Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Guðlaug Þór Þórðarson: "Markmiðið er sameiginleg þjónusta með einni þjónustugátt, skilvirkari, einfaldari og það sem mestu skiptir: þjónusta sniðin að þörfum hvers og eins."

Viljayfirlýsing um að sameina heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu í stærsta sveitarfélagi landsins, Reykjavík, var undirrituð sl. miðvikudag. Með því urðu tímamót í samskiptum Reykjavíkurborgar og heilbrigðisráðuneytisins, en hingað til hefur heimahjúkrun verið á höndum ríkisins en félagsleg heimaþjónustuna á vegum borgarinnar. Viljayfirlýsingin er þannig mikilvægt skref í átt að bættri þjónustu og um leið réttlætismál fyrir þá sem þjónustunnar njóta.

Sameining

Stefnt er að því að Reykjavíkurborg sameini undir hatti sínum alla heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu. Þetta hefur oft verið rætt á vettvangi stjórnmálanna, embættismenn hafa farið vandlega yfir málin og nú er komið að framkvæmdinni.

Borgarbúar eiga að hafa möguleika á því að geta búið á eigin heimili við öryggi og þátttöku í samfélaginu þrátt fyrir veikindi eða færniskerðingu. Við vitum að þetta er ósk mikils meirihluta þeirra sem á annað borð treysta sér til að vera heima.

Réttlætismál

Sameining þessara þjónustuþátta og styrking almennrar þjónustu á þessu sviði er réttlætismál fyrir þá sem þjónustunnar njóta og sjálfsagður liður í nútímalegri heima- og hjúkrunarþjónustu. Þess vegna er ráðist í þetta verkefni nú.

Reynslan af samþættingarverkefni félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar sýnir að skipulagt samstarf milli þjónustuaðila skilar betri yfirsýn yfir þarfir notenda og heildstæðari þjónustu við notendur. Sameiginlegt skipulag og samræmd stýring þjónustunnar skilar enn betri árangri.

Þjónustan miðist við einstaklinginn

Markmiðið er að gera sameiginlega þjónustu aðgengilegri með einni þjónustugátt, skilvirkari, einfaldari og það sem mestu skiptir: að sníða þjónustuna að þörfum hvers og eins. Mikil áhersla er lögð á að þeir sem starfa við að veita þjónustuna komi að umræðu um hvernig henni verði best hagað. Við höfum einstaklega hæft starfsfólk sem telur þetta mikilvægt skref í átt að því að veita fyrsta flokks þjónustu.

Það eru þeir sem þjónustunnar njóta sem fyrst og fremst er hugsað um, en við erum líka að freista þess að leysa úr læðingi þann mikla kraft, þá hugmyndaauðgi sem er að finna meðal heilbrigðis- og félagsþjónustustarfsmanna sem vilja efla þjónustuna á þessu sviði.

Þegar þetta tvennt fer saman, metnaður og samstaða ríkis og borgar í bland við kraftinn sem við vitum að er að finna meðal þeirra sem þjónustuna veita, þá verður niðurstaðan góð.

Hanna Birna er borgarstjóri Reykvíkinga. Guðlaugur Þór er heilbrigðisráðherra.

Höf.: Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Guðlaug Þór Þórðarson