Þeistareykir Skipulagsstofnun hefur nú eytt öllum vafa um að leyfilegt verði að ráðast í rannsóknarboranir við Þeistareyki og Kröflu.
Þeistareykir Skipulagsstofnun hefur nú eytt öllum vafa um að leyfilegt verði að ráðast í rannsóknarboranir við Þeistareyki og Kröflu. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is ÞAÐ er mat Skipulagsstofnunar að rannsóknarboranir geti farið fram við Kröflu og Þeistareyki næsta sumar.

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

ÞAÐ er mat Skipulagsstofnunar að rannsóknarboranir geti farið fram við Kröflu og Þeistareyki næsta sumar. Boranirnar séu þess eðlis að þær megi taka út úr samhliða heildarumhverfismati sem umhverfisráðherra úrskurðaði um í júlí síðastliðnum, vegna álversframkvæmda við Bakka og tengdar framkvæmdir.

„Niðurstaða Skipulagsstofnunar með framkvæmdaraðilum undanfarna mánuði er sú að hægt verði að fara í boranirnar þar sem þær séu skilgreindar sem rannsóknarboranir sem verði að fara fram fyrir heildarmatið. Stofnunin telur því að það megi taka þessar boranir út úr heildinni,“ segir Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins.

Rannsóknir eru forsenda

Úrskurður umhverfisráðherra um samhliða heildarumhverfismat hafði valdið áhyggjum þeirra sem standa að framkvæmdunum. Ekki yrði hægt að halda áfram með rannsóknarboranir vegna þess og framkvæmdir tefðust ef ekki yrði unnt að halda áfram með boranirnar.

„Ég vona að þetta gangi,“ segir Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings. „Það sem við höfum bent á er að við viljum að rannsóknir séu undanskildar. Rannsóknir eiga að svara því hvort ákvæðið svæði eða jarðhitageymir sé sjálfbær. Og það er grundvallaratriði í því sem við kemur umhverfismati,“ segir Bergur. „Við sem komum að framkvæmdinni höfum aldrei verið ósammála sameiginlegu mati, það eina sem við viljum gera er að rannsaka til að renna tryggari stoðum undir það sem við erum að gera,“ segir Bergur.

Skipulagsstofnun hefur nú gengið frá bréfi til þeirra sem standa munu að framkvæmdunum um að þeir leggi fram tillögu að matsáætlun fyrir rannsóknarboranirnar við Þeistareyki og Kröflu.

Leiðrétting 23. október - Leyfi til borana byggist á matsáætluninni

VEGNA villandi fyrirsagnar á frétt um rannsóknarboranir við Þeistareyki og Kröflu í Morgunblaðinu 21. október síðastliðinn skal eftirfarandi áréttað. Leyfi vegna borananna verða veitt eftir að tillögur að matsáætlunum þeirra sem standa að framkvæmdunum hafa verið metnar. Skipulagsstofnun hefur nú kallað eftir slíkri matsáætlun eins og fram kemur í fréttinni.