Jóhannes Fylkir Ágústsson fæddist á Ísafirði 24. desember 1943. Hann lést á Landspítala við Hringbraut 9. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru Ágúst Guðmundsson byggingameistari á Ísafirði, f. 25.6. 1913, d. 19.8. 2002 og Halldóra Bæringsdóttir, f. 26.11. 1912, d. 15.7. 1981. Systkini Fylkis eru: a) Guðmundur, f. 24.9. 1942, maki Bergþóra Bergmundsdóttir. Börn þeirra eru Jóna Björg og Hlynur. b) Ágúst Ingi, f. 22.11. 1947, maki er Inger Jörgensdóttir. Börn hans eru Anna Dóra, Ingi Þór og Gylfi Már. c) Gréta, f. 21.7.1950, maki Ingvar Jón Ingvarsson. Börn þeirra eru Ingvar Ágúst, Sigurlaug og Halldóra. d) Fríða, f. 17.7.1960, maki Magnús Waage. Börn þeirra eru Ólafur og Guðný María.

Fyrri eiginkona Fylkis er Ingibjörg Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru: a) Guðmundur, f. 7.9. 1965, fyrrverandi eiginkona hans er Elín Illugadóttir. Börn þeirra eru Katla, Hekla Margrét og Katrín Tekla. Sonur Elínar er Illugi Pétur.

b) Ágúst, f. 11.2. 1968, sambýliskona Jóhanna Svansdóttir. Börn þeirra eru Íris Inga og Svanur Fannar.

Seinni eiginkona Fylkis er Lára Jensína Haraldsdóttir, f. 9.4. 1945. Börn þeirra eru: a) Jens Andri, f. 18.10.1975, sambýliskona Sigurbjörg Hjálmarsdóttir. Sonur hans og Ásgerðar Magnúsdóttur er Fylkir Eyberg. b) Jóhanna, f. 10.11. 1979, sambýlismaður Samúel Orri Stefánsson, sonur þeirra er Grétar Smári.

Fylkir gekk sína skólagöngu á Ísafirði, einnig sótti hann lýðháskóla í Danmörku 1961-62 og þar byrjuðu hans sterku tengsl við Danmörku. Fylkir starfaði hjá fyrirtækinu Base við uppsetningu á fyrsta bónuskerfinu í frystihúsum á Vestfjörðum. Síðan vann hann sem bókari hjá skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar og Niðursuðuverksmiðjunni á Ísafirði. Hann stofnaði sína eigin bókhaldsþjónustu sem hann rak til dánardags, ásamt því að reka ferðaskrifstofuna Fylkir.is sem sérhæfði sig í sumarhúsum og bílaleigubílum í Danmörku. Fylkir byrjaði ungur að árum að æfa sund og keppti í 100 og 200 m bringusundi og varð Íslandsmeistari 1964 og1965. Einnig keppti hann á Norðurlandamóti í Finnlandi 1965. Hann var einn af þeim sem endurvöktu sunddeild Vestra og þjálfaði þar í mörg ár. Sundsamband Ísland sæmdi hann silfurmerki fyrir störf hans. Fylkir var mikill félagsmálamaður en á yngri árum tók hann þátt í starfi Litla leikklúbbsins á Ísafirði, bæði sem leikari og í stjórn klúbbsins, einnig starfaði hann fyrir Félag slökkviliðsmanna á Ísafirði. Hann starfaði með Junior Chamber, bæði á Ísafirði og svo fyrir landshreyfinguna, meðal annars var hann landsforseti JC Íslands. Einnig var hann félagi í Rotaryhreyfingunni á Ísafirði. Fylkir tók þátt í bæjarmálum á vegum Framsóknarflokksins á Ísafirði og gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum í Vestfjarðakjördæmi. Fylkir var einn af stofnendum Félags bókhaldsstofa. Fylkir var ræðismaður Danmerkur á Ísafirði frá 1991 til 2007 er hann flutti búferlum til Hveragerðis. Hann var sæmdur Dannebrogorðunni fyrir störf sín í þágu danska ríkisins árið 2000 af Danadrottningu.

Útför Fylkis fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er ekki til nein uppskrift að sorginni, þ.e. hvernig maður tekst á við hana. Einn hluti sorgarferlis er að rifja upp liðna tíð og það ætla ég að gera.

Fyrsta minningin er þegar við feðgar bjuggum saman, hann þá rétt um þrítugt og ég 7 ára. Við nutum þess að búa nálægt ömmu og afa og því samgangurinn við þau mikill. Ég man eftir pabba alltaf í vinnunni, hann vann hjá Massa á daginn og svo var hann með bókhaldsstofu heima. Frítímann notaði hann til að taka þátt í starfi Litla leikklúbbsins og lék m.a. Lykla-Pétur í Gullna hliðinu. Pabbi var á kafi í frímerkjum og ungur lærði ég að leysa upp frímerki, kanna með takkana, þurrka þau og flokka. Oft var stofan undirlögð í dagblöðum sem notuð voru við þurrkinn.

