Hólmfríður Jónsdóttir fæddist í Ystafelli í Köldukinn 4. febrúar 1921. Hún lést í Reykjavík 11. október síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Akureyrarkirkju 20. október.

Enn fellur öðlingur frá. Hugurinn kallar fram myndir af fjörkálfinum Fríðu frænku, heimskonunni, fræðimanninum, pólitíkusnum, dömunni, matmóðurinni og sálufélaganum. Eins og margir af ættinni átti ég á menntaskólaárum athvarf hjá Fríðu frænku í Vanabyggðinni og ég er örugglega ekki eini MA-ingurinn sem virti hana sem einstakling og hafði auk þess á henni matarást. Margir fengu hjá Fríðu þá staðgóðu næringu sem er nauðsynleg hverjum þeim sem vill ná árangri í námi og starfi. Næringin var jafnt til líkama og sálar. Fríða þekkti ekki kynslóðabil eða aldursmun. Hún ræddi við unglinginn sem jafningja um ótrúlegustu málefni, skoðanaföst og afdráttarlaus án fordóma í garð skoðana annarra. Hún var eldheit hugsjónamanneskja og dró ekki af sér á pólitískum vettvangi.

Heimili hennar stóð öllum opið og á blómaárum kvennalistans var þar oft margt um manninn og umræður heitar, menntaskólastúlkunni fannst stundum nóg um kliðinn í Fríðu, Möllu og stöllum þeirra. Fríða var skemmtilegur félagi í leik, kát og full af glettni, ég minnist ferða okkar á „rúntinn“ ég þá tæplega tvítug og Fríða komin á sjötugsaldur, þá var sko hlegið og skrafað og ekki endilega valdar hefðbundnar leiðir. Eins og gengur varð vík milli vina með árunum og við hittumst sjaldnar, en aldrei slaknaði á tryggð og hlýju Fríðu.

Allar fallegu kveðjurnar sem hún sendi „vininum sínum“ eru geymdar í minningunni og Passíuálmarnir munu fylgja honum um ókomin ár. Það er margs að minnast og margt að þakka, því verður ekki komið í orð en ég trúi að frænka hefði getað gert orð Arnar Arnarsonar að sínum:

Nú er ég aldinn að árum.

Um sig meinin grafa.

Senn er sólarlag.

Svíður í gömlum sárum.

Samt er gaman að hafa

lifað svo langan dag.

Farðu vel.

Erla Sig.

Þeir eru væntanlega ekki margir sem ferðast í gegnum lífið án þess að eiga sér einhverja velgjörðarmenn. Hólmfríður Jónsdóttir var svo sannarlega í hópi minna velgjörðarmanna en þá hef ég huga manneskjur sem með örlæti sínu og góðvild greiða götu annarra óvandabundinna. Megi góðir velgjörðarmenn ávallt verða meðal okkar!

Í októbermánuði haustið 1958 eða fyrir réttri hálfri öld steig ég hikandi og feimin fyrst inn á heimili Fríðu og Árna Kristjánssonar eiginmanns hennar sem lést langt um aldur fram. Þau bjuggu þá með fjórum elstu börnum sínum við Eyrarlandsveginn. Kvíði minn tengdist því líklega að Árni hafði kennt mér íslensku í 4. bekk MA árið áður og öll vildum við reyna að standast kröfurnar sem Árni gerði. Ég kveið því að standast ekki kröfurnar sem til mín yrðu gerðar í víðari skilningi, en ég hafði tekið nokkuð áhættusama ákvörðun. En strax frá fyrsta degi finnst mér að umhyggjan sem mér var sýnd í Beitarhúsum og hið eftirminnilega andrúmsloft á heimilinu hafi eytt áhyggjum mínum og kvíða: Það voru mikil forréttindi að hafa fengið að njóta góðvildar þessara sæmdarhjóna á viðkvæmum tíma í lífi mínu.

Hólmfríður var húsmóðir á stóru heimili sem var viðkomustaður margra í kaupstaðarferðum úr Þingeyjarsýslunni en þaðan voru þau komin bæði hjónin. Til viðbótar tók Fríða þennan vetur að sér það verkefni að taka okkur tvær, sem lásum utanskóla undir stúdentspróf á loftinu hjá henni, í eins konar fóstur. Það fóstur fólst í því að sjá okkur fyrir næringu af ýmsu tagi, ekki aðeins mat og drykk heldur kom þar við sögu hin næma skynjun hennar og umhyggja fyrir velferð okkar í víðasta skilningi orðsins. Af samtölum okkar Fríðu síðar og upprifjun hennar á atviki sem gerðist í veðurblíðu í Lystigarðinum á Akureyri í miðjum stúdentsprófum gerði ég mér æ betur grein fyrir einlægri umhyggjunni sem hún hafði borið fyrir okkur stelpunum og þeirri ábyrgð sem hún vildi bera með okkur á því sem við tókum okkur fyrir hendur.

Fyrir einu ári dvaldi ég í nokkra daga á Akureyri og fékk þá sterka löngun og þörf fyrir að ræða um þessa daga við Fríðu. Ég sendi henni kveðju og fékk kveðju á móti, en því miður hafði ég ekki látið verða af því að heimsækja hana í Sunnuhlíð þótt það hefði verið ásetningur minn.

Á kveðjustundu þakka ég af alhug fyrir allt það góða sem mér var gefið í Beitarhúsum og sendi börnunum og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Jóhanna Kristjánsdóttir.

Þegar ég leit til móður minnar að morgni laugardagsins 11. október sl. fékk ég þær fréttir að Fríða væri veik og komin á sjúkrahús. Sérstakur draumur nóttina áður vaknaði í huga mér. Ég sagði mömmu ekkert frá honum, enda var hann mér ennþá þokukenndur, en samt þó skýr í munni mér. Meira um það síðar. Okkur mæðginum kom saman um að leita frétta hjá Siggu, dóttur Fríðu, og mig grunaði strax það sem staðfest var síðar í samtalinu. Fríða hafði haft vistaskipti.

Tíminn er sérstakt fyrirbæri. Hvorki verður seilst til fortíðar né framtíðar. Aðeins líðandi stund er til og þess vegna ber að nýta hana vel hverju sinni. Heimsókn eða samtal, sem áform eru um, getur á svipstundu fallið á tíma. Ég hafði ætlað mér að verja nokkrum dögum í Reykjavík um miðjan nóvember. Nota tímann til að heimsækja vini og ættingja. Hólmfríður Jónsdóttir, frá Ystafelli, Fríða, frænka mín og gamall sveitungi, var að sjálfsögðu á heimsóknarlistanum, enda átti ég eftir að taka á henni hús á nýjum slóðum. Nú hefur fatast von –.

Árið er 1968, haust. Akstur austan úr Kinn, um allar beygjur Vaðlaheiðarvegar og síðan er komið til höfuðstaðar Norðurlands. Mín biðu fjórir vetur í Menntaskólanum á Akureyri. Faðir minn átti íbúð í Norðurbyggð 25 og þar bjuggum við Kristján bróðir, sem var orðinn nokkuð forframaður, búinn með tvo vetur í MA. Frændfólk og vinir örstutt frá, í Vanabyggð 8B, þar sem Fríða bjó ásamt börnum sínum og manni, Árna Kristjánssyni, menntaskólakennara, en faðir minn og hann voru bræður. Framundan voru indæl ár við nám, leik og störf. Meðal bekkjarbræðra minna voru þeir frændurnir Knútur Árnason og Jón Sigurðarson, bróðursonur Fríðu. Það var fátt, ef nokkuð, sem við ekki gátum, a.m.k. í anda. Þannig hefur það verið alla tíð síðan, þó fjöll hafi stundum skilið frændur og fjörður vini. Alltaf sama tryggð og vinsemd í blíðu og stríðu. Fyrir það ber að þakka.

Meira um Vanabyggð 8B. Þar átti ég á skólaárunum frændfólk, þar átti ég vini, bæði hversdags og á stórhátíðum, svo sem á afmæli stúdents. Þetta góða heimili stóð mér ætíð opið. Einu sinni í hádeginu öðlaðist ég nýja reynslu hjá Fríðu þegar hún gaf okkur frændunum ekta KEA-súrmjólk. Búðarsúrmjólk. Reidda fram í stóru glasi með strásykri útá. Ég finn ennþá bragðið, finn ennþá brakið þegar sykurinn var bruddur saman við súrmjólkina. Þarna varð til upphafið að draumnum. Þetta bragð fann ég svo sterkt þegar ég vaknaði upp af honum þann 11. október. Vissi þá að straumföll hefðu orðið. Öll mín stúdentsár átti ég skjól og hlíf í Vanabyggð 8B. Minnist þó sérstaklega þess dags er ég varð stúdent. Vanabyggðin var þá eins og mitt heimili. Fyrir það fæ ég mínu frændfólki, Árna og Fríðu, aldrei fullþakkað. Blessuð sé minning þeirra.

Síðan liðu árin. Aðstæður ættingja og vina urðu aðrar en áður. Sumt breyttist samt ekki. Hvorki hin djúpa og fagra altrödd Fríðu né dillandi hláturinn á góðri stundu. Alltaf jafn heillandi. Annað breyttist þó, eins og við var að búast í áranna rás og amstri lífsins. Það voru tilsvörin hin síðari ár, þegar spurt var um líðan og skap. Þegar Fríðu þótti nóg komið af ýmsum hremmingum lífsins talaði hún tæpitungulaust. Var sjálfri sér samkvæm. Hrein og bein. Það ræddum við stundum í bland við spaug og gleði. Þau samtöl og þær stundir gáfu mér mikið hverju sinni. Ég mat það og met. Enn meira í minningunni.

Aðstandendum öllum votta ég mína dýpstu samúð.

Valtýr Sigurbjarnarson.