VEGNA þeirra umræðna er nú fara fram um aðild Íslands að Evrópusambandinu er rétt að rifja upp nokkur atriði varðandi stofnun þess og þróun. Stofnaðilar Evrópusambandsins voru þau sex ríki sem stóðu að gerð Rómarsamningsins og upphaflega mynduðu Efnahagsbandalag Evrópu 1957: Frakkland, Vestur-Þýskaland, Ítalía, Belgía, Holland og Lúxemborg. Frá þeim tíma hefur 21 ríki gengið í sambandið, sem í núverandi mynd sinni sem Evrópusambandið – ESB – varð til við gerð Maastricht-samningsins 1992. Fram hafa farið nokkrar lotur samninga um stækkun, og var sú fyrsta þegar Bretland, Danmörk og Írland gerðust aðilar 1973. Þeir þessara samninga sem hafa sérstakt gildi til samanburðar við stöðu Íslands, eru hins vegar þeir sem gerðir voru 1995 við félagsríki okkar í EFTA: Austurríki, Finnland og Svíþjóð. Þessi þrjú lönd höfðu þá, eins og Ísland, nýlokið við gerð samnings um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem Ísland og Noregur enn sitja. Þar sem EES-samningurinn tekur til þátttöku í frjálsum innri markaði ESB með sama hætti og gildir um aðildarríki ESB, var sá veigamikli hluti fullrar aðildar þegar fyrir hendi hjá EFTA-löndunum og samningar að sama skapi einfaldari. Þetta átti hins vegar ekki við um lönd austar og sunnar í álfunni sem síðar tengdust ESB með miklu umfangsmeiri og tímafrekari samningum.
Í raun yrði það alls ekki eins stórt skref og margur ætlar, sem stigið væri frá EES-þátttöku til fullrar aðildar að ESB. Evrópuskrefið mikla, að því er okkur snertir, var gerð EES-samningsins og aðildin að Schengen-samningnum með þeim stöðugu uppfærslum lagagjörninga og framkvæmd þeirra sem aðildinni fylgir. Þetta sést best á því, að nýr aðildarumsækjandi verður að semja um þátttöku í 34 sviðum starfseminnar, en af þeim fjallar 21 um frjálsan innri markað sem Ísland er fullur þátttakandi í og fylgir að öllu leyti sömu lögum og reglugerðum og ESB-ríkin sjálf. Þar að auki höfum við þegar hafið þátttöku á sumum þeirra 13 sviða sem eftir standa. Veruleg efnisleg atriði í samningum koma fyrst og fremst til greina á sviði sjávarútvegs.
Í umróti síðastliðinna vikna hafa loks allir mátt skilja að hér á landi er ekki fyrir hendi starfhæft kerfi peninga- og gengismála. Fyrsta skrefið til úrbóta er samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn – IMF – sem nú liggur fyrir. En sú skipan mála sem komið var á fót með seðlabankalögunum 2001 hefur ekki staðist og verður því að víkja fyrir þeirri einu leið, sem er til úrlausnar, en það er aðild að Myntbandalagi Evrópu – EMU. Hún felur í sér inngöngu í Evrópusambandið og aðlögun að evru sem sameiginlegri mynt samkvæmt sk. Maastricht-skilyrðum um efnahagslegan stöðugleika. Þau skilyrði hafa íslensk stjórnvöld reyndar bent á að sjálfsagt sé að uppfylla sem góða hagstjórn. En nú er þörfin svo brýn að koma á stöðugleika gengis í frjálsu, opnu hagkerfi að leita verður samvinnu við ESB um bráðabirgðaráðstafnir á meðan upptökuferli evru stendur yfir. Undirbúningur aðildarviðræðna, sjálfir samningarnir og sk. ERM II aðlögunarferli að EMU myndi sjálfsagt taka 2-3 ár. Því er rétt að íslensk stjórnvöld lýsi því yfir nú þegar að þau hyggist leggja fram beiðni um aðildarviðræður og óski samstarfs við Evrópska seðlabankann um að verja gengi krónunnar innan rýmilegra vikmarka sem fyrsta skref til inngöngu í EMU. Samkomulagið við IMF og slík beiðni myndi ótvírætt gefa til kynna vilja íslenskra stjórnvalda til þess að koma skipulagi og stjórn efnahagsmála í það horf sem sæmir okkur sem fullgildum aðila í Evrópusamstarfinu.
Einar Benediktsson er fv. sendiherra og Jónas H. Haralz fv. bankastjóri.