STJÓRN Landsvirkjunar fór þess á leit við Friðrik Sophusson að hann gegndi áfram starfi forstjóra fyrirtækisins vegna efnahagsástandsins í landinu og hefur ráðningarsamningur hans verið framlengdur til allt að tveggja ára.

STJÓRN Landsvirkjunar fór þess á leit við Friðrik Sophusson að hann gegndi áfram starfi forstjóra fyrirtækisins vegna efnahagsástandsins í landinu og hefur ráðningarsamningur hans verið framlengdur til allt að tveggja ára.

„Það er erfitt að hlaupast frá verkum eins og staða efnahagsmála er núna. Ég vonast til þess að geta áfram gert eitthvert gagn í hópi frábærra starfsmanna Landsvirkjunar. Ég vil einnig þakka stjórn Landsvirkjunar fyrir að sýna mér þetta traust við erfiðar aðstæður sem framundan eru,“ sagði Friðrik við fréttavef Morgunblaðsins í gær.

Friðrik tilkynnti í sumar að hann hygðist láta af störfum í lok ársins. Starfið var auglýst laust til umsóknar 1. september og umsóknarfrestur framlengdur til 26. september. Samtals bárust 55 umsóknir og segir í tilkynningu frá Ingimundi Sigurpálssyni, stjórnarformanni Landsvirkjunar, að fjöldi hæfra einstaklinga hafi verið í hópi umsækjenda.