Ólafsvík | Fjölmennt var á Landsmóti æskulýðsfélaga í Ólafsvík um helgina. Þátttakendur voru 350 talsins og komu frá öllum landshornum, unglingar á aldrinum 14-16 ára.
Dagskrá landsmótsins var fjölbreytt og samanstóð af fræðslu, leik og helgihaldi. M.a. fór hópur ungmenna til Stykkishólms og heimsótti þar systurnar í St. Franciskus-klaustrinu. Fékk hópurinn hlýjar móttökur og urðu ungmennin margs vísari um líf og störf systranna. Björgunarsveit Ólafsvíkur (Klakkur) fór með hóp af ungmennum í ævintýraferð á Gufuskála og sumir fengu að fara í siglingu með björgunarskipi Snæfellsbæjar. Erlendir gestir fræddu þátttakendur um mannréttindamál og sögðu frá aðstæðum í sínu heimalandi. Sælkerar á mótinu spreyttu sig á brjóstsykursgerð og bökuðu skúffukökur. Leik-, söng-, hljómsveitar- og danshópar æfðu atriði og sýndu á kvöldvöku. Á laugardagskvöldið var dansleikur og helgistund.
Landsmótið er stærsti viðburðurinn í unglingastarfi kirkjunnar og á sér yfir 50 ára sögu.