Á ÞESSUM síðustu og verstu tímum er vissara að fara vel með eyrinn. Því var það gleðiefni fyrir blaðamann að komast að því að hann getur lagt nýjum bíl sínum frítt í stæði Reykjavíkurborgar 90 mínútur í senn. Ekki hafði hann hugmynd um að slíkt væri í boði en glöggur fjölskyldumeðlimur slæddist inn á vefsíðu Bílgreinasambandsins þar sem er listi yfir þá bíla sem uppfylla kröfur borgarinnar um ókeypis bílastæði.
Visthæfir bílar eru skilgreindir eftir eldsneytiseyðslu og eldsneytisgerð, þau skilyrði sem bensínbíll þarf t.d. að uppfylla til að lenda á þeim lista er að eyðsla í blönduðum akstri sé 5,0L/100km eða minna og CO 2 útblástur mest 120 g/km.
Það eina sem blaðamaður þarf að gera núna er að nálgast sérstaka bílastæðaskífu hjá næsta bílaumboði. Skífan er sett í framrúðu bifreiðarinnar og skal vísir hennar stilltur á þann tíma sem lagt er. Stöðumælaverðir geta þá séð hvað bifreiðinni hefur verið lagt lengi. Svo er bara að snúa skífunni aftur eftir 90 mínútur ef bæjarferðinni er ekki lokið. Sá hængur er hins vegar á að ekki er ókeypis í bílastæðahús né í stæði sem er lokað með hliði.
Blaðamaður ætlar nú að fara að hanga meira niðri í miðbæ enda sér fyrir endann á smápeningaveseninu. ingveldur@mbl.is