Pabbi starfaði með slökkviliðinu á Ísafirði í mörg ár, því lauk svo í framhaldi af aðgerð sem hann fór í 2005 hvar mein var fjarlægt úr hálsi og raddband skaddaðist. Þá gat hann ekki lengur séð um síma- og talstöðvarsamskiptin.

Pabbi var íþróttamaður mikill á yngri árum, afreksmaður í sundi. Hann var því stór og stæltur þó svo brjóstkassinn hafi síðar færst aðeins neðar, sem stundum var talað um sem fjölskyldueinkenni, og áttum við okkar sérstaka fjölskyldufaðmlag sem kætti marga. Pabbi hafði gaman af því að kæta börn með sögum sem kallaðar voru Búkollubullusögur en þar var bóndasonurinn nánast eins og James Bond með útbúnaðinn sinn, allt í einum bakpoka. Yngri systkini mín, síðan börnin mín og önnur barnabörn hans nutu þessara sagna. Því miður auðnaðist okkur ekki að skrá þær niður, öðrum til skemmtunar síðar. Pabbi hafði stóran og mjúkan faðm og svaraði jafnan þegar barnabörnin báðu um eitthvað eða eitthvað var að, „til hvers eru afar?“ og breiddi svo út faðminn. Pabbi var uppátækjasamur og skemmti mörgum með uppátækjum sínum. Hann var einn af þeim sem endurvöktu Sunddeild Vestra og fór margar sundferðir með unglingunum þar. Þegar þurfti að koma þeim í svefn og eins þegar þurfti að koma þeim á fætur þá hótaði hann að syngja fyrir þau, sagðist taka Hamraborgina. Oftast dugði það til skjótra viðbragða. Barnabörnin fengu einnig að njóta þessa því hann byrjaði oft á afmælissöngnum og báðust þau þá strax vægðar. Barnabörnin sögðu að þetta hafi lagast talsvert eftir aðgerðina 2005, söngurinn var ekki eins sár á að hlusta. Pabbi var mikill félagsmálamaður og eignaðist mikið af vinum og kunningjum í gegnum félagsstörf. Hann ferðaðist mikið vegna félagsmála og fór m.a. til Suður-Afríku og svo Japans vegna JC. Þegar ég hóf búskap með Elínu þá myndaðist strax sérstakt og gott samband þeirra í millum. Það samband, tengdadóttur og tengdaföður, varði enn eftir okkar skilnað, allt til dauðadags pabba.

Lífsgæðakapphlaupið var eitthvað sem pabbi var ekkert sérstaklega að taka þátt í, hann lagði aftur á móti mikið upp úr því að fólki liði vel og gæti hann eitthvað gert til þess að auka vellíðan, þá gerði hann það. Þannig þróaðist t.d. Ferðaskrifstofan hans úr litlu hobbýi í hlutastarf mjög hratt, vegna þjónustulundar hans. Guð geymi pabba.

Guðmundur Fylkisson.

mbl.is/minningar

Elsku afi. Mikið finnst okkur það sárt að þú skulir vera dáinn og farinn frá okkur. Þú varst alltaf svo góður við okkur og Illuga bróður okkar. Þú varst alltaf tilbúinn að faðma okkur að þér og sagðir alltaf: „til hvers eru afar?“ Þú varst alltaf að hrekkja okkur þegar við áttum afmæli, afi, þú fórst að syngja fyrir okkur en það var búið að kenna okkur að segja vægð og þurftum við stundum að segja það oft til að þú hættir að syngja. Afi, við vitum núna að þegar það kemur mjög vont veður þá ert þú að syngja fyrir einhvern þar sem þú ert og vonda veðrið er til að fá þig til að hætta að syngja.

Elsku afi, við eigum ekki eftir að sjá þig aftur en við eigum svo góðar minningar um þig.

Katla, Hekla Margrét og Katrín Tekla Guðmundardætur.

Elsku bróðir, við systurnar kveðjum þig með miklum söknuði. Þú varst fyrirmyndin okkar og minningin um þig mun ávallt lifa.

Systurnar, önnur 15 ára á gelgjunni og hin 5 ára sem situr inni á gangi og leikur sér með bangsann og er í mömmuleik. Þær eiga eldri bræður sem eru með ljósmyndadellu, sú yngri var fyrirsætan, þeir taka myndir, fullt af myndum, svarthvítum og í lit. Myndaserían er til enn þann dag í dag framkölluð í myrkraherberginu í kjallaranum.

Að eiga stóra bróður voru mikil forréttindi. Hann var kletturinn í lífi allrar fjölskyldunnar.

