MAX Payne er byggð á samnefndum tölvuleik sem naut mikilla vinsælda upp úr síðustu aldamótum. Hann þótti þá með því flottara í tölvugrafík, og menn gátu skemmt sér við að skjóta fjölda illmenna í nafni Max Payne ef þeir vildu. Það voru gerðir framhaldsleikir og kvikmyndafyrirtækin sáu þarna auðvitað hasarhetju sem hægt væri að gera eitthvað úr. Svo nú er Mark Wahlberg mættur sem lögreglumaðurinn Max Payne. Hann er í hefndarhug eftir að kona hans og barn eru myrt. Uppdubbaður í leðurjakka og líflaus í framan þrammar Wahlberg í gegnum myndina í leit að manninum sem ber ábyrgð á dauða þeirra. Þetta er auðvitað ekki nýtt mótíf fyrir svona hasarmyndir, en það er auðvitað spurning hvernig er síðan unnið úr efninu. Það hjálpar ekki til í þetta skipti að söguþráðurinn er alger steypa sem blandar saman baráttunni gegn hryðjuverkum og norrænni goðafræði. Helsti kostur myndarinnar er útlitið sem byggir nokkuð vel á umhverfi leiksins og spinnur síðan áfram í anda rökkurmynda með frekar góðum árangri. Enda er flott útlit kannski allt sem stefnt er að þegar fljúgandi drýsildjöflar eru annars vegar.
Anna Sveinbjarnardóttir