Andrés Emil Bjarnason fæddist í Stykkishólmi 30. desember 1952. Hann lést á heimili sínu 7. október 2008.

Foreldrar hans eru Guðrún Emilsdóttir sjúkraliði, f. 16. 7. 1927 og Bjarni Sigurður Andrésson, kennari og skólastjóri, f. 16.9. 1917, d. 17.10. 1978. Systur Andrésar eru Ásta, f. 11.8. 1947, Ásdís, f. 27.12. 1957, Heiðrún Gróa, f. 17.4. 1961.

Fyrri eiginkona Andrésar var Sigríður Sveinsdóttir, þau skildu.

Eftirlifandi eiginkona Andrésar er Gréta Konráðsdóttir djákni, f. 23.11.1963. Börn þeirra eru: 1)Hanna, f. 2.7. 1983, sambýlismaður Anton Gylfi Pálsson. Dóttir þeirra er Emilíana Guðrún, f. 1.5. 2008. 2) Bjarni Sigurður, f. 22.5. 1988. 3) Fannar Már, f. 14.3. 1993.

Sonur Andrésar og Guðbjargar Sveinsdóttur er Sveinn Ingi, f. 10.10. 1972, maki Auður Björk Gunnarsdóttir, sonur Auðar er Sigþór.

Andrés lauk 4. bekk Gagnfræðaskólans í Vonarstræti og lærði bifvélavirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík. Andrés vann til sjós sem unglingur en hóf starf á hjólbarðaverkstæði 17 ára og starfaði í þeirri atvinnugrein alla tíð, lengst hjá Gúmmívinnustofunni í Skipholti. Árið 1986 keyptu Andrés og eiginkona hans Hjólbarðaverkstæðið Dekkið í Hafnarfirði og ráku það til ársins 2006 er þau seldu fyrirtækið en Andrés starfaði áfram hjá nýjum eigendum þar til hann veiktist.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þín mamma.

Elsku Addi minn, ég get varla komið orðum að því hversu sársaukafullt það er að missa þig. Þú barðist við þennan illvíga sjúkdóm eins og hetja. Hetja sem neitaði að gefast upp. Frá því að þú greindist þá bað ég fyrir þér á hverjum einasta degi og ég hugsaði um ykkur oft á dag. Innst inni þá vonaðist ég eftir kraftaverki og að þú myndir losna úr ánauð þessa hræðilega sjúkdóms. Ef einhver hefur átt það skilið þá varst það þú, elsku Addi.

Elsku besti Addi minn. Það tekur mig svo sárt að vera að skrifa minningargrein um þig, svona hjartagóðan og hlýjan mann. Já, þú varst með stórt og hlýtt hjarta.

Við kynntumst fyrir tæplega fjórum árum þegar Hanna kom með mig í Sjávargötuna til að kynna mig fyrir þér og Grétu. Ég fann það strax hversu góðan mann þú hafðir að geyma. Þú tókst mér fagnandi í fjölskylduna frá fyrsta degi og mér leið mjög vel í návist þinni. Þú vildir allt fyrir mig og Hönnu gera. Hún var litla stelpan þín, já þér þótti sko vænt um einkadóttur þína. Í gríni hef ég sagt að ég hafi sloppið í gegnum síuna þína og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.

Við gátum setið endalaust í sófanum í Sjávargötunni og horft á íþróttir í sjónvarpinu. Stundum spjölluðum við og stundum þurftum við ekkert að segja, við bara horfðum eða sváfum

Ég og Hanna eignuðumst okkar fyrsta barn í maí á þessu ári og þar með eignaðist þú þitt fyrsta og eina afabarn. Ég sá það langar leiðir hvað þú varst stoltur og ánægður þegar þú fékkst afabarnið í hendurnar. Þér þótti svo gaman að fá að kyssa og knúsa afagullið þitt, hana Emilíönu Guðrúnu. Þú gast haldið á henni og spjallað við hana lengi lengi. Emilíana Guðrún var heppin að eiga svona góðan afa. Henni þótti svo gott að vera hjá þér til að spjalla við þig og fá afaknúsið sitt.

