[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
27. október 1674 Hallgrímur Pétursson prestur og skáld lést, 60 ára að aldri. Hann var eitt helsta trúarskáld Íslendinga. Passíusálmar hans hafa komið út oftar en sextíu sinnum, fyrst 1666. 27.

27. október 1674

Hallgrímur Pétursson prestur og skáld lést, 60 ára að aldri. Hann var eitt helsta trúarskáld Íslendinga. Passíusálmar hans hafa komið út oftar en sextíu sinnum, fyrst 1666.

27. október 1923

Borgaraflokkurinn, hinn fyrri, hlaut hreinan meirihluta atkvæða, 53,6%, í Alþingiskosningum og 25 þingmenn af 42. Meðal forystumanna flokksins voru Jón Magnússon og Jón Þorláksson. Í næstu kosningum skiptust stuðningsmennirnir á Íhaldsflokkinn og Frjálslynda flokkinn, sem síðar mynduðu Sjálfstæðisflokkinn.

27. október 1934

Stórtjón varð norðanlands í ofsaveðri. Eitt skip fórst og bryggjur og hús skemmdust, allt frá Hvammstanga til Þórshafnar. Sjór flæddi víða á land, meðal annars á Siglufirði. Á sumum götum bæjarins var mittisdjúpt vatn.

27. október 1936

Minnismerki um Niels R. Finsen (f. 1860, d. 1904) var afhjúpað í Menntaskólanum í Reykjavík þar sem hann var við nám og lauk stúdentsprófi í júlí 1882. Finsen var brautryðjandi í ljóslækningum og hlaut Nóbelsverðlaun í læknisfræði árið 1903.

27. október 1955

Sænska akademían veitti Halldóri Laxness rithöfundi bókmenntaverðlaun Nóbels, fyrstum Íslendinga, „fyrir að endurnýja hina miklu íslensku frásagnarlist“. Hann veitti verðlaununum viðtöku í Stokkhólmi 10. desember.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.