Litla systir fékk að gera flest enda fordekruð af honum. Hann keyrði hana í útilegur og sótti aftur, þótt hann þyrfti að keyra í nokkra tíma. Hann kenndi henni að keyra, lét bílinn í hennar hendur þegar hún var ekki komin með bílpróf og þau fóru að sækja foreldra okkar í Bjarkalund. Þeirri bílferð gleymir hún seint. Á yngri árum átti sundið hug hans allan og var hann keppnismaður mikill og þegar stóra systirin hlýddi honum ekki í þjálfuninni var hún rekin upp úr lauginni og mætti ekki frekar í sund.

Fylkir vissi allt, var með svör við flestu, rólegur, traustur bróðir og þegar ákveða þurfti eitthvað sagði hann: Við höfum ákveðið að vera sammála en það er ég sem ræð.

Margar ferðirnar höfum við öll ferðast saman til Danmerkur og eins hefur alltaf verið til reiðu herbergi í Fjarðarstrætinu fyrir gesti og gangandi, þegar spurt var um gistingu var svarið alltaf hvort vilt þú herbergi númer 17 eða 23. Hann var matmaður mikill og ekkert til sparað í matarboðum. Það var hann sem kallaði saman alla stór fjölskylduna, fyrst fyrir a.m.k. 10 árum um verslunarmannahelgi, og þá var grillað í garðinum í Fjarðarstrætinu. Þessari hefð hefur verið haldið við nokkrum sinnum síðan, á öðrum stað og alltaf fjölgar í stór fjölskyldunni. Þegar fjölskyldumyndir voru teknar við þessi tækifæri kallaði hann á alla að koma í beina röð fyrir aftan hann. Hann var mikill barnakall, hann gladdist yfir allri fjölgun í fjölskyldunni. Honum var umhugað um alla hvort sem þeir voru litlir eða stórir, hringdi ef eitthvað bjátaði á, mætti með bakkelsi í morgunkaffi um helgar, því hann vissi ekki hvort systurnar ættu eitthvað með kaffinu.

Ferðirnar okkar með honum og Láru til Danmerkur eru gimsteinar sem við eigum í minningunni. Ferðin sem við fórum sjö saman 1996, við systurnar ásamt mökum og systurdóttur, keyrðum yfir 4000 km á tíu dögum um alla Danmörku þvers og kruss til að skoða sumarhúsabyggðir. Um áramótin þegar Fylkir varð sextugur fórum við systurnar ásamt mökum, vinahjónum og frænda til Danmerkur og fögnuðum með honum, ferð sem seint líður úr minni.

Elsku Lára, börn, tengdabörn og barnabörn, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Megi minning um góðan dreng veita ykkur styrk.

Greta og Fríða,

stóra og litla systir.

Elsku frændi.

Mikið er erfitt að sitja hér og vera að skrifa minningargrein um þig, sem fyrir mér og mínum varst ekki að fara þessa leið. Ekki er nú langt síðan ég og mín fjölskylda heimsóttum ykkur í Hveragerði en það reyndum við að gera eftir að hafa verið á Selfossi og var þetta góð hjáleið á leiðinni heim. Eins þegar þið bjugguð á Ísafirði, þá heimsóttum við þig og Láru alltaf og voru það góðar stundir, þótt það hafi iðulega verið Lára sem sat uppi með okkur því neðri hæðin kallaði, síminn hringdi og verið var að panta bíla eða sumarhús. Alltaf var gott að heimsækja ykkur og eru það minningar sem gott er að halda í og hugsa um. Minningar um sumur á Ísafirði svona í seinni tíð eru ofarlega í huga og þá sérstaklega þegar „grjótaættin“ mætti í öllu sínu veldi og grillaði í garðinum hjá ykkur Láru eftir velheppnaða kastalakeppni „sem við unnum að sjálfsögðu“ og allir borðuðu saman grillmat og léku sér, eða þá helgin sem allir hittust í bústaðnum hjá Jónasi og Obbu og borðuðu saman og fóru í leiki með börnunum okkar, sama á hvað aldri þau voru. Þessar verslunarmannahelgar eru ómetanlegar, að hafa verið með fjölskyldunni, því þá skilur maður hvað „stórfjölskylda“ er. Fyrir mér varstu höfuð fjölskyldunnar, „afi“ barnanna minna og vinur minn. Ég hringdi oft til þín að leita ráða um ýmislegt og fékk svör við flestum spurningum mínum. Þú leiðbeindir mér á þá braut sem skynsamleg var, eða því trúi ég. Þú varst alltaf tilbúinn að hlusta og komst iðulega með hnyttin svör, svona eins og Ágúst afi.

Það þekktu allir Fylki frænda og er ég stolt af því að vera skyld honum.

Þakka ég fyrir allar þær stundir sem ég átti með þér elsku frændi og þinni fjölskyldu.

Elsku Lára, Guðmundur, Ágúst, Jens Andri og Jóhanna. Ykkur sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og verð með ykkur í huga á þessari stund.

