ENN á ný ræðst Halldór Jónsson fram á ritvöllinn til að uppnefna okkur Kársnesbúa. Í Moggagrein 1.9. síðastliðinn kallaði hann okkur umhverfisfasista, upphlaupslið, öskurkór og skríl, núna kallar hann okkur umhverfisskálka, hávaðalið, heimska skálka, pólítíska flóttamenn o.fl. Ég get nú ekki sagt að ég taki það nærri mér, hvað þessi þverhaus skrifar um mig og fleiri Kársnesbúa, skrif hans lýsa honum best sjálf. Það er þó flott hjá kallinum að segja Kársnesbúa reyna með ofbeldi að hygla sér prívat gegn hagsmunum heildarinnar.Það er greinilega ekki sama hver á í hlut með eigin hagsmuni, því ég veit að Halldór á land austur í sveit ásamt mörgum öðrum, þar setur hann upp reglur sem hann vill að aðrir fari eftir, en brýtur þær svo sjálfur að eigin geðþótta. Mér finnst það með eindæmum hvað Halldór leggur Gunnar Birgisson bæjarstjóra í einelti, 1.9. kallaði hann Gunnar heybrók og núna segir hann bæjarstjórann hafa kiknað í hnjáliðunum undan Kársnesingum. Sem betur fer veit ég að Gunnar Birgisson tekur svona bull ekki nærri sér. Að lokum vil ég þakka fyrir að Halldór skuli ekki búa hér, ég þakka Gunnari fyrir að hafa haldið honum frá nesinu.
EINAR PÉTURSSON,
íbúi á Kársnesi.
Frá Einari Péturssyni