Himinblátt Ísland Katrine og Alex komu við á Fróni áður en þau fóru til Danmerkur þar sem þau verða í vetur.
Himinblátt Ísland Katrine og Alex komu við á Fróni áður en þau fóru til Danmerkur þar sem þau verða í vetur. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann er aðeins fimmtán ára en hefur unnið hvert samkvæmisdansmótið á fætur öðru undanfarin misseri, bæði hér heima og erlendis. Alex Freyr Gunnarsson býr nú í Danmörku, æfir þar dansinn af kappi og gengur í grunnskóla.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Ég byrjaði að dansa þegar ég var þriggja ára, en þá fóru mamma og pabbi á námskeið í samkvæmisdansi og skráðu mig í leiðinni. Ég hef verið að dansa alla tíð síðan, eða undanfarin tólf ár,“ segir Alex Freyr Gunnarsson samkvæmisdansari. Hann er aðeins fimmtán ára en þetta árið hefur hann landað fyrstu verðlaunum á sjö mótum úti í heimi.

Það gefur augaleið að mikið þarf að leggja á sig til að ná slíkum árangri enda hefur dansinn haft heilmikil áhrif á líf Alex. Hann hefur til dæmis þurft að búa tímabundið í útlöndum.

„Ég flutti fyrir tæpu ári til Úkraínu og var þar í sex mánuði í dansskóla og bjó heima hjá úkraínskri stelpu sem var dansfélagi minn. Þá var ég í fjarnámi frá Garðaskóla og tók öll próf hér heima í vor. Í sumar kynntist ég svo dönsku stelpunni Katrine Nissen og þjálfararnir okkar vildu láta okkur prófa að dansa saman og það gekk mjög vel. Hún hefur verið minn dansfélagi síðan og ég flutti til Danmerkur í sumarlok. Núna bý ég heima hjá henni og við æfum saman í dönskum dansskóla.“ Alex gengur í danskan grunnskóla og segir það ganga vel, þó vissulega þurfi hann að leggja mikið á sig, því hann er enn að ná tökum á dönskunni. „Þetta venst en krefst mikils skipulags. Ég er allur að koma til í dönskunni.“

Æfa í marga tíma á dag

Katrine kemur líka með Alex til Íslands öðru hvoru og býr þá heima hjá honum, þannig að það er mikil samvinna milli fjölskyldna þeirra til að greiða veg unga fólksins í dansinum. Alex og Katrine eru nýkomin frá London þar sem þau kepptu á fimm mótum en pör alls staðar að úr heiminum tóku þátt. „Við stóðum uppi sem sigurvegarar í þremur af þessum mótum og auk þess vorum við í fjórða sæti í stærstu keppninni, þar sem keppt var í ballroom, eða standard dönsum en þar tóku þátt öll fremstu pör í heimi í samkvæmisdansi á okkar aldri. Svo vorum við í áttunda sæti í suður-amerískum dönsum en þar vorum við eina parið frá Vestur-Evrópu sem komst í topp tíu sætin.“

Eðli málsins samkvæmt fer mikill tími í æfingar hjá fólki sem hefur náð slíkum árangri og Alex segir að þau Katrine æfi nánast daglega. „Þegar keppni er framundan æfum við í marga klukkutíma á dag, kannski vikum saman og þá býr maður nánast í dansskólanum,“ segir Alex og játar að vissulega þurfi að hafa mikinn áhuga á dansinum til að halda þetta út en það sem rekur hann áfram er ekki síður keppnisskap og metnaður.

Rífast stundum en sættast fljótt

Næst á dagskrá er danskt meistaramót í lok þessa mánaðar og Alex og Katrine þurfa að vinna það til að komast á heimsmeistaramótið í tíu dönsum sem verður í Minsk í Hvíta-Rússlandi nú í nóvember. „Með árangri mínum á þessu ári hef ég unnið réttinn fyrir Íslands hönd til að taka þátt í heimsmeistaramóti en þar sem ég skipti um dansfélaga verð ég í raun líka að vinna réttinn fyrir Danmörku af því að við Katrine keppum sem danspar þaðan.“

Óneitanlega reynir það heilmikið á samskipti þeirra tveggja, Alex og Katrine, að vera svona mikið saman, en þau eru góðir vinir. „Við erum eiginlega eins og systkin og tökum hvort öðru eins og við erum. Auðvitað rífumst við stundum en við sættumst fljótt. Við eigum það sameiginlegt að vera bæði mjög metnaðarfull.“

Golfið þurfti að víkja

Alex segist ekki vera með heimþrá þótt hann flytji út um tíma, enda eru foreldrar hans duglegir að heimsækja hann. „Annaðhvort vill maður þetta eða ekki og þegar maður hefur ákveðið sig þá er þetta ekkert mál. Í fyrra þurfti ég til dæmis að velja á milli þess hvort ég ætlaði að leggja golfið fyrir mig eða dansinn. Það var vissulega erfið ákvörðun því ég var búinn að ná góðum árangri í golfinu og þegar ég var þrettán ára, þá var ég bæði Íslandsmeistari í golfi og dansi. Golfið er rosalega skemmtilegt og það er meiri útrás í því að spila golf úti í roki og rigningu. En ég sé ekki eftir að hafa valið dansinn. Ég nýt þess að vera úti á gólfi og dansa og það er endalaust hægt að bæta sig. Það er heilmikil tækni sem maður þarf að ná tökum á og mjög mikil nákvæmni. Það er líka mikil kúnst að komast hjá því að rekast utan í hin pörin sem eru að dansa á fullu um allan salinn.“

Mamma saumar búningana

Alex segir ekki loku fyrir það skotið að hann verði atvinnudansari, en hann hefur líka velt fyrir sér að verða rekstrarhagfræðingur, arkitekt eða kírópraktor.

Þó mamma og pabbi Alex hafi ekki enst nema í þrjú ár á dansnámskeiðinu forðum sem kom honum á bragðið, þá er dansáhuginn víðar í fjölskyldunni, því Pétur Fannar, yngri bróðir hans, er líka margfaldur meistari í dansi. Móðir þeirra, Ylfa Pétursdóttir, fylgir strákunum sínum ekki aðeins á mót heldur einnig oft á æfingar. „Ég er auðvitað mjög stolt af þeim, en þetta er rosalega mikil vinna. Ég sauma líka alla búningana nema kjólfötin og það er mikið stúss og ferðalög í tengslum við keppnir. Alex er mjög samkvæmur sjálfum sér og hnikar ekki frá því sem hann ætlar sér. Hann er duglegur í öllu sem hann gerir, líka í skólanum. Hann er yfirvegaður og rólegur og er aldrei stressaður sem er mikill og góður kostur í keppni.“