Peter Mandelson
Peter Mandelson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

ENDURKOMA Peters Mandelson, sem nýlega tók við embætti ráðherra viðskiptamála í Bretlandi, er þegar farin að valda ugg í Verkamannaflokknum og menn farnir að spá því að hann muni hrökklast úr ráðherraembætti í þriðja sinn. Mandelson, sem var í fimm ár utanríkisviðskiptafulltrúi í stjórn Evrópusambandsins í Brussel hefur viðurkennt að hafa þegið boð í skemmtisnekkju rússneska auðkýfingsins Oleg Deripaska.

Snekkja Deripaska var í höfn á grísku eynni Korfu þegar Mandelson var gestur auðkýfingsins í sumar, líklega yfir nótt en lengd dvalarinnar er enn óljós og ýmsum sögum fer af því hve skrautleg veisluhöldin hafi verið. Hann hefur orðið tvísaga um málið, sagði fyrst að hann hefði hitt Deripaska í fyrsta sinn árið 2006. En í bréfi til blaðsins Times í gær viðurkenndi hann að kunningsskapurinn hefði byrjað 2004. Mandelson harðneitar að hafa tekið ákvarðanir í embætti sínu í Brussel sem hafi gagnast Deripaska.

Deripaska er talinn ríkastur allra Rússa. Breskur dómari hefur lýst í smáatriðum tengslum Deripaska við Anton Malevskí, rússneskan mafíuforingja. Sagt er að bróðir Malevskís eigi 10% hlut í fyrirtæki Deripaska.

Íhaldsmenn eru einnig í vanda vegna sama Deripaska. Komið hefur í ljós að George Osborne, skuggafjármálaráðherra þeirra, hefur líka verið gestur í snekkju Rússans. Fjármálamaðurinn Nat Rotschild, fyrrverandi vinur Osborne, fullyrðir að Osborne hafi beðið Deripaska um að leggja fram 50 þúsund pund í kosningasjóð Íhaldsflokksins. Osborne harðneitar því.