Hjónin Sigurjón og Birgitta Spur við verkið Holskeflu, frá 1969, þar sem það stendur á stalli í Ytri Njarðvík. Birgitta stýrir Listasafni Sigurjóns.
Hjónin Sigurjón og Birgitta Spur við verkið Holskeflu, frá 1969, þar sem það stendur á stalli í Ytri Njarðvík. Birgitta stýrir Listasafni Sigurjóns.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is Í dag er öld liðin frá fæðingu Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara, eins merkasta myndlistarmanns þjóðarinnar á liðinni öld.

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

Í dag er öld liðin frá fæðingu Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara, eins merkasta myndlistarmanns þjóðarinnar á liðinni öld. Jafnframt eru í dag tuttgu ár liðin frá því að Listasafn Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnesi var opnað.

Aldarafmælis listamannsins er minnst með ýmsum hætti á árinu. Nýlega var opnuð sýningin Tveir módernistar , með verkum Sigurjóns og Þorvaldar Skúlasonar í Hafnarborg. Í sumar stóð yfir sýning í stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar, en á framhlið þess eru víðkunnar lágmyndir listamannsins; þær voru á sínum tíma langstærsta listaverk íslensks listamanns. Í dag verður opnuð sýningin Stund hjá Sigurjóni í Listasafninu sem kennt er við hann, en þegar ég sest niður með Birgittu Spur, forstöðumanni safnsins og ekkju listamannsins, segir hún fyrst frá sýningunni sem Vigdís Finnbogadóttir opnaði með pomp og prakt í Friðriksborgarsafninu kunna í Danmörku á dögunum.

„Í Friðriksborgarhöll er áherslan á portrettin,“ segir Birgitta, blaðar í veglegri bók sem Listasafn Sigurjóns gaf út í tengslum við sýninguna og bendir á verkin sem þar eru sýnd.

„Ég hef aldrei séð þessi verk njóta sín jafn vel og þar. Og ég þekki verkin vel, utan eitt, sem ég hef aldrei séð áður. Það er brjóstmyndin af Johannes C. Berg myndhöggvara, sem sumir vilja meina að sé einhver besta portrettmynd sem gerð var í Danmörku á 20. öld.“

Birgitta vitnar til skrifa danska listfræðingsins Charlotte Christensen, sem segir það sitt mat að portrettið af Bjerg sé það besta sem Sigurjón gerði á þeim árum er hann bjó í Danmörku, „og þar með eitt af bestu skúlptúr-portrettum 20. aldar.“

„Það er svo mikil fylling í þessari mynd, hún er eiginlega ólýsanleg,“ segir Birgitta. „Hún er í eigu danska ríkislistasafnsins og við þurftum að hafa fyrir því að fá hana lánaða úr geymslum þess.“

Allar helstu portrettperlurnar

Sigurjón bjó í Danmörku á annan áratug, fram til 1945. Eftir að hann útskrifaðist úr Listaakademíinu var hann virkur í dönsku listalífi og mikið fjallað um afrek hans í dönskum fjölmiðlum. Það breyttist er hann flutti heim 1945.

„Danir höfðu áður talað um hann sem vores egen Sigurjón , en þegar hann fór var það eins og erfiður hjónaskilnaður,“ segir Birgitta. „Þá var Ísland líka búið að kljúfa sig frá Danmörku og það áttu menn þar erfitt með að fyrirgefa. Þótt Sigurjón ætti eftir að sýna áfram í Danmörku var allt öðruvísi fjallað um hann þar eftir þetta.

Önnur mynd frá þessum tíma stendur einnig upp úr, þessi af skáldinu Otto Gelsted,“ segir hún og bendir á kunna mynd sem prýðir kápu bókarinnar.

„Verkin koma héðan og þaðan, úr einkaeigu og söfnum. Við völdum helstu perlurnar og höfðum í huga að fyrirsæturnar tengdust sögu beggja þjóðanna, Íslands og Danmerkur. Þetta eru allt mjög sterkar og fínar myndir, meðal annars af Halldóri Laxness, Kristjáni Eldjárn, Ragnari í Smára, Ásgrími Jónssyni og steinhnullungarnir af Ásgrími Jónssyni og Sigurði Nordal.“

Fjölbreytt starfsemi í safninu

Í dag eru einnig 20 ár síðan Listasafn Sigurjóns var opnað. Birgitta segir að eftir lát Sigurjóns árið 1982 hafi verið þörf á að gera við vinnustofuna ef hin mörgu verk, er þar voru, áttu ekki að skemmast. Fjölskyldan fór þá að undirbúa stofnun safnsins, á þessum stað sem listamaðurinn hélt svo mikið upp á. Stofnaður var styrktarsjóður til að fjármagna byggingarkostnaðinn sem nam þá yfir 30 milljónum króna. Birgitta og börn hennar gáfu safninu allar tekjur af höfundargreiðslum við sölu á afsteypum og hafa gert svo alla tíð síðan. Framlög erfingja og önnur framlög fyrirtækja og einstaklinga námu um tveimur þriðju hlutum af byggingarkostnaðinum. Ríki og borg lögðu til það sem vantaði upp á. En hvernig skyldi reksturinn síðan hafa gengið?