Anna Dóra Ágústsdóttir

og fjölskylda.

Í dag kveðjum við móðurbróður minn, Fylki Ágústsson. Frá því ég man eftir mér var Fylkir hinn eini sanni stóri frændi, hann var Stóri-Grjóti. Það var ekki bara vegna þess hve stór hann var heldur líka vegna þess að hann var ein af stoðum okkar, hann var sameining stórfjölskyldunnar.

Þegar við fórum vestur á Ísafjörð þegar ég var lítil var alltaf farið í Fjarðarstrætið til Fylkis og Láru, þar voru alltaf stórveislur og ekkert til sparað. Húsið þeirra var stórt, ennþá stærri var kærleikurinn og húmorinn, hann var risastór.

Ég var svo heppin að fá að eyða góðum tíma tvö sumur í Fjarðarstrætinu hjá Fylki og Láru. Ég flaug vestur til þess að leika við Jóhönnu dóttur þeirra. Mín sterkasta minning um þessar heimsóknir er um stundirnar sem við Jóhanna áttum áður en við fórum að sofa. Þá kom Fylkir til okkar og sagði okkur Búkollubullukollusögur. Það var mikið hlegið og alltaf báðum við frænkurnar um fleiri sögur. Þegar fjölskyldurnar fóru saman í sumarbústað vorum við frænkurnar fljótar að draga Fylki inn í herbergi á kvöldin til að segja okkur búkollubullukollusögur. Enginn annar getur sagt þessar sögur eins og Fylkir gerði og mun ég alltaf geyma þær í hjarta mínu.

Í brúðkaupi mínu og Magnúsar var Fylkir fljótur að koma með smá grín, hann var viss um að ég kynni ekki að gera bindishnút og lét á það reyna. Ég reyndi en ekkert gekk. Hann hafði á réttu að standa, þetta var eitthvað sem ég kunni alls ekki en kann í dag, þökk sé Fylki. Þegar afi Gústi dó var stórfjölskyldan öll samankomin á Ísafirði, þar var eins og í flestöllum fjölskyldusamkomum mikið verið að taka myndir. Ein myndin frá þessum tíma er af mér og Fylki, þar erum við að monta okkur af bumbunum okkar, í minni bumbu leyndist stúlkubarn en ekki veit ég hvað var í hans bumbu. Þessi mynd kemur mér alltaf til að hlæja.

Ég ásamt manni mínum og þremur börnum áttum saman góðar stundir með Fylki og Láru. Magnús maðurinn minn og Ingi Valur mágur minn aðstoðuðu Fylki við smíðavinnu í Fjarðarstrætinu og svo í Fylkishöllinni í Hveragerði. Stundum fylgdum við Silla systir þeim eftir með krakkaskarann okkar. Eins og alltaf var stór faðmur sem tók á móti okkur, ekkert mál að skella læri í ofninn og Lára var ekki lengi að setja eitthvað gott á borðið eða lauma til okkar prjónaflíkum á krakkana. Fylkir var mikill barnakarl og var afi allra barna sem komu á hans heimili.

Fyrir mína hönd og systkina minna, Ingvars og Sillu, vil ég votta fjölskyldu Fylkis okkar dýpstu samúð.

Elsku Lára okkar, Guðmundur, Ágúst, Jens Andri, Jóhanna, tengdabörn og barnabörn, elsku mamma, Guðmundur, Ágúst Ingi, Fríða og aðrir aðstandendur, missir ykkar er mikill. Hugur okkar er hjá ykkur og minning okkar um Fylki mun ávallt fylgja okkur. Guð veri með ykkur og styrki.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(Hallgrímur J. Hallgrímsson.)

Halldóra Ingvars- og

Gretudóttir.

Við kveðjum góðan frænda og vin. Hann Fylkir, þessi mikla kempa, hefur orðið að lúta í lægra haldi fyrir illvígum sjúkdómi. Harmur er kveðinn að okkur frændsystkinum og ástvinum við fráfall hans.

Margs er að minnast á langri leið. Við frændurnir fæddumst á sama árinu inn í þá merku „Grjóta“-ætt á Ísafirði og vorum því mjög ungir þegar fyrstu fundum okkar bar saman. Þótt minnið nái ekki svo langt aftur, hljóta þessi fyrstu kynni að hafa lagt grunninn að ævilangri vináttu okkar frændanna. Á yngri árum var ýmislegt brallað eins og gerist og gengur hjá frískum púkum, til að mynda stolist til veiða á forboðnum slóðum eða nælt í góðgæti úr nærliggjandi hjöllum eða görðum. Allt eru þetta löngu gleymdar syndir sem tilheyra því æviskeiði þegar ábyrgðartilfinningin er óþroskuð.