Ég á svo margar góðar minningar um þig, Addi minn. Ég gæti skrifað endalaust um þig og allt sem þú hefur gert frá því að ég kynntist þér. Þó að ég hafi aðeins þekkt þig í tæp fjögur ár þá er eins og að hafi þekkt þig alla ævi.

Ég sakna þín mjög mikið og vildi óska þess að við hefðum haft meiri tíma saman. Ég hlakka svo til þegar Emilíana Guðrún verður orðin eldri því þá mun ég geta sagt henni margar sögur af afa sínum. Við munum sitja tímunum saman og rifja upp hvað þú varst yndislegur maður.

Takk elsku Addi minn fyrir allt saman, ég er ævinlega þakklátur fyrir að hafa kynnst þér. Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu.

Bænar biðjum þér að ávallt geymi þig guð í hendi sér.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þinn tengdasonur,

Anton Gylfi Pálsson

Vindur að laufi leikur

létt um stund.

Vænglaust í lofti líður

lauf um stund.

Útþráin grípur alla

og einnig það.

Tengslin við trjágrein kalla

tárvott blað.

Taugin við móðurmoldu

magn því gaf.

Fallið er lauf að foldu

sem fölnað blað.

(Bjarni Sigurður Andrésson.)

Elsku hjartans bróðir okkar, þá er komið að leiðarlokum hjá þér. Einmitt þegar það er að fara í hönd sá tími ársins sem þér þótti einna skemmtilegastur, þegar rjúpnavertíðin hefst. Eftir nokkra daga eru þrjátíu ár síðan hann pabbi okkar dó í rjúpnaveiðiferð sem þið voruð búnir að hlakka mikið til að fara í, eins og svo margra annarra sem þið fóruð í saman á hverju hausti síðan þú varst mjög ungur, en pabba auðnaðist ekki að ljúka þessari ferð og var það mikið áfall fyrir okkur öll og ekki hvað síst fyrir þig. Þú varst mikill veiðimaður og náttúruunnandi og lærðir að umgangast náttúruna af virðingu og varfærni af föður okkar og líkt og hann kenndi þér hefur þú kennt sonum þínum það sama.

Mikið þótti þér vænt um börnin þín og sást það best síðastliðið sumar þegar þú eyddir hverri frístund til að kenna þeim að meta nærveru við landið og sjóinn þegar þið voruð að veiða lax eða silung, núna seinast fyrir þremur vikum í Víðidalsá, að ógleymdri Hvítá, þar áttuð þið yndislegar stundir saman.

Þín paradís á jörðu var eyjan Hvallátur sem þið hafið árum saman átt hlut í og þú fórst oft þangað með fjölskyldunni og vinum þínum. Þar leið þér svo vel við dúntekju og veiðar og einnig gerðuð þið upp húsakostinn á eyjunni. Eitt sem alltaf var víst þegar þú hafðir verið á veiðum var að þegar þú komst heim þá beið hún Gréta þín eftir þér og tók þér fagnandi.

Þú varðst þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Grétu þinni og saman eignuðust þið þrjú yndisleg börn. Í gegnum erfið veikindi þín síðastliðið árið hefur hún staðið við hlið þér eins og klettur. Hugur þinn var oft mikill þetta síðasta ár þó að líkamlegt þrek þitt hafi minnkað og hvatti Gréta þig alltaf til að gera það sem þú hafðir ánægju af. Í vor kom svo lítill sólargeisli inn í fjölskylduna ykkar þegar hún Emilíana Guðrún fæddist og hennar hefur þú notið og var það ómetanlegt fyrir þig að verða afi.

Við systurnar þökkum þér samfylgdina og biðjum við góðan guð að styrkja fjölskyldu þína hana mömmu okkar og þau Grétu, Svein Inga, Auði, Sigþór, Hönnu, Anton, Emilíönu Guðrúnu, Bjarna Sigurð og Fannar Má.

Þínar systur

Ásta, Ásdís og Heiðrún.

Æðsta boðorð allra er trúa

er eilíft líf og þakkargjörð

sér sjálfum gleyma að öðrum hlúa

er leiðin sanna hér á jörð.

Þakklát sál vill veita og gefa,

velur veg um trúarstig

þeim hjálpar Guð þarf ekki að efa,

ef man hann aðra en sjálfan sig.

(Gunnar Skagfjörð Sæmundsson.)

