Einar Kristinn Friðriksson fæddist á Klöpp í Miðneshreppi 13. mars árið 1951. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi miðvikudaginn 8. október síðastliðinn og fór útför hans fram frá Grafarvogskirkju 20. október.

Einar elskulegur bróðir okkar er látinn langt fyrir aldur fram. Við trúðum því stöðugt að þú hefðir það af. Þú hafðir sýnt þvílíka krafta. Við kölluðum þig alltaf kraftaverkakarlinn og trúðum því að þú myndir sigra eins og þín var von og vísa. En því miður varstu kallaður til annarra starfa. Eftir sitjum við systurnar sorgmæddar en glaðar yfir að hafa átt þig fyrir bróður. Glaðar yfir að hafa átt það hversu náin við vorum þrátt fyrir að þú værir alinn upp í næstu götu, en þú varst alltaf eins og heimagangur heima. Við eigum eftir að sakna hringinganna þinna sem voru brandararnir okkar og hringinganna þegar þú hringdir á föstudagssíðdegi eða laugardagsmorgni til að athuga hvort við ætluðum ekki að koma í sveitina því grillið væri klárt. Þú varst þvílíkur húmoristi og við eigum eftir að sakna Danmerkurferðanna okkar. Þar fórst þú á kostum, síðast núna í apríl síðastliðinn.Við erum búnar að ylja okkur og hlæja mikið að bröndurunum þínum. Elsku bróðir okkar, takk fyrir allt.

Elsku Maja, Villi, Heiða, Friðrik, Jakobína, Kristín Helga, Doddi og barnabörn, Guð styrki ykkur í ykkar miklu sorg.

Guðlaug og Hafdís.

Hann Einar vinur okkar er dáinn. Við kynntumst Einari þar sem við vorum nágrannar í Fróðengi og hefur vinskapur okkar haldist síðan. Einar var tryggur og traustur vinur, gleði og grín var sterkt í hans fari. Eitt séreinkenni Einars var að hamast á bjöllunni þegar hann gekk framhjá dyrunum okkar og þá vissu allir að Einar var kominn heim eða hann var bara aðeins að hreyfa við okkur og þarna er honum Einari rétt lýst, glaður prakkari. Margar skemmtilegar stundir höfum við átt saman og verður gott að ylja sér við minningarnar og brosa út í annað þegar við hugsum til Einars.

Það var gott að heimsækja þau í sæluhúsið í sveitinni sem þau voru búin að reisa sér svo myndarlega. Hlýja, gleði og gestrisni ríkti alltaf á þeim bænum, en jafnframt var hann hinn mjúki eiginmaður Maríu. Fjölskyldan var allaf efst á umræðulistanum og voru börnin þeirra, þau Vilbogi, Friðrik og Kristín, tengdabörnin og barnabörnin stolt hans

Já þetta eru góðar minningar.

Einar vinur okkar kvaddi þennan heim eftir erfið veikindi og verður hans sárt saknað. Elsku María okkar, Vilbogi, Heiða og börn, Friðrik, Jakobína og börn, Kristín og Þorsteinn, megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Ykkar vinir,

Anna, Birgir og fjölskylda.

Kynni okkar Einars stóðu ekki lengi en við náðum samt ótrúlega vel saman. Fyrir rúmu ári, í september 2007, fórum við hjónin á heilsustofnunina í Hveragerði. Á svipuðum tíma komu þangað önnur hjón, Einar og María. Við þessi tvenn hjón áttum það sameiginlegt að finnast kaffi gott og hittumst þar af leiðandi alloft í litlu setustofunni þar sem kaffi-„sjúklingar“ máttu laga sér kaffi og neyta þess. Fljótlega fórum við að sitja saman til borðs í matsalnum og hittumst auk þess daglega í þessum eða hinum æfingunum. Málefnin til að spjalla um voru nóg og mörg áhugamál sameiginleg. Síðastliðinn vetur á þorranum komu þau til okkar og áttum við saman afar notalega kvöldstund. Við hjónin heimsóttum Maju og Einar bæði í Breiðholtið og eins í sumarbústaðinn austur í Þrastaskógi og síðast núna 26. ágúst. Í þeirri heimsókn sagðist Einar eiga að fara á spítala og í uppskurð um miðjan september. Hann sagðist dálítið kvíðinn fyrir aðgerðinni en jafnframt tilbúinn að taka því hvernig sem færi. Í það skipti ákváðum við að hittast fyrir austan og grilla góða steik þegar hann kæmi úr aðgerðinni en sú heimsókn verður víst að bíða.

Ég hef velt því fyrir mér hvað það var sem tengdi okkur Einar svo vel saman. Hann var úr Sandgerði og við hjónin búum í Keflavík. Einar og María höfðu búið þar líka og þar af leiðandi þekktum við margt fólk sameiginlega. Einnig uppgötvuðum við að ég þekkti vel fósturföður Einars í Sandgerði, Einar Júlíusson, og höfðum við unnið á sama stað í fjöldamörg ár.

Einar var jákvæður og mikill húmoristi og alltaf tilbúinn að glettast við fólk, jafnvel fólk sem hann þekkti ekki neitt en var um leið hlýr og laus við illkvittni og ég stórefast um að sú tilfinning hafi verið til í hans huga, en hann var talsvert stríðinn á sinn græskulausa hátt. Við töluðumst alloft við í síma og fór ávallt vel á með okkur. Að okkar mati var Einar að eðlisfari afar rólegur maður og lét líðan fólks og hagi sig talsverðu skipta. Hann hafði áhuga á dulrænum efnum en vildi ekki ræða það mikið sem fyrir hann bar þegar hann lenti í hjartastoppi fyrir um tveim árum og var komið til lífs aftur á Landspítalanum. Þó má geta þess sem dæmi um húmor hans að þegar eldri kona í Hveragerði spurði hann hvernig hefði verið hinum megin sagði hann, eftir nokkra umhugsun: „Mér fannst flottast þegar munkarnir fóru að syngja.“

Við hjónin sendum Maríu, börnunum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að blessa þau.

Sigrún og Úlfar.