Á fullorðinsárunum treystust vináttuböndin enn frekar og við áttum alla tíð náið og gott samstarf, sérstaklega eftir að við báðir hófum sjálfstæðan atvinnurekstur. Það voru einnig sameiginleg áhugamál eins og sælkerakvöldin sem styrktu vináttuböndin. Fyrir öll þessi góðu ár og samferðina með frænda mínum verð ég ævinlega þakklátur.

Við Sigurlín sendum Láru og öllum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessari sorgarstundu. Megi minningin um góðan dreng ávallt lifa í hugum okkar.

Gylfi Gunnarsson.

Horfinn er á braut mikill maður – á velli og í hjarta. Fylkir Ágústsson var maður sem mjög gaman var að umgangast – ávallt var stutt í brosið, stríðnina og fróðleik um allt mögulegt. Það reynist mér erfitt að setjast niður og skrifa niður línur um stóra frænda minn sem var mér svo mikið. Fylkir var ávallt til staðar fyrir mig og mína. Alltaf var hægt að reiða sig á að frændi minn væri til staðar, hvort sem var til að gleðjast með mér eða til að hlusta á mig þegar erfiðlega gekk í lífinu. Ef það var eitthvað sem mig vantaði svar við, var nóg að taka upp símann og hringja í þig, frændi, og þú áttir svar við nánast öllu.

Við áttum svo margt sameiginlegt sem gerði það að verkum að dagleg umgengni okkar var mikil. Sundið átti hug okkar og hjarta og svo var það pólitíkin sem alltaf var hægt að ræða við þig um þannig að Fjarðarstræti 15 var staður sem alltaf var gaman að kíkja við á. Ef þú hafðir ekki tíma þá var alltaf heitt á könnunni og alltaf var eitthvað til með kaffinu og Lára tók vel á móti manni. Þið Lára höfðuð mjög gaman af því að fá gesti í heimsókn og veittuð alltaf vel. Jólaboðin og tilraunaeldhúsið, sunnudagssteikin og svo kvöldmaturinn þegar ég var á mínum menntaskólaárum. Alltaf hringdir þú og sagðir að það væri kominn matur en ég hvarf aftur til barnsáranna við þetta því að amma sendi mig til þín til að segja þér að það væri kominn matur.

Ég fann það á stóra frænda mínum að hann að hlakkaði til að takast á við nýjar áskoranir í lífinu. Nýfluttur í Hveragerði eftir að hafa átt heima í 500 m radíus á Ísafirði allt þitt líf. Búin að minnka við þig vinnuna og þannig tilbúinn til að slaka á og takast á við nýja hluti. Ég var farinn að hlakka til að fá tækifæri til að ræða meira við þig um lífsins gagn og nauðsynjar og gefa börnunum mínum færi á að kynnast þér og öllu því frábæra sem þú hafðir fram að færa í lífinu.

Þegar þú fórst í aðgerðina á raddböndunum fannst mér þú takast vel á við það. Sagðir að þú hefðir farið í aðgerð til að laga söngröddina þína. Varst með æfingar á ísskápnum heima til að þjálfa upp röddina og hafði mjög gaman af því að sýna mér þegar þú varst að æfa þig.

Þú veiktist fyrir stuttu og síðasta skiptið sem ég heyrði í þér í síma svaraðir þú „krabbameinsdeildin, Fylkir talar“ – alltaf stutt í brosið. Þannig mun ég muna eftir þér, alltaf brosandi og kátum.

Frændi, ég vil þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér í lífinu, allan þann tíma sem þú gafst mér, ráðin sem þú færðir mér og þá gleði sem þú færðir mér. Það er erfitt að segja bless við þig en ég man það sem þú stóðst fyrir og mun halda því á lofti. Þegar ég svo syndi í nýju lauginni á Ísafirði mun ég hugsa um þig því að síðan ég man eftir mér hefur þú verið að tala um þessa nýju laug.

Elsku Lára, Gummi, Gústi, Jens Andri og Jóhanna, guð gefi ykkur styrk á þessum tíma.

Ég sakna þín, frændi.

Ingi Þór Ágústsson.

Ég var um tvítugt þegar ég ákvað að flytja á Ísafjörð yfir sumarið. Ég vissi bara það eitt að ég ætti fullt af ættingjum á Ísafirði, var ekki búin að hitta neinn af þeim og nú væri tíminn.

Mitt fyrsta hús var hjá Fylki og Láru. Þann dag bankaði ég í fyrsta og eina skiptið á þeirra dyr. Eftir okkar fyrstu kynni stóðu mér dyrnar

ætíð opnar. Þar var alltaf hlátur, hlýja og væntumþykja og þannig hefur mér liðið þegar ég hugsa til Fylkis og Láru. Ég kveð Fylki frænda með eftirsjá eftir því að hafa

ekki nýtt tímann betur eftir að ég kynntist honum og gleði yfir að hafa drifið mig vestur og kynnst ykkur öllum.

