Á Noregsmið Björn Bergmann yfirgefur ÍA og reynir fyrir sér hjá Lilleström.
Á Noregsmið Björn Bergmann yfirgefur ÍA og reynir fyrir sér hjá Lilleström.
„ÉG er bara kátur og mjög sáttur með að hafa náð þessum samningum við Lilleström,“ sagði Björn Bergmann Sigurðarson, knattspyrnumaður frá Akranesi, í samtali við Morgunblaðið í gær eftir að hann hafði skrifað undir þriggja ára samning við norska félagið Lilleström.

„Þetta var besti kosturinn fyrir mig og mér finnst bara allt frábært hérna hjá klúbbnum,“ sagði Björn.

Hann kemur heim í dag og heldur síðan til Noregs á nýjan leik 1. desember.

Björn verður 18 ára í febrúar á næsta ári og segist hann hlakka mikið til að klæðast hinum gula og svarta keppnisbúningi félagsins og ætti að kannast við sig í þannig litum. Viktor Bjarki Arnarsson er samningsbundinn Lilleström, en var í láni hjá KR í sumar. Björn sagðist ekkert vita hvernig hans mál stæðu.

Nýr þjálfari kemur til félagsins á næstu dögum, Henning Berg, sem lék áður með Manchester United og Blackburn. Hann var áður hjá Lyn.

Lilleström er í þriðja neðsta sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið byrjaði tímabilið mjög illa og var þjálfara liðsins Tom Nordlie sagt upp störfum. Í fyrra fagnaði Lilleström sigri í norsku bikarkeppninni en félagið hefur fimm sinnum orðið norskur meistari, síðast árið 1989. Teitur Þórðarson var þjálfari liðsins um tíma en margir íslenskir leikmenn hafa komið við sögu hjá félaginu.

Þórður Guðjónsson, hálfbróðir Björns, var fyrir hönd ÍA við samningagerðina.

„Ég hlakka rosalega til að byrja og að sjálfsögðu ætla ég að taka þetta með trompi þegar þar að kemur,“ sagði Björn. skuli@mbl.is