Vafalaust er það vel meint hjá olíufélögunum að reyna að „hughreysta“ almenning með því að draga íslenska fánann að hún. En tiltækið vekur blendnar tilfinningar.

Vafalaust er það vel meint hjá olíufélögunum að reyna að „hughreysta“ almenning með því að draga íslenska fánann að hún. En tiltækið vekur blendnar tilfinningar. „Þegar ég keyri fram hjá þessum bensínstöðvum rifjast nú aðallega upp hjá mér hvernig stóru olíufyrirtækin voru sammála um að féfletta almenning,“ segir ein af mörgum vinkonum Víkverja. „Héldu forstjórar þeirra ekki leynifundi í Öskjuhlíðinni til að hafa samráð um verð?

Og sumir þeirra neituðu öllu þó að staðreyndir um brotin lægju á borðinu. Í þeirra sporum myndi ég nú láta sem minnst á mér bera.“

Líklega verður ekki brýnt nógu oft fyrir fólki að vera á varðbergi gagnvart verðlagi í verslunum, núna þegar gengið er á fleygiferð. Víkverji heyrði konu segja frá því að hún fór í Húsasmiðjuna og keypti sér þar lítinn skrúflykil. Hún sá að verðið sem kom upp við kassann var mun hærra en það sem staðið hafði á hillunni. En hún var með lítið barn, var að flýta sér og ákvað að standa ekki í neinu stímabraki heldur borga. Hvað ætli þeir séu annars margir sem ekki nenna eða gefa sér tíma til að fá verðið leiðrétt þegar munurinn er ekki nema nokkrir tugir króna?

En nóg af neikvæðninni. Davíð Þór Jónsson, grínisti og margt fleira, veltir í Fréttablaðinu fyrir sér orðavalinu þegar sumir tala um mestu hörmungar sem dunið hafi á þjóðinni. Hann segir gamla frænku sína, sem nú er látin, hafa sagt sér frá 1918, frostavetrinum og spænsku veikinni þegar 500 manns dóu. Henni hefði vafalaust þótt lítið til þrenginga okkar núna koma. Engin lík, engar fjöldagrafir.

Þörf áminning, við eigum ekki að hundsa þjáningar þeirra sem verða illa úti núna - en heldur ekki ýkja þær.