Frá Ragnari Gunnarssyni: "ÞÓRÓLFUR Matthíasson prófessor heldur áfram að viðra hugmynd sína að taka upp norska krónu í stað íslensku krónunnar. Þá yrði Seðlabankinn íslenski útibú frá þeim norska og norska Fjármálaeftirlitið myndi leysa það íslenska af hólmi."

ÞÓRÓLFUR Matthíasson prófessor heldur áfram að viðra hugmynd sína að taka upp norska krónu í stað íslensku krónunnar. Þá yrði Seðlabankinn íslenski útibú frá þeim norska og norska Fjármálaeftirlitið myndi leysa það íslenska af hólmi. Flestir hljóta að sjá að þessi hugmynd er arfavitlaus, nema vilji sé að dusta rykið af Gamla sáttmála frá 1264 og bæta við hann nokkrum paragröfum.

Upp í hugann kom saga sem Ríkharður Jónsson sagði í sjónvarpsþætti fyrir mörgum árum. Séra Árni Þórarinsson, prestur á Stóra-Hrauni á Snæfellsnesi, flutti til Reykjavíkur er prestskap lauk og settist að í húsi við Grundarstíg að mig minnir. Ríkharður var með vinnustofu skammt frá við sömu götu. Séra Árni gerði sér oft ferð til Ríkharðs og skoðaði verk hans. Meðal annars gerði Ríkharður oft eftir pöntun höfuðmyndir af meira og minna merkum mönnum. Eitt sinn er séra Árni kom í heimsókn í vinnustofuna hafði Ríkharður nýlokið við höfuðmynd af séra Árna sjálfum og stóð hún þar á hillu.

Séra Árni leit á myndina.

„Hvað er þetta?“ spurði hann.

„Þetta er prestur,“ svaraði Ríkharður.

„Og hvar var þetta prestur?“ spurði séra Árni.

„Hann var prestur á Snæfellsnesi,“ svaraði Ríkharður.

Þá sagði séra Árni: „Allan andskotann geta þeir notað fyrir prest á Snæfellsnesi.“

Því læt ég þessa sögu flakka að mér datt í hug er ég las um síðasta innlegg Þórólfs Matthíassonar: „Allan andskotann geta þeir notað fyrir prófessor í Háskólanum.“

RAGNAR GUNNARSSON,

fyrrverandi forstjóri.

Frá Ragnari Gunnarssyni:

Höf.: Ragnari Gunnarssyni