Fyrir vestan var ég auðvitað spurð hverra manna ég væri, enda þekkti mig enginn, ég sagðist stolt vera af Grjótaættinni og fékk þá ætíð svarið, „Já, frænka Fylkis“. Þar með var ég tekin í sátt og vegir mínir færir fyrir vestan.

Hvíl í friði.

Fanný frænka.

Með miklum söknuði kveðjum við starfsfólk danska sendiráðsins fyrrverandi ræðismann okkar, Fylki Ágústsson.

Fylkir var mjög náinn og góður vinur okkar, en hann var tilnefndur ræðismaður Dana á Ísafirði árið 1991. Þar tók hann við af Ruth Tryggvason ræðismanni, sem hann hafði liðsinnt í mörg ár. Í rúm 17 ár gætti hann hagsmuna Dana á Norðvesturlandi af mikilli vandvirkni og samviskusemi. Um var að ræða hin margvíslegu störf ræðismanns, sem oft á tíðum kröfðust skjótra viðbragða og góðra mannlegra eiginleika. Hvort tveggja upfyllti Fylkir til fulls. Hann var þar að auki einkar vel að sér í samfélagsmálum Ísafjarðar og fann alltaf réttu lausnirnar á þeim margvíslegu vandamálum, sem hann fékk til úrlausnar sem ræðismaður Dana. Tengslanet hans náði til allra þátta bæjarmála, þ.e. bæjarstjórnar, yfirvalda, viðskipta- og menningarlífs og hafnaryfirvalda o.fl.

Komur danskra skipa til Ísafjarðar gengu alla tíð vel, þá ekki síst reglulegar komur varðskipa danska sjóhersins er heimsóttu staðinn í sambandi við eftirlitssiglingar sínar við austurströnd Grænlands.

Fylkir tók þátt í og undirbjó heimsókn hennar hátignar Margrétar II. Danadrottningar til Ísafjarðar vorið 1998, sem heimsótti staðinn í fylgd forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar. Var hér um viðburðaríka og eftirminnilega heimsókn að ræða, sem lifir í minningu allra þátttakenda.

Auk skyldustarfa sinna sem ræðismaður Dana hafði Fylkir, vegna viðskiptastarfa sinna, mikið og náið samband við danskar ferða- og útleiguskrifstofur. Óteljandi eru þær íslensku fjölskyldur og einstaklingar sem hann ár eftir ár aðstoðaði við leigu á sumarbústöðum, íbúðum og bifreiðum vegna sumardvalar þeirra í Danmörku. Fylkir efldi með þessari umfangsmiklu vinnu sinni sambönd sín í Danmörku og varð bæði þekktur og virtur í dönsku samfélagi.

Fylkir og Lára ákváðu að flytja til Hveragerðis, eftir nokkra umhugsun, þar sem þau byggðu sér hús. Fylkir sendi þess vegna inn lausnarbeiðni frá starfi sínu sem ræðismaður Dana á sl. ári. Við starfslok var honum þakkað margra ára starf í þágu Dana með viðurkenningu frá utanríkisráðuneytinu í Kaupmannahöfn og var hann sæmdur Dannebrogsorðunni árið 2000.

Við í sendiráðinu mátum Fylki mikils, ekki síst vegna góðrar kímnigáfu hans og traustvekjandi persónuleika. Það er ekki langt síðan hann og Lára litu við í sendiráðinu, eins og þau voru vön að gera, þegar þau komu til Reykjavíkur. Var þetta að venju notaleg samverustund og það gladdi okkur að heyra hversu vel þau höfðu komið sér fyrir í Hveragerði.

Hugsanir okkar eru nú hjá Láru og fjölskyldunni. Er það von okkar að þið finnið huggun harmi gegn í minningunni um góðar samverustundir með Fylki.

Blessuð sé minning góðs drengs.

Lasse Reimann,

sendiherra Dana.

Það er sárt að missa góðan vin. Okkar vinskapur hófst þegar við vorum á landsþingi Junior Chamber 1977, þegar Fylkir var kosinn landsforseti JC og ég var kosinn gjaldkeri landsstjórnar. Með okkur hófst mjög gott samstarf og náin kynni við Fylki og Láru konu hans og vinátta sem haldist hefur óslitið síðan. Fylkir rak bókhaldsstofu og ferðaskrifstofuna Fylkir.is og sérhæfði sig í útleigu á sumarhúsum og bílaleigubílum í Danmörku og var bestur á því sviði þar. Við fórum oft með þeim hjónum til Danmerkur á jólaföstu til að „hygge seg“ eins og Daninn segir, borða góðan mat (julefrokost) og dansa, þetta voru alltaf skemmtilegar ferðir, fullar af gleði og húmor. Eins og þegar við ætluðum að keyra eftir korti, þá var það lagt á götuna og Fylkir keyrði yfir það. Þá var mikið hlegið.

