Endursköpun „Gripið hefur verið inn í arkitektúr safnsins og áhorfandanum mörkuð braut, langur pallur gefur útsýni yfir innpakkaða safneignina ...“, segir meðal annars í dómi.
Endursköpun „Gripið hefur verið inn í arkitektúr safnsins og áhorfandanum mörkuð braut, langur pallur gefur útsýni yfir innpakkaða safneignina ...“, segir meðal annars í dómi. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til 22. nóv. Opið virka daga frá kl. 10-17 og 12-17 lau. Aðgangur ókeypis.

NÝLISTASAFNIÐ er nú að skrá safneign sína en á sama tíma býður það listamönnum að sýna í safneigninni miðri. Nú taka fimm aðilar safnið yfir, fjórir listamenn og einn prófessor: Björn Quiring sem lærður er í samanburðarbókmenntum og heimspeki og ritar hann innihaldsríka grein með sýningunni. Þar fjallar hann m.a. um eiginleika og eðli safna og kortlagningu raunveruleikans.

Gripið hefur verið inn í arkitektúr safnsins og áhorfandanum mörkuð braut, langur pallur gefur útsýni yfir innpakkaða safneignina en innsta rýmið sem hýst hefur skjalasafnið er nú nær tómt. Hin tóma gryfja sem hér skapast er sterk upplifun, en eins og Björn Quiring skrifar um er eitt form safna sameiginlegt minni. Margir muna eftir húsnæði Nýlistasafnsins við Vatnsstíg sem einkenndist af gryfjunni stóru, hér í senn endurgerð og ekki. Í einni hendingu birtist í huga manns ekki einungis saga Nýlistasafnsins heldur saga íslenskra myndlistar síðustu þrjá áratugi, breytingar og breyttir tímar.

Teikning Ingólfs Arnarsonar þar sem í daufum línum má hugsanlega greina lófafar, er í anda þeirrar óljósu myndar sem sýningin dregur upp. Staðsetning áhorfandans uppi á útsýnispalli gefur að sjálfsögðu ekki neina skýrari mynd af safneigninni, birti hún eitthvað er það kannski helst hversu ógreinileg mynd manns af safneigninni er í raun.

Endursköpun endaveggjar og nýr gluggi opna sýn bæði út og inn í safnið, glugginn rammar inn hluta af Laugaveginum sem er safngripur í sjálfum sér, hér er hversdagurinn skráður líkt og Dieter Roth gerði í verkum sínum eins og fram kemur í sýningarskrá. Þetta er síðan undirstrikað af hljóðverki Finnboga Péturssonar sem á lunkinn máta sameinar það sem er utandyra og innan.

Á sýningunni mætast margir þættir og hugmyndafræðin er á mörkum þess að flækja hlutina um of. Á móti kemur að inngrip listamannanna fá mann til að upplifa bæði safneignina, safnið sjálft og umhverfi þess á ferskan og lifandi hátt.

Ragna Sigurðardóttir

Höf.: Ragna Sigurðardóttir