Eftir Silju Björk Huldudóttur
silja@mbl.is
„ÉG er búinn að búa í tjaldi sl. sjö ár,“ segir Sævar Arnfjörð, sem setti upp tjaldið sitt fyrir veturinn á tjaldsvæðinu í Laugardalnum í byrjun september.
„Þetta er annar veturinn minn hérna. Áður var ég rúma þrjá vetur í Öskjuhlíðinni en þar má ekki tjalda og því var stöðugt verið að rífa niður tjaldið og fjarlægja dótið mitt, sem er auðvitað óskemmtilegt. Hérna fæ ég að minnsta kosti að vera í friði,“ segir Sævar. Aðspurður segist hann fá að nýta salernisaðstöðuna á Farfuglaheimilinu og geta farið ókeypis í sund í Laugardalslauginni þar sem hann sé öryrki.
„Auðvitað er kalt að vera í tjaldi yfir vetrartímann, en ef maður reynir ekki einhvern veginn að bjarga sér þá er maður glataður,“ segir Sævar. Aðspurður segist hann dúða sig vel með dýnum, svefnpoka, sængum og teppi í tjaldinu auk þess sem hann sé með sprittkerti og prímus sem hann noti til þess að hita upp tjaldið með reglulegu millibili. „Þess á milli reyni ég bara að sofa.“
Spurður hvers vegna hann leiti sér ekki húsaskjóls hjá Gistiskýlinu bendir Sævar á að hann sé að berjast við áfengissýki og að sér finnist erfitt að umgangast annað óreglufólk þegar hann sé sjálfur að reyna að halda sér þurrum. „Þá vil ég frekar fá að vera í friði í mínu tjaldi,“ segir Sævar og tekur fram að sér hafi raunar verið lofað húsrými í einu smáhýsanna sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi ætlað sér að koma upp.
„Ég er búinn að bíða í sex ár eftir félagslegu búsetuúrræði hjá borginni. Það er búið að lofa mér einhverju smáhýsi úti á Granda, sem ég átti að fá afhent fyrir mánuði. En í hvert skipti sem ég hef samband við Félagsþjónustuna fæ ég þau svör að málið tefjist enn um hálfan mánuð. Ég er því hættur að gera mér einhverjar vonir. Þau vita af mér og geta haft samband við mig þegar eitthvað fer að skýrast. Ég er hins vegar hættur að reyna að tala við þetta fólk, því það þýðir augljóslega ekkert.“
Fjögur hús þegar tilbúin til úthlutunar
Búið er að reisa fjögur smáhýsi sem ætluð eru heimilislausum á Granda og eru þau nú tilbúin til úthlutunar. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar mun taka tvær til fjórar vikur að úthluta rýmum í húsunum. Ráðgert er að hvert hús geti hýst fjóra til átta einstaklinga, en það fer eftir því hvort um er að ræða einstæðinga eða pör. Húsin fjögur sem nú eru tilbúin geta því samtals hýst á bilinu 16-32 manns.Ekki reyndist unnt að fá upplýsingar um það hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar hvort húsin fjögur rúmuðu alla þá heimilislausu sem nú þegar væru í brýnni þörf.
Samkvæmt skýrslu samráðshóps á vegum félagsmálaráðuneytisins árið 2005 voru þá allt að 36 einstaklingar á götunni án húsaskjóls.
Smáhýsin voru flutt hingað til lands að frumkvæði Félagsbústaða hf. fyrir rúmu ári.