Erfitt Útflutningsfyrirtækjum gengur illa að innheimta útistandandi skuldir.
Erfitt Útflutningsfyrirtækjum gengur illa að innheimta útistandandi skuldir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur annaei@mbl.is AFAR illa gengur að fá greiðslur til landsins vegna útistandandi skulda íslenskra útflutningsfyrirtækja á erlendri grundu.

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

AFAR illa gengur að fá greiðslur til landsins vegna útistandandi skulda íslenskra útflutningsfyrirtækja á erlendri grundu. „Það virðist allt vera frosið,“ segir Magnús Kristinsson útgerðarmaður, sem er með útgerðina Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum, og sömu sögu var að heyra hjá Skinney-Þinganesi, Vinnslustöðinni og HB Granda.

„Þetta er mjög óvenjuleg staða og því kannski ekki til neinn leiðarvísir um hvernig eigi að leysa málin,“ segir Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda. Allir hafi lagst á eitt við að koma peningum inn í landið og þar hafi HB Grandi unnið náið með viðskiptabönkum sínum, Seðlabanka og fleiri aðilum. „Það voru reyndar ýmsar leiðir en þær brugðust ein af annarri.“

Menn bera sig almennt vel þó að greiðslur berist ekki, en segja ástandið engu að síður ekki geta varað lengi. „Það vill svo vel til að við erum með sterka lausafjárstöðu og því er þetta ekki farið að valda okkur teljandi vandræðum,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, eða Binni eins og hann kýs að kalla sig. „Ég veit hins vegar að fyrirtæki sem ekki búa við jafngóða lausafjárstöðu og við eiga sum hver í stökustu vandræðum. Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, ber sig einnig vel. „Það sem bjargar mér er að ég hef selt minna erlendis undanfarið en oft áður,“ segir hann og kveðst ekki trúa öðru en að málið leysist. „Ég er rólegur maður að eðlisfari og lít svo á að það sé verkefni hins opinbera að sjá til þess að fjármunir komi inn í landið.“

Áhrifanna gætir alls staðar

Hjá Norðuráli var, að sögn Ragnars Guðmundssonar forstjóra, gripið til þess ráðs að stofna tímabundið bankareikninga erlendis og hjá HB Granda telja menn sig nú vera búna að finna leið til að koma greiðslum til landsins. Að sögn Eggerts mun skýrast á næstu dögum hvort það gengur eftir. „Bretar eru líka búnir að gefa út yfirlýsingu um að þeir muni ekki stöðva þessar almennu greiðslur og þar var staðan erfiðust.“

Hann segir tregðuna í Bretlandi enda hafa haft áhrif alls staðar. „Bankakerfið virðist virka þannig að mörg lönd koma að málum þegar verið er að senda fé í erlendri mynt. Þannig er eins og Bretland verði líka að koma við sögu þegar verið er að senda fé frá Þýskalandi til Íslands.“

Líkt og aðrir viðmælendur bendir hann á að lausn verði að finnast sem fyrst enda þurfi útflutningsfyrirtæki, líkt og aðrir, að geta staðið við launagreiðslur og aðrar skuldbindingar. Binni hjá Vinnslustöðinni tekur í sama streng. „Málið verður að fara að leysast því að hvorki við né aðrir þola að vera í þessari stöðu til langs tíma.“

Millifærslan týnd í íslenska bankakerfinu

GREIÐSLUVANDINN virðist ekki vera einskorðaður við erlendu bankana, heldur virðast milligreiðslur milli íslenskra banka líka geta frosið eins og forsvarsmenn Vinnslustöðvarinnar hafa komist að.

„Við vorum að láta færa fé af gjaldeyrisreikningi sem við erum með hjá Kaupþingi banka til að greiða af erlendum lánum hjá Landsbankanum. Sú millifærsla virðist hins vegar nú vera týnd,“ segir Binni. „Síðan er liðin vika – tíu dagar. Hjá Kaupþingi fullvissa menn okkur um að peningarnir hafi verið sendir en þeir virðast hins vegar aldrei hafa borist til Landsbankans.“

Binni segir fjármálstjóra Vinnslustöðvarinnar ekki hafa fengið viðhlítandi skýringu á því hvað hafi gerst. Þó hafi þeirri hugmynd verið fleygt að þegar millifærslur á borð við þessa eigi sér stað þá séu þær sendar utan og til baka og þar gæti skýringuna verið að finna.