskyldna í landinu. Það er bláköld staðreynd að á samdráttartímum virðast konur frekar verða fyrir uppsögnum en karlar. Í jafnréttisbaráttunni hefur oft verið bent á að vinnumarkaðurinn metur kynin út frá mismunandi forsendum. Fyrirvinnuhlutverkið er oftar tengt körlum og framlag karla er álitið verðmætara en framlag kvenna. Hlutdeild kvenna í einkavæðingu gróðans var afskaplega rýr. Þær þóttu of áhættufælnar til þess að taka þátt í útrásinni en fínar í að hreinsa til í rjúkandi rústum bankanna. Í fyrsta sinn er kona bankastjóri og það tvær í sömu vikunni. Þær eru hættar að vera áhættufælnar og eru þess í stað orðnar áhættumeðvitaðar . Ég fagna þessari hugarfarsbreytingu en spyr mig í leiðinni hvort þær fái sömu ofurlaunin og fyrirrennarar þeirra? Verða þær áfram við stjórnvölinn þegar búið er að hreinsa til?

Jafnréttismál snúast ekki síst um baráttu fyrir raunverulegri hlutdeild kvenna í samfélaginu. Við getum ekki gefið neinn afslátt af þeirri baráttu þó að krepputímar blasi við. Femínismi fjallar um samfélagslegt réttlæti og getur af þeim sökum aldrei réttlætt að annað kynið standi höllum fæti.

Jafnréttislögin kveða á um að hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein er með öllu óheimil. (22. gr. jafnréttislaga nr. 96/2000 24. gr. frumvarps 2008). Með mismunun er átt við hvers kyns aðgreiningu, útilokun eða takmörkun sem byggð er á kyni sem hefur þau áhrif að hindra eða koma í veg fyrir að annað kynið fái viðurkennd mannréttindi og grundvallarfrelsi á sérhverju sviði samfélagsins. (2. gr. 1. tl.) Sagan sýnir að krepputímar bitna helst á konum og börnum. Því vil ég hvetja forsvarsmenn samtaka atvinnulífsins sem og aðra vinnuveitendur til að hafa jafnréttissjónarmið í huga við hvers kyns ákvarðanatökur varðandi uppsagnir í framtíðinni.

Höfundar er ráðskona öryggisráðs í Femínistafélagi Íslands og meistaranemi í kynjafræði við Háskóli Íslands.

Höf.: Anna Bentína Hermansen