Stórleikur Páll Axel Vilbergsson átti stórleik fyrir Grindavík í Njarðvík í gær. Hér fer hann framhjá Hirti Einarssyni sem mátti sín lítils í vörninni.
Stórleikur Páll Axel Vilbergsson átti stórleik fyrir Grindavík í Njarðvík í gær. Hér fer hann framhjá Hirti Einarssyni sem mátti sín lítils í vörninni. — Ljósmynd/Skúli Sigurðsson
Eftir Skúla Sigurðsson sport@mbl.is ÞAÐ er ekki hægt að segja að varnarleikur hafi verið yfirskrift fyrri hálfleiks í gærkvöldi í leik Njarðvíkinga og Grindvíkinga. Staðan var 50:53 í leikhléi.

Eftir Skúla Sigurðsson

sport@mbl.is

ÞAÐ er ekki hægt að segja að varnarleikur hafi verið yfirskrift fyrri hálfleiks í gærkvöldi í leik Njarðvíkinga og Grindvíkinga. Staðan var 50:53 í leikhléi. Grindvíkingar voru síðan mun sterkari í síðari hálfleikur og unnu 98:84.

Jóni Guðmundssyni, annar dómari leiksins, varð að orði að staðan í hálfleik væri nánast sú sama og heildarskorið úr síðasta leik sem hann dæmdi, en það var viðureign Snæfells og Tindastóls á síðasta föstudag sem lauk, 55:57.

Leikurinn var hraður og jafn framan af og skoruðu liðin grimmt á hvort annað. Áhorfendur fengu að sjá skemmtilegan körfuknattleik og ekki laust við að líkja fyrri hálfleik við góðan Stjörnuleik þar sem vörn er í raun algert aukaatriði. Á meðan Njarðvíkingar skiptu stigunum nokkuð vel á milli sín var það Páll Axel Vilbergsson sem sá að miklu leyti um það hlutverk fyrir gestina og gerði m.a. 28 stig í fyrri hálfleik.

Nokkuð hægði á leiknum í seinni hálfleik og gestirnir hertu þá vörn sína til muna. Njarðvíkingar náðu aðeins að skora 10 stig í þriðja leikhluta og þar með Grindvíkingar komnir með þægilega stöðu fyrir síðasta fjórðung leiksins. Augljós munur var á liðunum í síðasta fjórðungi leiksins hvað þreytu varðar. Breidd Grindvíkinga fór loks að segja til sín og Njarðvíkingar höfðu einfaldlega ekki orku í það sem þurfti til að vinna upp 15 stiga forskot sem Grindvíkingar höfðu byggt upp í 3. fjórðung.

„Varnarleikurinn hjá okkur var ekki nægilega góður og svo má segja að smáatriði sem varðaði að gæta Páls Axels hafi einnig klikkað. Við skoruðum 84 stig sem á að vera nóg til að vinna leiki en fengum alltof mikið af stigum á okkur, líkt og í okkar fyrsta leik,“ sagði Friðrik Stefánsson, Njarðvíkingur, dauðþreyttur í leikslok.

„Breiddin skipti máli í kvöld og við vorum þreyttir eins og sást undir lok leiks en það þýðir ekkert að væla um það. Ljósi punkturinn kannski er að ungir leikmenn fengu að spreyta sig í nokkrar mínútur og stóðu sig prýðilega. Við erum einfaldlega ennþá að slípa leik okkar saman,“ sagði Friðrik ennfremur.

Maður leiksins var án nokkurs vafa Páll Axel Vilbergsson. Pilturinn endaði leik með 41 stigi og 14 fráköstum. „Mér fannst í kvöld að okkar hópur hefði einfaldlega verið dýpri en hjá Njarðvíkingum með fullri virðingu fyrir liði þeirra. Þeir héldu í við okkur í fyrri hálfleik en þá vorum við einnig að spila lélega vörn,“ sagði maður leiksins og bætti við; „Mér líður vel í Njarðvík það er greinilegt. Maður mætir bara í leiki til að leggja sig fram.“ Spurður um hvort hann myndi jafnvel hugsa sér að skipta yfir og spila einhvern tímann fyrir þá grænklæddu svaraði Páll: „Það er svo sem aldrei að vita, það er alltaf gott að spila hérna í Njarðvík.“

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindvíkinga, var ánægður með sigur sinna manna í leikslok. „Við vorum mjög sannfærandi í sókninni og okkur gekk vel að skora. Um leið og vörnin okkar smellur saman erum við skeinuhættir. Það var fín vörn hjá okkur í seinni hálfleik en hún var hreinlega bara léleg í þeim fyrri,“ sagði Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur.