Síldveiðar Unnið við löndun á síld úr Síldarsmugunnui.
Síldveiðar Unnið við löndun á síld úr Síldarsmugunnui. — Morgunblaðið/Kristján
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is ÞRJÚ síldveiðiskip HB Granda veiddu samtals um 3.500 tonn í Síldarsmugunni í liðinni viku og er gert ráð fyrir að lokið verði við að landa aflanum á Vopnafirði í dag.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

ÞRJÚ síldveiðiskip HB Granda veiddu samtals um 3.500 tonn í Síldarsmugunni í liðinni viku og er gert ráð fyrir að lokið verði við að landa aflanum á Vopnafirði í dag. Í framhaldinu fara tvö skipanna til veiða innan norsku landhelginnar og landa í Noregi, en eitt þeirra, Faxi RE, reynir við íslensku sumargotssíldina á heimamiðum.

Lundey NS landaði tæplega 1.400 tonnum á Vopnafirði í fyrradag, Faxi RE var væntanlegur upp úr miðnætti með um 800 tonn og gert var ráð fyrir Ingunni AK með um 1.300 tonn til hafnar árla dags í dag.

Kvóti HB Granda úr norsk-íslenska kvótanum er um 35.000 tonn og eru um 9.200 tonn eftir. Þar af má veiða um 3.400 tonn í norsku lögsögunni og heimilt er að færa 3.100 tonn yfir á næsta ár.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, segir að mjög góð veiði hafi verið innan norsku landhelginnar en dræmari í Smugunni. Að þessu sinni voru skipin um níu sólarhringa í túrnum en um tveggja sólarhringa sigling er þangað frá Vopnafirði.