Ingibjörg Sigríður Kristjánsdóttir fæddist á Þingvöllum í Helgafellssveit 3. mars 1922. Hún lést á St. Franciskussjúkrahúsinu í Stykkishólmi 9. október síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Grundarfjarðarkirkju 18. október.
Elsku amma, það er svo skrítið að þú skulir vera farin frá okkur, hugurinn leitar til baka og ég veit að ég á margar góðar minningar um ykkur afa. Mér þótti svo vænt um það þegar við komum til þín upp á sjúkrahús með Mikael litla áður en við flugum til Danmerkur, þú varst svo hress og Mikael var svo ánægður að sjá ömmu sína. Þú hlóst og hélst á honum, enda fæddist hann á afmælisdaginn þinn.
Þegar ég var polli fannst mér svo gaman að koma til ömmu og afa á Grundargötuna í þetta stóra hús og leika sér í stiganum og svo á skrifstofunni hjá afa. Síðan kallaðir þú á okkur í mjólk og kökur sem þú varst svo dugleg að baka, alltaf heimabakað með kaffinu. Mér þykir svo vænt um þig, amma mín, og ég á eftir að sakna þín. Ég mun segja Mikael margar skemmtilegar sögur af þér.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Ég elska þig, amma, hvíldu í friði.
Davíð Ingason og fjölsk.