Er Ísland gjaldþrota? Blasir við vöruskortur? Verðum við bensínlaus? Verða engin jól? Er ævisparnaður fólks gufaður upp? Hvers konar framtíð bíður barna okkar og barnabarna? Er verið að skuldsetja þjóðina í botn til næstu árhundraða? Missum við sjálfstæði okkar í hendur Rússa? Verðum við hungurmorða? Er Ísland að þurrkast út af heimskortinu?
Víkverji viðurkennir fúslega að þessar spurningar eru full-svartsýnar og neikvæðar en eðlilegar í ljósi atburða síðustu vikna. Við einhverjum af þessum spurningum gæti svarið reynst já ef allt fer á versta veg.
Skrif erlendra fjölmiðla eru mörg hver þess eðlis að halda mætti að Ísland væri gjaldþrota og hér ríkti algjör upplausn og óáran. Víkverji heyrði á dögunum af kunningja sínum sem tekinn var í viðtal hjá stóru þýsku dagblaði. Blaðamenn þess voru sendir til Íslands þar sem fréttir af landinu voru þess eðlis að allt væri að fara hér til fjandans, fyrsta landið í heiminum væri að verða alþjóðlegu bankakreppunni að bráð.
Eftir tveggja daga dvöl í landinu sögðust hinir þýsku blaðamenn ekki skilja hvað væri vandamálið, hér virtist allt fara fram með eðlilegum hætti; bankarnir væru opnir, fólk færi til sinnar daglegu vinnu, verslað í búðum, æki áfram um á sínum fínu bílum og héldi ró sinni. Lífið gengi sinn vanagang. Undrun Þjóðverjanna er skiljanleg. Hefði Víkverji verið staddur erlendis, og fylgst með þarlendum fjölmiðlum, hefði hann áreiðanlega óttast um að geta aldrei aftur snúið til fósturjarðarinnar. Krónan hrunin, bankarnir komnir í þrot og Íslendingar komnir á svartan lista meðal annarra þjóða sem óreiðu- og fjárglæframenn.
Íslendingar hafa hins vegar sýnt mátt sinn og megin undanfarið og munu rísa á lappir – betri en nokkru sinni.