LANDSVIRKJUN er að undirbúa byggingu Búðarhálsvirkjunar. Á staðnum er verið að flytja jarðveg undir vinnubúðir og leggja rafstreng frá Hrauneyjarfossvirkjun.

LANDSVIRKJUN er að undirbúa byggingu Búðarhálsvirkjunar. Á staðnum er verið að flytja jarðveg undir vinnubúðir og leggja rafstreng frá Hrauneyjarfossvirkjun. Auglýst hefur verið útboð á flutningi vinnubúða frá Kárahnjúkavirkjun að væntanlegu virkjanasvæði.

Framkvæmdin felst í því að stífla Köldukvísl við Búðarháls og veita Tungnaá í Sporðöldulón þar fyrir ofan, með því að stífla farveg hennar og grafa veituskurð að lóninu. Sprengd verða jarðgöng í gegnum Búðarháls að Sultartangalóni, þar sem stöðvarhúsið verður byggt.

Verið er að undirbúa pöntun vél- og rafbúnaðar fyrir virkjunina. Forval var fyrr á árinu og í desember verða opnuð tilboð í búnaðinn. Fyrirhugað hefur verið að bjóða út jarð- og byggingarvinnu fyrir áramót.

Nota á orkuna til að auka framleiðslu í álverinu í Straumsvík og netþjónabú á Keflavíkurflugvelli.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að fjármögnun virkjunarinnar á þessum óvissutímum sé hluti af undirbúningi. Þykir honum ljóst að ef farið verði út í slíka framkvæmd nú þurfi að tryggja langtímafjármögnun í upphafi.

helgi@mbl.is