Fylkir hélt að hann væri einstaklega ratvís, en þegar við vorum búin að fara tvisvar inn í sömu götu sem var ekki rétta gatan þá var kortið tekið fram og einhver þurfti að lesa kortið og eftir að hafa paufast í myrkri við að reyna að finna sumarhús í skóginum þá var alltaf vasaljós með í för.

Nokkrar veiðiferðir voru farnar saman í Vatnsdalsána, á silungasvæðið, alltaf glatt á hjalla og sögurnar sem sagðar voru eftir á voru margar mjög skemmtilegar, því Fylkir kunni svo sannarlega að segja skemmtilega frá.

Tvisvar unnum við fyrir hann á heimsmeistaramóti hestamanna, fyrst í Herning í Danmörku og síðan í Eindhowen í Hollandi. Hann útvegaði mönnum ferðabíla og hjólhýsi, þetta var vinsælt og voru ýmsir búnir að hafa samband við hann fyrir næsta heimsmeistaramót sem verður í Sviss á næsta ári.

Jólin 2003 hélt hann upp á 60 ára afmælið sitt úti í Danmörku. Þangað bauð hann öllum börnum og barnabörnum og áttu þar góðar stundir saman. Við komum svo til þeirra milli jóla og nýjárs ásamt systrum hans og mágum og fleiri skyldmennum. Þetta voru frábær áramót langt úti í sveit í góðum félagsskap.

Þegar það kom til tals að þau Lára myndu flytja suður, þá var farið á stúfana að leita að stað og fórum við nokkrar ferðir um suðurlandið og skoðuðum okkur um. Hveragerði varð fyrir valinu, þar var pósthús, banki og Essó og stutt í bæinn. Við byggðum saman parhús en því miður varð dvölin þar styttri en nokkurn óraði fyrir.

Það er næsta víst að JC-félagar sem fallnir eru frá, taka vel á móti fyrrverandi landsforseta.

Allar okkar minningar um Fylki eru góðar og skemmtilegar, hann var mikill húmoristi og var fljótur að finna spaugilegu hliðarnar á tilverunni. Þannig kveðjum þig, elsku vinur.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Elsku Lára og börn, Guð veri með ykkur og styrki ykkur í sorginni.

Ykkar vinir

Örn Sævar og Viktoría.

Fylkir Ágústsson, einn öflugasti stuðningsmaður Sundfélagsins Vestra, er nú fallinn frá. Fylkir var á sínum yngri árum mikill sundmaður og vann til margra verðlauna og titla með Vestra og í nokkur ár átti hann Íslandsmetið í 100 m. bringusundi, en það var hans aðalgrein.

Í kringum 1980 þegar starf sunddeildar Vestra hafði legið niðri í mörg ár, var hann einn af þeim sem rifu starfið upp á nýjan leik og sáu um að ráða fyrst þjálfarann sem kom til starf hér þá, en þetta varð síðan til þess að Sundfélagið Vestri var stofnað. Hann starfaði með félaginu í mörg ár og undanfarin ár hefur hann verið endurskoðandi félagsins og séð um ársreikninga þess. Eftir að hann hætti beinum afskiptum af sundíþróttinni fylgdist hann samt mjög vel með því sem var að gerast bæði hér heima og á landsvísu, hann stóð m.a. fyrir sjónvarpsmóti í sundi – áskorendamótinu – sem var mjög vinsælt sjónvarpsefni á sínum tíma. Hann fylgdist vel með öllu „okkar fólki“ eins og hann sagði þegar þau fóru héðan til annarra félaga til að geta keppt í stærri og betri laug. En það var einn af hans helstu draumum að sjá sundfélagið keppa í nýrri og betri laug. Hann þreyttist aldrei á að tala um þann draum sinn og alveg síðan 1960 hefur hann komið að nokkrum teikningum að nýrri laug. Vonandi á sá draumur hans eftir að rætast fyrr en síðar.

Þegar ég tók við formennsku í Sundfélaginu Vestra fyrir 2 árum gat ég ávallt treyst því að Fylkir hefði svör á reiðum höndum um allt það sem mig þurfti að fá að vita og skipti þá ekki máli hvort hann var í Danmörku, eða annarstaðar í heiminum þegar ég hringdi, alltaf tók hann spurningunum vel og svaraði um hæl. Fylkir var einn helsti styrktaraðili félagsins hvort sem um var að ræða að styrkja okkur í dósasöfnun, páskaeggjahappdrættinu eða öðru því sem félagið var að stússast í.

Ég vil fyrir hönd félaga í Sundfélaginu Vestra þakka Fylki og fjölskyldu hans þann stuðning sem þau hafa ávallt sýnt félaginu, um leið og við sendum Láru og börnunum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður Guð veita ykkur styrk í sorginni.