Þessi erindi fannst mér lýsa svo vel Adda mági mínum sem við nú kveðjum hinsta sinni. Hann átti sér mörg áhugamál og engum veiðimanni hef ég kynnst sem hefur borið jafn mikla virðingu fyrir bráð sinni og Addi. Hann elskaði eyjarnar á Breiðafirði þar sem þeir vinirnir og börnin þeirra dvöldu á hverju ári við dúntekju, svo voru sæluvikur sem hver eigandi átti með sinni fjölskyldu yfir sumarið. Æðarfuglinn, lundinn, teistan, gæsin, stelkurinn og lóan voru íbúar Hvalláturs ásamt fjölda annarra tegunda fugla sem hann þekkti alla. Hann var eins og alfræðiorðabók um fugla.

Ég og mín fjölskylda fórum tvisvar með þeim Grétu til sumardvalar í viku í Látrum og viti menn, hann varð strax á bryggjunni í Stykkishólmi Lordinn af Látrum. Við tókum Baldur út í Flatey og þar tók svo við sigling á kafbátnum þar sem Addi var karlinn í brúnni. Þaðan eigum við dýrmætar minningar. Golfið heillaði hann líka og eins og allir vita sem hafa kynnst því, þá tekur það talsverðan tíma frá öðrum áhugamálum.

Mig langar að þakka fyrir að hafa fengið að eiga þig að, eiga þig fyrir mág. Þú varst hjartahlýr og greindur maður, góður við börnin þín, eiginkonu og fjölskyldur ykkar beggja.

Elsku Gréta, Hanna, Baddi, Fannar, Svenni, Emilíana Guðrún, Anton og Auður, Guð gefi ykkur styrk í sorginni og staðfestu í bæninni.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð

hjartans þakkir fyrir liðna tíð

lifðu sæll á ljóssins friðarströnd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Þín mágkona,

Inga Dóra.

Elsku Addi.

Þó maður hafi vitað að hverju stefndi þá er maður aldrei tilbúinn þegar að kveðjustund kemur. Ég er ósátt við að maður á besta aldri sé tekinn burt frá fjölskyldu og vinum. Þér hefur verið ætlað annað hlutverk. Ég var ekki há í loftinu þegar Gréta frænka bjó hjá okkur einn vetur og fannst mér ég alltaf eiga í henni stóran part eftir það, og þegar þú komst inn í líf hennar stuttu síðar, varð ég nú aðeins að meta manninn sem hafði stolið hjarta „stóru“ frænku minnar. Að sjá ykkur blómstra saman var frábært, samheldni og væntumþykja skein langar leiðir. Ekki varð hamingjan minni þegar börnin fæddust hvert af öðru, Hanna, Bjarni og Fannar. Og ég var svo stolt yfir að fá að passa gimsteinana ykkar og gæta hússins þegar svo bar undir.

Þegar ég var komin með bílprófið og átti minn eigin bíl lá leið mín til þín á dekkjaverkstæðið, þar mætti ég alltaf sama vinalega viðmótinu, alveg sama í hversu góðu ástandi bíllinn minn var, þú varst ávallt reiðubúinn að hjálpa og veita ráðleggingar. Elsku Addi minn, ég á enn svo erfitt með að trúa því að þú sért horfinn frá okkur, en mig langar til að þakka þér alla vináttuna og hlýjuna í minn garð í gegnum tíðina. Elsku Gréta, Svenni, Hanna, Bjarni, Fannar og fjölskyldur, það er því miður ekkert sem ég get sagt sem getur linað sársauka ykkar á þessum erfiða tíma. Ég votta ykkur mína innilegustu samúð og vona að guð sé með ykkur.

Ólafía L. Sævarsdóttir.

Kallið er komið og nú var það mágur minn Andrés Bjarnason eða Addi eins og hann var ávallt kallaður sem þurfti að láta undan illvígum sjúkdómi, krabbameini, aðeins 56 ára gamall. Hann háði harða baráttu við mikil veikindi allan þann tíma frá því sjúkdómurinn uppgötvaðist fyrir rúmu ári. Hann ætlaði ekki að gefast upp og aldrei heyrði maður hann kvarta í þessum veikindum. Þær voru margar ferðirnar sem hann fór á Landspítalann til lækninga, því hann vildi fá alla þá hjálp sem unnt var að fá. Eitt sinn sagði hann við mig: þú veist það, Sævar, að hjúkrunarkonur fara alltaf mjúkum höndum um okkur. Og var ég honum alveg sammála. Hann náði að fara núna síðla sumars í laxveiði í ána sína Víðidalsá, þá orðinn mjög veikur. Og nú í september talaði hann um að hann ætlaði fara á rjúpuna eins og hann orðaði það.

