Verk Dominique Gonzales- Foerster.
Verk Dominique Gonzales- Foerster.
Nýtt verk franska listamannsins Dominique Gonzales- Foerster, í hinum risastóra Túrbínusal Tate Modern í London, hefur fengið misjafnar móttökur. Verkið sem ber heitið TH.

Nýtt verk franska listamannsins Dominique Gonzales- Foerster, í hinum risastóra Túrbínusal Tate Modern í London, hefur fengið misjafnar móttökur. Verkið sem ber heitið TH.2058, er eins konar heimsendaspá; innsetning þar sem leikið er með vísindaskáldskap og ógnvænlegar veðurfarsbreytingar af mannavöldum.

Í gagnrýni Richard Dorment í The Telegraph segir m.a. að verkið sé með eindæmum sundurlaust og skorti þann alvöruþunga sem listamaðurinn hafi ætlað sér að skapa. Þá bendir Dorment á hversu slæm áhrif það geti haft á orðspor listamanna ef þeim tekst illa upp í þessu krefjandi, en um leið vinsæla rými. Ekki sé öllum gefið að vinna þannig með það að það sé viðkomandi til framdráttar. Nefnir hann þau Ólaf Elíasson, sem sýndi þar árið 2003, og Doris Salcedo sem sýndi á síðasta ári, sem dæmi um sýningar er fleytt hafa frama listamannanna upp í hæstu hæðir, en verk á borð við það sem Gonzalez Foerster sýnir og Bruce Neuman sýndi árið 2004 séu hálfvelgja er virkar sem dragbítur.

Gagnrýnandi The Times, Rachel Campell-Johnston, er sama sinnis og segir að hún geti tæpast ímyndað sér að nokkur verði fyrir hugljómun af því að skoða verkið nema þá til þess að drífa sig á klósettið; vatnsniðurinn hafi þau áhrif. Þetta sé sú sýning í salnum sem veldur hvað mestum vonbrigðum.

Adrian Searle hjá The Guardian er einna jákvæðastur í garð nýju sýningarinnar og bendir á að það hvernig Gonzales Foerster vinnur með skúlptúra annarra, en hún sýnir eftirmyndir nokkurra frægra slíkra í yfirstærð í salnum, sé í raun það sem geri hennar aðferðafræði óvenjulega. Og í raun sé hún þar að auki einungis að benda okkur á það sem þegar er augljóst; að endirinn sé farinn að nálgast.