„Hann hefur gengið vel með árlegum framlögum frá ríki og borg og eigin tekjuöflun,“ svarar Birgitta. „Safnið var gert að sjálfseignarstofnun árið 1989, sem þýðir að í eigu þess eru verkin sem ég hef lagt því til, allar fasteignir, þar á meðal íbúðarhús mitt, svo og frumdrög, verkfæri, ljósmyndir, bréfasafn og aðrar heimildir um Sigurjón. Starfsemi Listasafns Sigurjóns hefur einkennst af fjölbreytni og við höfum uppfyllt þau markmið sem eru í skipulagsskrá og markaðslýsingu safna: við varðveitum, skráum, sýnum, sinnum heimildasöfnun og rannsóknum, miðlum, gefum út vegleg rit og tengjum starfið öðrum listgreinum.

Öll verk Sigurjóns hafa verið skrásett og gefin var út heildarskrá í bókarformi, með ævisögu Sigurjóns, 1998 og 1999. Þessi skrá er nú aðgengileg á heimasíðu safnsins.“

Galdramaður lífrænna forma

Sýningin sem opnuð verður í dag, Stund hjá Sigurjóni, segir Birgitta að sé sérstaklega hugsuð fyrir börn og ungmenni, í fylgd með fullorðnum. „Sýningin er eins konar leikur þar sem fullorðna fólkið fær hjálparspjöld til að leiða börnin í samræður um verkin. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig til tekst.“

Birgitta var eiginkona Sigurjóns og eftir andlát hans hefur hún haldið nafni hans og minningu á lofti. Hver finnst henni vera sérstaða Sigurjóns?

„Ætli það sé ekki hvað hann var fjölhæfur. Hvað hann var vel menntaður – og hvað hann hafði mikla hæfileika. Það hefur verið bent á að þótt Sigurjón hefði aðeins gert portrettin nægðu þau til að halda nafni hans á lofti, og það sama mætti segja um abstraktverkin, ekki síst höggmyndir hans í stein.

Björn Th. talaði um efnisskáldskap Sigurjóns og það held ég að sé ágæt lýsing á því hvernig hann vann. Aðal hans var að geta galdrað lífræn form úr næstum hvaða efni sem var.“

Útgáfa á afmælisárinu

Í TILEFNI af aldarafmælinu hefur Listasafn Sigurjóns Ólafssonar staðið fyrir fjölbreytilegri útgáfu á árinu.

* Í tilefni af sýningunni á andlitsmyndum Sigurjóns í Friðriksborgarsafninu í Danmörku gefur LSÓ út vandaða bók um andlitsmyndirnar í danskri og enskri útgáfu, undir titlinum Bildhuggeren Sigurjón Ólafsson og hans portrætter/ Sculptor Sigurjón Ólafsson and his Portraits. Listfræðingurinn Charlotte Christensen ritar megintextann, um andlitsmyndirnar á sýningunni, um feril Sigurjóns, um verkin sem hann skóp meðan hann bjó í Danmörku 1928–1945 og um þátt hans í dönsku menningarlífi á þeim tíma.

* Sigurjón Ólafsson myndhöggvari/sculptor 1908-1982 , eru þrjár heimildarkvikmyndir á DVD-diski. Hesten paa Kongens Nytorv (1952) fjallar um endurgerð riddaramyndar í Kaupmannahöfn. Utzon-Frank og Sigurjón stjórnuðu verkinu. Saga um lágmynd (1990) fjallar um stærsta verkefni Sigurjóns, lágmyndirnar á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar, og Þessir kollóttu steinar (1992) er verðlaunamynd um portrett Sigurjóns.

* Ásamt Listasafni Háskóla Íslands gaf LSÓ út skrá með sýningunni Sigurjón og Þorvaldur – Tveir módernistar , sem opnaði á dögunum í Hafnarborg með úrvali verka eftir Sigurjón og Þorvald Skúlason.

Flæði milli kynslóða

ÞEGAR Birgitta Spur er spurð að því, á aldarafmæli Sigurjóns Ólafssonar og 20 ára afmæli Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, hver sé framtíð safnsins, svarar hún alvarleg í bragði að nú séu blikur á lofti.

„Á þessum tímamótum vil ég þakka allan stuðning sem safnið hefur hlotið gegnum árin og vona að sjálfsögðu að safnið þurfi ekki að skerða starfsemina,“ segir Birgitta. „Íslensk listasaga er stutt en afar merkileg, og það er svo mikilvægt að halda tengingum við þessa sögu og tryggja að ákveðið flæði verði milli kynslóðanna.“