Borholur Áform eru um að bora tíu tilraunaborholur á Norðausturlandi næsta sumar til að kanna möguleika á orkuöflun til álvers Alcoa á Bakka við Húsavík.
Borholur Áform eru um að bora tíu tilraunaborholur á Norðausturlandi næsta sumar til að kanna möguleika á orkuöflun til álvers Alcoa á Bakka við Húsavík. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is STEFNT er að því að ljúka í þessum mánuði viðræðum Landsvirkjunar, Þeistareykja ehf. og Alcoa um kostnaðarskiptingu vegna undirbúnings tilraunaborana á næsta ári.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

STEFNT er að því að ljúka í þessum mánuði viðræðum Landsvirkjunar, Þeistareykja ehf. og Alcoa um kostnaðarskiptingu vegna undirbúnings tilraunaborana á næsta ári. Rætt hefur verið um að orkufyrirtækin annars vegar og Alcoa hins vegar deili undirbúningskostnaðinum nokkuð jafnt.

Borholurnar sem um ræðir á að bora á háhitasvæðum á Norðausturlandi sem verið hafa til skoðunar vegna orkuöflunar til undirbúnings álveri á Bakka við Húsavík. Háhitasvæðin eru Bjarnarflag, Krafla en þar er verið að skoða stærra svæði en virkjað hefur verið til þessa, Þeistareykir og eins eru áætlanir um boranir í Gjástykki.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði að miðað við hvað virkjanir kostuðu væri þessi undirbúningskostnaður ekki verulega hár. Ef allir sem um ræddi kæmu að honum ætti hann að verða „sæmilega viðráðanlegur“. Stefnt var að því að ljúka samkomulagi um kostnaðarskiptinguna fyrir lok september en það tókst ekki. Því var fresturinn til að ljúka samkomulagi framlengdur.

„Menn hafa verið að ræða um þetta fyrirkomulag með tilliti til þess hvernig við eigum að standa að þessu. Sannleikurinn er sá að það er ekki komin niðurstaða,“ sagði Friðrik. „Það er verið að ræða um hvernig við getum tryggt framhald verkefnisins. Ég á von á að við munum nota þennan mánuð til að ná samkomulagi.“ Friðrik sagði ljóst að allir væru áhugasamir um verkefnið, bæði Alcoa og aðrir sem að því kæmu. Málið snerist um hraða og peninga.

Undirbúningur samkvæmt áætlun

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, sagði að vinna fyrirtækisins við undirbúning álvers á Bakka við Húsavík gengi samkvæmt áætlun. Einn af mörgum þáttum í honum væru tilraunaboranirnar. Tómas sagði að engar breytingar á þeim áformum hefðu verið staðfestar og nú væri unnið að frágangi málsins. Niðurstaða kostnaðarskiptingarinnar ætti að liggja fyrir um næstu mánaðamót, eins og stefnt hefði verið að. Hann sagði að mikill áhugi væri hjá Alcoa á byggingu álvers á Bakka.

„Við skiluðum inn matsáætlun fyrir verkefnið í síðustu viku og það er verið að vinna með mörgum aðilum að undirbúningi,“ sagði Tómas.

Aðstæður í efnahagslífinu hafa breyst mikið á skömmum tíma. Tómas sagði að verð á mörkuðum heimsins hefði almennt lækkað mikið undanfarið, ekki aðeins á áli. Álverðið hefur lækkað um 35% á skömmum tíma og álbirgðir safnast upp um þessar mundir. En kann það að seinka áformum um álver á Bakka?

„Ég held að það sé ekki hægt að segja til um það núna,“ sagði Tómas. Hann sagði að undirbúningur Alcoa að álverinu á Bakka hefði verið fjármagnaður af eigin fé fyrirtækisins en ekki með lánsfé.

Í hnotskurn
» Skrifað var undir viljayfirlýsingu í byrjun júlí sl. um að Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. mundu fram til ársloka 2009 bora samtals tíu tilraunaborholur á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslu til að kanna orkugetu svæðanna.
» Alcoa myndi taka þátt í kostnaði við tilraunaboranirnar, samkvæmt nánara samkomulagi. Þessar tilraunaboranir eru alveg óháðar djúpborunarverkefninu.
» Í júlí sl. ákváðu Landsvirkjun og Alcoa að taka upp formlegar viðræður um orkukaup vegna álvers á Bakka. Stefnan var sett á að ljúka þeim viðræðum fyrir árslok 2009.