Margrét Högnadóttir,

formaður Sundfélagsins Vestra.

Skarð er fyrir skildi í hópi félaga sem kynntust á vettvangi Félags bókhaldsstofa fyrir tæplega 20 árum og bundust vináttuböndum. Fallinn er góður félagi og komið að kveðjustund, allt of snemma. Minningarnar um Fylki Ágústsson eru margar og bjart er yfir þeim öllum enda var hann afar gefandi og skemmtilegur í hópnum sem kallar sig Fýlupúkana. Eins og nærri má geta lýsir nafngiftin húmor félaganna enda hafa margir skemmt sér yfir þessu öfugmæli.

Fundir í félaginu hafa ekki verið margir á ári hverju en þeim mun eftirminnilegri og skemmtilegri. Hápunktur slíkra samkomna hafa verið hinir árlegu aðalfundir að hausti. Það er dapurlegt að vera að setja á blað minningarorð um Fylki sama kvöld og ráðgert hafði verið að halda aðalfund og vonast hafði verið eftir að hann yrði hrókur alls fagnaðar eins og jafnan áður. Minningarnar um góða samveru hrannast upp. Eitt af því sem hæst ber er ferð til Danmerkur. Ferðin var farin að frumkvæði Fylkis og undir fararstjórn hans en hópurinn, ásamt eiginkonum, átti þar nokkra dýrðardaga í tilefni 10 ára afmælis félagsins. Fylkir var mikill á velli en ekki síður mikill persónuleiki. Félögum í Fýlupúkafélaginu hefur fækkað um 20% við fráfall hans en hlutfallið er miklu hærra þegar um er að ræða andlega og líkamlega burði. Svona er þetta blessað líf, enginn veit hver annan grefur – dauðinn er alltaf gestur, hann kemur en enginn veit hvenær. Við sem eftir lifum geymum minningarnar um tryggan vin. Hugur okkar er hjá Láru og fjölskyldunni allri. Við biðjum þeim guðs blessunar og huggunar á erfiðum tímum.

Ármann, Jón Sig., Jón Sverrir og Þórhallur.

Þegar frétt barst af óvæntu og ótímabæru fráfalli Fylkis Ágústssonar komu fram í hugann margar góðar minningar tengdar sunddeild Vestra og óeigingjörnu starfi hans þar. Fylkir var einn aðalhvatamaðurinn að endurreisn sunddeildarinnar á áttunda áratugnum og vann þar um árabil sjálfboðastarf sem seint verður fullþakkað. Enginn var fróðari um sögu sunddeildarinnar en hann enda svaraði móðir einnar okkar því þegar við fórum að velta fyrir okkur hvaða ár sunddeildin var endurreist „nú hefði ég hringt í Fylki“. Fylkir laðaði okkur krakkana að og hvatti endalaust áfram. Fyrstu skref okkar í sundinu eru mjög minnisstæð, Fylkir á bakkanum að gefa skipanir og leiðbeina með sinni djúpu röddu.

Minningar spretta fram um óteljandi sundmót og æfingabúðir, ferðir vítt og breitt um landið á allskyns faratækjum, flugvélum stórum og smáum, varðskipi og rútum, svo eitthvað sé nefnt. Oft voru veður válynd og þá þurfti með stuttum fyrirvara að breyta áætlun og finna aðra ferðamöguleika. En engin vandamál voru óleysanleg þegar Fylkir var annars vegar. Það var aðeins einu sinni sem við gistum á hóteli, annars fengum við inni í skólum og félagsheimilum þar sem allir sváfu á dýnum, stórir sem smáir. „Hamraborgin mín há og fögur“ hljómaði á hverjum morgni í flutningi Fylkis í þessum ferðum, enda engin betri leið til að koma þreyttum sundmönnum á fætur í skyndi! Eftirminnileg er æfingaferð til Danmerkur sem Fylkir undirbjó og skipulagði af sínum alkunna skörungsskap.

Á fullorðinsaldri er manni nánast óskiljanlegt hvernig hægt er að leggja slíka vinnu á sig af áhuga einum saman og hljóta í mesta lagi smávegis þakklætisvott frá óstýrilátum unglingum. Fylkir var ætíð bóngóður og áttum við vináttu hans alla tíð, þétt sund-handtak og faðmlag áttum við alltaf víst þegar við hittum hann á förnum vegi. En enginn maður stendur einn í svona starfi og við vitum að Lára kona hans stóð ætíð við hlið hans og fylgdist með öllu starfinu. Við kveðjum Fylki með miklum söknuði og sendum Láru, börnum þeirra, barnabörnum og öðrum ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um stóran og mikinn mann, í öllum skilningi, lifir um aldur og ævi meðal sundmanna sunddeildar Vestra.

Fyrir hönd „gömlu“ sundpúkanna,

Björg Aðalheiður Jónsdóttir og Þuríður Pétursdóttir.