GusGus Ein af fáum íslenskum hljómsveitum til þess að tjá sig um þjóðfélagsástandið á Airwaves.
GusGus Ein af fáum íslenskum hljómsveitum til þess að tjá sig um þjóðfélagsástandið á Airwaves. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef nýafstaðin Iceland Airwaveshátíð hefði verið haldin í Frakklandi eftir svipaðar þjóðfélagshörmungar og við höfum verið að upplifa síðustu vikur hefðu hljómsveitir keppst við að tjá sig um hina og þessa ráðamenn þjóðarinnar.

Ef nýafstaðin Iceland Airwaveshátíð hefði verið haldin í Frakklandi eftir svipaðar þjóðfélagshörmungar og við höfum verið að upplifa síðustu vikur hefðu hljómsveitir keppst við að tjá sig um hina og þessa ráðamenn þjóðarinnar. Líkneski af seðlabankastjóra hefðu verið brennd uppi á sviði. Fjöldi laga um útrásarvíkingana, er steyptu Íslandi í skuldir með því að spila póker með Matador-seðlum, hefðu verið frumflutt við gífurlegan fögnuð áhorfenda.

En hvað gerist hér? Flestar hljómsveitir kusu að spila áfram í sápukúlu sinni og láta sem ekkert væri, enda ekkert meira niðurdrepandi en að minnast á alvöru lífsins þegar fólk er að reyna skemmta sér. Aðrar voru ennþá í draumalandi og kynntu lög sín á ensku í veikri von um að útlendingur með þykkt peningaveski og ekkert viðskiptavit tæki upp á því í alheimskreppunni að bjarga þeim af klakanum með því að kasta seðlabúntum eða plötusamningum í átt til þeirra að tónleikum loknum. Örfáar sveitir snertu eitthvað á ástandinu, og þá yfirleitt við góðar undirtektir áhorfenda. Helst ber að nefna Gusgus er lýsti yfir andstöðu sinni á Davíð Oddssyni bæði í orðum og með tónlist og salurinn trylltist.

Ef það var einhvern tímann tími til þess að endurspegla hvað er að gerast í þjóðfélaginu upp á sviði rokktónleika, þá var það núna. Íslenskir listamenn fá því falleinkunn.

Er skrítið að maður spyrji sig, af hverju það er meira kúl hjá listamönnum samtímans að segja ekki neitt? Hvort það sé í alvöru betra að halda pólitík fyrir utan poppmenningu og hvort það sé yfirhöfuð hægt til langs tíma? Og ef svo, er það þá æskilegt? Er mín kynslóð virkilega það sérplægin að utanaðkomandi hlutir, eins og þjóðfélagið er skapaði okkur, skiptir ekki nægilega miklu máli til þess að gefa því hluta af sviðsljósinu? Snýst allt í alvöru um að ná algleymi í stuðinu og vona svo að það verði nægilega brjálað til þess að það nái að fleyta okkur áfram til velgengni? Það var akkúrat slíkur sjálfshyggjuhugsanagangur er kom okkur í þennan skít. Erum við ekki hluti af vandamálinu ef við höldum áfram að þegja? Er betra að gleyma og halda áfram að dreyma, eða er betra að vakna, bíta á jaxlinn og kveðja það sem við eigum eftir að sakna?

Flestir listamenn sem ég hef hitt um ævina eru mikið með hugann við hvað almenningur hugsar um þá. Þeir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir gagnrýni enda sjá þeir almenningsálit sem sitt lifibrauð. Við erum komin í ljósárafjarlægð frá hippatímanum eða pönkinu þegar tónlist var tjáningarform fyrir langanir ungviðisins um aukið frelsi. „Fokk jú“ merkin eru farin út fyrir „já takk, endilega“ þumlanudd á fingurgóma. Ekki bara á Íslandi, heldur nær alls staðar hafa listmenn þannig gert sig að fylgjandi afli í stað þess að vera leiðandi. Þeir eru bundnir niður í stað þess að vera frjálsir. Um leið og þú setur á sjálfan þig hömlur um að tjá skoðanir þínar, ertu ekki lengur frjáls. biggi@mbl.is

Birgir Örn Steinarsson

Höf.: Birgir Örn Steinarsson