En Addi var ekki einn í þessari baráttu, eiginkonan Gréta og börnin hans stóðu þétt við hlið hans í þessari baráttu. Við sem höfum svona ríkt skap viljum ekki alltaf láta hið veikara kyn ráða of mikið yfir okkur. En Addi lét völdin í hendurnar á henni Grétu sinni, því hann vissi að hann væri þar í góðum höndum. Hann gerði sem sagt eins og hún lagði til. Addi var mjög hjálpsamur og greiðvikinn og vildi hvers manns vanda leysa og ef hann var beðinn um aðstoð var það framkvæmt strax. Það var ekki verið að bíða neitt með það. Addi mat heimilið og fjölskylduna mikils. Það sást best á því að hann vildi vera heima eins lengi og mögulegt var. Því heima var best. Hann vildi kveðja heima og það fékk hann.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Blessuð sé minningin um góðan dreng.

Sævar Örn Stefánsson.

Ekki verður með orðum tjáð

að enn skuli höggvin skörð.

Það fer napur gustur um lög og láð

á Látrum við Breiðafjörð.

Það fýkur um hæðir í fjallanna sal

og fjúkið er kalt og beitt.

Ei lengur mun fetað um fjöll og dal

né farið í ár og veitt.

Það merlar á dögg við mánaskin

á mosanum steininum hjá.

Á heiðunum kveðja nú kæran vin

hvert einasta blóm og strá.

Á fjöllum sig blómin beygja öll

og bogna við napran vind.

Í virðing og þökk hafa þessi fjöll

þakið af mjöll hvern tind.

(G.I.J.)

Hann Addi er dáinn. Langt fyrir aldur fram er hann kallaður burt frá okkur. Þessi hrausti maður og mikla náttúrubarn. Andrés Bjarnason kom inn í fjölskylduna með Grétu mágkonu minni og það blésu ferskir vindar um hann Adda hvar sem hann fór. Góðmennskan, hjálpsemin og þessi yndislega nærvera. Þekking hans á flestu því sem að náttúrunni sneri var svo mikil og hann hreif alla með sér. Að veiða var hans líf og yndi en virðingin fyrir náttúrunni og umgengni hans á þeim sviðum var aðdáunarverð. Hannes sonur okkar fékk ungur að kynnast þessum hæfileikum Adda og það var aðdáunarvert að sjá hve natinn hann var að kenna þeim ungu sem hrifust með og búa síðan að sjálfum sér til mikils þroska og mannauðgi. Við hjónin erum Adda ævinlega þakklát fyrir að gera son okkar að slíku náttúrubarni. Samskipti fjölskyldna okkar hafa alla tíð verið mjög náin og það stóð alltaf til að efla þau enn frekar. Alltaf var gaman og milli okkar ríkti taust og vinátta sem var svo kæreiksrík. Þá kom höggið. Enn er krabbinn að krefjast fórna af fjölskyldunni og nú þann sem allir töldu þann hraustasta. Því er komið að kveðjustund. Við kveðjum kæran vin sem hvarvetna ávann sér virðingu samferðamanna sinna fyrir manngæsku, hjálpsemi og góðvild. Guðrún, Gréta, Hanna, Anton og Emilíana, Baddi og Fannar: Megi góður Guð styrkja ykkur og vernda, varðveita og blessa. Megi hið bjarta ljós lýsa ykkur fram á veg.

Guðm. Ingi Jónatansson.

Það er grimmt að sjá þrekmenni eins og Andrés Bjarnason yfirgefa sviðið í blóma lífsins.

Þó að augljóst hafi verið um nokkurn tíma að hverju stefndi er samt erfitt að trúa því að hann skuli kallaður burt.

