„Enginn er banki án þess að hafa verið bjargað,“ – er gamalt orðatiltæki úr fjármálaheiminum. Íslensku bankarnir nutu ekki slíkrar gæfu, enda gátu þeir ekki reitt sig á stuðning máttvana Seðlabanka. Þannig breyttust þeir í einu vetfangi úr þeim fjármálastofnunum heimsins sem voru í hvað örustum vexti í andlag hatrammrar deilu vinaþjóða innan Atlantshafsbandalagsins. Heiftina verður nú að leggja til hliðar og grípa verður til aðgerða eins fljótt og auðið er til að endurreisa trúverðugleika íslenskra fjármálayfirvalda. Endurvekja traust erlendra lánardrottna og skapa aðstæður fyrir íslenskan efnahag að ná sér á strik á ný.
Besta leiðin til að ná þessum markmiðum er að leita sérfræðilegrar og fjárhagslegrar aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). IMF er eina stofnunin sem hefur alþjóðlegt umboð og getu til að taka við hlutverki lánveitanda til þrautavara á Íslandi. IMF er regnhlífarlausn sem byggist á marghliða, samhæfðri nálgun á því að leysa úr íslensku kreppunni og sá viðurkenningarstimpill sem fylgir láni frá IMF getur leikið aðalhlutverk í því að afla fjárhagsaðstoðar frá öðrum þjóðum. Með því að fá alla lánardrottna að samningaborðinu – hvort sem það eru einkaaðilar eða opinberir aðilar – á grundvelli áætlunar sjóðsins, getur Ísland einnig átt von á því að njóta bestu hugsanlegra kjara til að endurskipuleggja skuldir sínar við umheiminn og þannig lágmarka áhrif skulda þess á komandi kynslóðir.
Með því að samþykkja áætlun sjóðsins getur Ísland að auki notið góðs af þekkingu og ráðum hóps hámenntaðra hagfræði- og fjármálasérfræðinga, við að fást við þau afar flóknu viðfangsefni sem fylgja því að endurreisa fjármálakerfi. Fjármálakerfi sem óviðráðanlegir ytri þættir eyðilögðu. Þessi sérfræðiaðstoð lyti einnig að því að hanna stjórn peningamála sem gæti haldið verðbólgu í skefjum. Áætlun sjóðsins ætti einnig að tryggja að umbætur yrðu gerðar á umgjörð og fjármálum hins opinbera. Þessar umbætur myndu miða að því að halda við lögmálum markaðarins og gera hagkerfinu áfram kleift að vaxa út á við, á tímum þegar sú freisting er sterk að snúa aftur til hins alltumlykjandi íhlutunarríkis. IMF hefur nýlega lýst yfir vilja til að einblína frekar en áður á þjóðhagfræðileg og fjármálaleg málefni og að leysa úr fjármálavandamálum um leið og þau skjóta upp kollinum. Með því að aðstoða Ísland fær sjóðurinn tækifæri til þess að sýna fram á að hann geti framfylgt þeirri nýju stefnu.
Þeir eru til sem óttast að í því felist framsal á fullveldi að óska eftir aðstoð IMF. Það er misskilningur sem líkist helst lýðskrumi. Skilyrði IMF, þ.e. þær skuldbindingar sem þjóð tekur á sig varðandi efnahagsleg stefnumál þegar hún fær lán frá sjóðnum, hafa verið gerð straumlínulöguð á síðustu árum til að varðveita yfirráð þjóða yfir stefnumálum sínum. Þau gera ráð fyrir viðamiklu samráði við alla hagaðila til að tryggja að þessi stefnumál nái fram að ganga, og ættu við kjöraðstæður að vera niðurstaða rækilegra samningaviðræðna milli stofnunarinnar og aðildarþjóðar hennar. Þótt IMF stingi upp á leiðum til að leysa úr vanda Íslands hefðu íslensk stjórnvöld alltaf það lykilhlutverk að stinga upp á öðrum leiðum sem byggðu á séríslenskum aðstæðum.
Í hnotskurn yrði þetta þannig að íslensk stjórnvöld hefðu alltaf forræði yfir áætlun sjóðsins og þau bæru ávallt ábyrgð á hönnun og framkvæmd efnahags- og fjármálastefnunnar. Þau gætu einnig afsalað sér aðstoð sjóðsins hvenær sem þau óskuðu þess. Frekar ætti að líta á IMF sem almannagæði en sem miskunnarlausan málsvara hins frjálsa markaðar. IMF er stofnun sem var stofnuð í þeim tilgangi að styðja aðildarþjóðir sínar í því að fást við efnahagsleg vandamál sem þeim eru ofviða. Þeir sem eru andvígir því að þiggja aðstoð sjóðsins af þjóðernislegum hvötum ættu að hafa í huga að ef það verður ekki gert felur það einmitt í sér að sjálfstæði þjóðarinnar glatast.
Auðvitað er sá kostur fyrir hendi að hafna aðstoð að utan, einblína á efnahaginn heima fyrir og fást við lánardrottna okkar hvern fyrir sig, þannig að hætta væri á að alþjóðlegir lánamarkaðir væru lokaðir næstu kynslóð þjóðarinnar, ef ekki lengur. Sú leið hefði í för með sér miklu lengri aðlögunartíma fyrir þjóðarbúskapinn, yrði miklum mun dýrari fyrir íslensk fyrirtæki og ylli þjóðinni verulega meiri þrautum í alla staði. Er það þess virði, að taka á sig slíkan aukakostnað fyrir þjóðarstolt sem byggist á misskilningi – Nei. Það er Íslandi í hag að sækja um aðstoð IMF, og við ættum að flýta okkur eins og auðið er, á meðan tilboðið er enn í gildi.
Höfundur er doktor í hagfræði og fyrrverandi starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.