Funda Agnar Hansson, forstjóri SPB, á leið á bankaráðsfund í gærkvöldi.
Funda Agnar Hansson, forstjóri SPB, á leið á bankaráðsfund í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Frikki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Láru Ómarsdóttur lom@mbl.

Eftir Láru Ómarsdóttur

lom@mbl.is

„Þetta þýðir bara að við teljum tiltekin verðbréf ekki eins mikils virði og þau voru áður,“ segir Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri aðspurður hvers vegna Seðlabankinn hafi tekið þá ákvörðun að endurmeta verðbréf sem útgefin eru af gömlu viðskiptabönkunum á hálfvirði. Endurmatið mun samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa veruleg áhrif á fjármálafyrirtækin sem hafa lagt verðbréfin fram sem tryggingu fyrir láni hjá Seðlabankanum.

Kom á óvart

Ákvörðun Seðlabankans kom forsvarsmönnum fyrirtækjanna á óvart en þeir höfðu skilið neyðarlögin á þann hátt að þessar eignir væru tryggðar. „Það var skilningur allra að íslenska starfsemin myndi haldast óbreytt en núna er að koma í ljós að svo er ekki,“ sagði forstjóri eins fjármálafyrirtækisins í samtali við Morgunblaðið.

Seðlabankinn tilkynnti um endurmatið síðdegis í gær en fjármálafyrirtækin hafa frest til miðvikudags til að leggja fram auknar tryggingar eða greiða mismuninn.

Reyna að semja

Sparisjóðabankinn sem er að meirihluta í eigu sparisjóðanna stendur verst að vígi en hann þarf að leggja fram tryggingu upp á um 80 milljarða króna fyrir miðvikudag. Það getur hann hins vegar ekki. „Við munum funda með fulltrúum Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar til að fara yfir stöðuna og kanna hvaða lausnir eru mögulegar,“ segir Agnar Hansson, forstjóri bankans.

Seðlabankinn í vanda?

Morgunblaðið ræddi við meirihluta þeirra sem standa í forsvari fyrir fjármálafyrirtækin í landinu. Þeir voru allir á því að Seðlabankinn myndi tapa gríðarlegum upphæðum á þessari aðgerð. Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, segir hins vegar erfitt að spá fyrir um það: „Það verður bara að koma í ljós,“ sagði hann aðspurður hvort bankinn myndi tapa peningum á endurmatinu. Takist til að mynda SPB ekki að semja um skuldir sínar við Seðlabankann eða ríkissjóð gæti þurft að afskrifa þá 150 milljarða sem SPB skuldar Seðlabankanum.