Ég sé Andrés alltaf fyrir mér sem ofurmenni að hverju sem hann gekk. Hann byrjaði kornungur á sjó og dró hvergi af sér. Flest verk léku í höndunum á honum en snemma sneri hann sér að dekkjaviðgerðum. Þeir sem til þekkja vita að til þess þarf þrek og úthald. Í Þessari iðju eru tarnir oft langar hér á landi vegna öfga í tíðarfari, haust og vor. Þetta breyttist ekki þó að Andrés eignaðist sjálfur verkstæðið sem hann vann á. Ofan á erfiðið komu þá rekstrarskyldur sem hann varð að leysa.

Skólaganga Andrésar var ekki löng en hann var gæddur „tækifærisgreind“ sem ekki sveik hann. Mér fannst hann alltaf taka réttar ákvarðanir í hverju máli og leysa auðveldlega flækjur sem vafist hefðu fyrir mörgum. Hann var fljótur að átta sig á yfir hverju samferðamenn hans bjuggu og lét ekki blekkjast af fagurgala.

Andrés minn var athafnasamur og eirðarlítill. Veiðihvöt var svo rík í honum að varla datt úr dagur á veiðitíma sem hann sinnti ekki skotveiði eða stöng. Þannig kynntumst við.

Þegar ég kom á verkstæðið þar sem hann vann tók hann strax eftir gulum hundi sem alltaf var í bílnum. „Er þetta veiðihundur? Notar þú hann í gæs?“

Ég hrósaði hundinum í hástert. Það réð úrslitum og hann spurði hvort ég vildi ekki koma með sér í einn túr. Okkar samband hefur verið óslitið síðan.

Andrés var vinavandur og vinfastur. Veiðifélagar hans mátu hann mikils. Útsjónarsemi hans og atorka kom sér vel í hópi, eins var hann óspar á það sem hann hafði fram að færa, vel búinn bíl og endalaust úthald sem bílstjóri.

Hann var mikill göngugarpur. Þegar ég fór með honum í fyrsta rjúpnatúrinn var ég ekki búinn að ná fullu þreki eftir aðgerð. Þegar ég var kominn í þrot uppi í Ljósufjöllum var Andrés kominn með allan aflann á axlirnar. Hann hélt líka á báðum byssunum og hefði tekið mig undir handlegginn hefði ég beðið um það.

Í veiði uppi í Tröllakirkju á Holtavörðuheiði kom hann nær tómhentur niður að bíl ósáttur við sinn hlut. Hann fékk þá strák til að taka bílinn og hitta sig á settum tíma á Bæ í Hrútafirði. Það gekk eftir en þá var veiðimaðurinn kominn með klyfjar af fugli. Það var því ekkert skrítið þó að nafnið „Rjúpnaskytta“ loddi við Andrés.

Þorvaldur Björnsson hjá Náttúrufræðistofnun hefur hvað lengst átt samflot við Andrés. Þeir keyptu ásamt völdum hópi Hvallátur í Breiðafirði. Uppbygging á staðnum og álúð við æðarræktina er til fyrirmyndar eins og allt sem þeir koma nærri.

En Gréta var stóra lánið vinar míns. Traustari förunaut hefði hann ekki getað fundið. Af þeirri hlýju sem henni er gefin var hún ekki aðeins kjölfestan í lífi hans en stýrði einnig fjölskyldumálum af lipurð sem henni er svo eðlileg.

Nú græt ég þennan félaga minn. Það veit ég að fleiri gera.

Við hjónin sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Páll Steingrímsson.

Krýndur snævi fagur fjallahringur,

feimnisroða baðar hæstu tinda.

Litir haustsins leika, björkin syngur,

laufið svífur frjálst um sali vinda.

Háttvís blómi hryggist ei né grætur,

hlýjum litum sumargróður kveður.

Ilmur dagsins angar djúpt um nætur

andi húmsins elskendurna gleður.

Mánadreyminn mildur aftanroðinn

málar djúpa skugga í lygnan fjörðinn,

sveipar dal og hæðir silfruð voðin,

sumarklæðum fækkar blessuð jörðin.

Rökkrið læðist hægt og litir dofna

lindir, holt og runnar hverfa í hjúpinn.

Augu jarðar opin þrá að sofna,

uggar kyrrast, nóttin faðmar djúpin.

