Eftir Þorbjörn Þórðarson
thorbjorn@mbl.is
ALÞJÓÐA gjaldeyrissjóðurinn [IMF] mun leiða teymi þjóða sem lánar íslenska ríkinu 6 milljarða dollara. Sjóðurinn mun sjálfur lána 1 milljarð dollara og afgangurinn kemur frá Norðurlandaþjóðunum og Japönum, að því er fram kemur í frétt á vefútgáfu dagblaðsins Financial Times.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins mun upphæðin, sem er um 673 milljarðar króna, fara langleiðina með að leysa Íslendinga úr þeim fjárhagserfiðleikum sem þjóðin glímir við.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur ekki náðst fullkomin pólitísk samstaða um lánið í ríkisstjórninni. Geir H. Haarde sagði í kvöldfréttum RÚV á sunnudag að ekki væri um neyðaraðstoð að ræða, heldur hefðbundið lán með vöxtum. Hann sagði jafnframt í gærkvöldi að frétt FT væri byggð á getgátum.
„Þetta er ekki hefðbundið lán, enda er þetta eina lánafyrirgreiðslan sem Íslendingar eiga kost á eins og málum er komið,“ segir Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, en hann sat í framkvæmdastjórn IMF. Fram hefur komið að búast megi við 4% vöxtum á láninu, sem eru tæpir 27 milljarðar í vexti á ári. „Ég tel að gera megi ráð fyrir að slík fyrirgreiðsla verði veitt til þriggja til fimm ára,“ segir Ólafur. Miðað við aðstoð til þriggja ára yrði þetta 81 milljarður í vaxtakostnað, 753 milljarðar samtals, sem íslenskir skattgreiðendur þyrftu að bera vegna lánsins.
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar áttu viðræður við fulltrúa IMF alla síðustu viku og snerust viðræðurnar aðallega um skilyrði sem IMF myndi setja fyrir lántökunni. Ströng skilyrði hafa verið sérstakt áhyggjuefni vegna þeirra skilyrða sem sjóðurinn setti fyrir láni til Suður-Kóreu í kjölfar efnahagskreppunnar í Asíu árið 1997.
Vilja ekki einkavæða Íbúðalánasjóð
Gagnrýnendur hafa haldið því fram að staða efnahagsmála til skamms tíma hafi versnað í Suður-Kóreu eftir aðgerðir sjóðsins.Viðræður íslenskra stjórnvalda og IMF hafa aðallega beinst að bankageiranum, hag- og peningastjórn og vaxtastefnu. IMF hefur viljað fullvissu fyrir því að endurskipulagning bankanna og endurskoðun löggjafar um fjármálastofnanir sé í samræmi við alþjóðlegar reglur og framkvæmd. Sjóðurinn hefur jafnframt óskað eftir ítarlegum skýringum á því hvað það var sem orsakaði hrun bankanna.
Sjóðurinn hefur ekki krafist þess að Íbúðalánasjóður verði einkavæddur og hefur heldur ekki gert kröfu um tímasetningu hugsanlegrar einkavæðingar bankanna. Er litið svo á að þessi afstaða sé merki um að sjóðurinn ætli ekki að láta refsitengd úrræði fylgja láni, segja heimildir FT .
Sjóðurinn mun krefjast þess að íslensk stjórnvöld smíði áætlun um aðhald í ríkisfjármálum í kjölfar gríðarlegrar skuldsetningar landsins sem er talin að verði jafnmikil og verg þjóðarframleiðsla þess. Jafnframt verður íslenskum krónum komið á flot eins fljótt og hægt er. Það þýðir að verðmyndun krónu verður á gjaldeyrismarkaði.
„Vandi okkar núna er að Seðlabankinn er með eitt gengi, sem er í kringum 150 kr. á evru, en öll gjaldeyrisviðskipti á þessu gengi eru skömmtuð. Síðan eru einhver gjaldeyrisviðskipti utanlands á miklu hærra gengi. Verkefni IMF verður að koma aftur af stað markaði með gjaldeyrisviðskipti svo framboð og eftirspurn mætist með eðlilegum hætti. Það er ákaflega jákvætt,“ segir Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. Ásgeir segir stöðuna ekki flókna, Ísland þurfi að leita eftir aðstoð IMF sem allra fyrst.