(Bjarni Sigurður Andrésson.)

Við systkinin þökkum þér Addi fyrir góðar samverustundir.Við vottum ömmu Guðrúnu, Grétu, Sveini Inga, Auði, Sigþóri, Hönnu, Antoni, Emilíönu Guðrúnu, Bjarna Sigurði, Fannari Má og systkinum þínum okkar dýpstu samúð. Góður Guð veri með ykkur.

Borgþór, Bjarney, Harpa og Jón Hermann.

Það er með mikilli sorg og trega sem ég sest niður til að skrifa kveðjuorð um minn elskulega vin Andrés Emil Bjarnason sem lést langt um aldur fram aðeins 55 ára gamall.

Minningarnar um árin okkar saman þjóta um huga minn og ég bara hreinlega veit ekki hvar ég á að byrja.

Það var árið 1971 sem við Andrés kynntumst í Gúmmívinnustofunni í Skipholti er við unnum þar saman, það var ansi margt brallað í þá gömlu góðu daga enda unnum við saman þar í ein yndisleg og frábær 6 ár.

Eftir þá samvinnu skildi leiðir okkar í nokkur ár.

En það var svo aftur árið 1991 í október sem leiðir okkar lágu saman á ný er hann kom til mín og bauð mér vinnu hjá þeim hjónum sem ég þáði og mun aldrei sjá eftir, en þau áttu sitt dekkjaverkstæði sem var Dekkið í Hafnarfirði. Þar unnum við Andrés saman allt til ársins 2006, en það ár seldu þau fyrirtæki sitt.

Það er margs að minnast frá liðnum árum er við fórum í allar fótboltaferðirnar til Englands enda erum við eldheitir Man. Utd-menn og átti ég með þér margar yndislegar stundir, minn kæri vinur, sem ég mun aldrei gleyma og mun varðveita alla mína tíð í mínu hjarta.

Að lokum vil ég þakka þér fyrir allar þær yndislegu og frábæru stundir sem við áttum saman og um leið votta ég elsku Grétu minni, Sveini Inga, Hönnu, Badda, Fannari og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Þinn kæri vinur,

Bjarni Magnússon.

Þriðjudaginn 14. október var til foldar borinn Andrés Bjarnason.

Fyrstu kynni mín af Adda voru er hann kom í Hjartarstaði vorið 1982. Ég var ekki heima er þau hjón Adda og Grétu bar að garði og voru þau því sest inn í stofu er ég kom. Ég heilsaði og kynnti mig fyrir Adda og fljótlega eftir það sagði hann: „Viltu ekki í glas með okkur?“ Að sjálfsögðu vildi ég í glas og það sem hann bauð upp á var vodki í pilsner. Ég verð að segja að upp frá þessum fyrstu kynnum okkar skapaðist sú einlæga vinátta og traust sem aldrei bar skugga á eftir það. Nokkrum árum síðar glímdum við hjónin við þá erfiðleika sem fylgja því að eignast fyrirbura og tapa í þeirri baráttu. Þá reyndust þau Addi og Gréta okkur ómetanlegar hjálparhellur og veittu okkur þann stuðning sem aldrei mun gleymast.

Ég hef ekki mikið átt í daglegum samskiptum við Adda þar sem við bjuggum sinn hvorum megin á landinu en öll hafa þau verið þægileg og farsæl. Ég hef jafnframt kynnst nokkrum af hans kunningjum og eftir á að hyggja hefur allt sem um hann hefur verið sagt á þá lund að þar hafi farið góður drengur sem lagt hafi sig fram um að gera gott úr hlutunum og aldrei talið eftir sér að leggja eitthvað á sig til að svo mætti verða. Addi var ekki maður sem vildi láta ljós sitt skína, heldur vann hann sín verk án þess að hafa um þau mörg orð. Ég gæti margt fleira sagt um samskipti okkar Adda og jafnframt um hans hetjulegu baráttu við hinn illvíga sjúkdóm sem loks lagði hann að velli. Ég held að lengri skrif væru þó ekki í anda míns góða vinar og þannig vænti ég að fleiri minnist Andrésar Bjarnasonar. Að lokum sendi ég fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Halldór, Hjartarstöðum.