ÞEGAR harðnar á dalnum er mikil hætta á því að menn ani hugsunarlítið af stað í ákafanum að bjarga sér og sínum og sjái of seint að þeir hefðu betur hugsað málið og farið í aðra átt. Nú um stundir er hættan á svona mistökum beinlínis áþreifanleg. Jafnvel þingmenn á Alþingi Íslendinga hvetja til þess að gangsetja jarðýturnar, ryðjast á þeim yfir allt regluverk, og halda áfram af endurnýjuðum krafti að virkja og reisa álver.
En við höfum núna gullið tækifæri til að endurskilgreina framtíðina. Við getum jafnvel lært af öðrum þjóðum sem hafa risið úr öskustónni eftir efnahagskreppur án þess að fara niður á svo lágt plan, heldur veðjað á menntun og nýsköpun.
Í Sveitarfélaginu Árborg vinnur meirihluti bæjarstjórnar af kappi að mörgum nýsköpunarverkefnum. Leitað hefur verið eftir samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Suðurlands sem mun vinna með atvinnumálanefnd sveitarfélagsins að greiningu á stöðunni og mögulegum leiðum til að efla atvinnulíf og fyrirtæki á svæðinu á þessum krepputímum.
Að frumkvæði sveitarfélagsins hefur nú um nokkurra vikna skeið verið unnin hugmyndavinna vegna uppbyggingar þekkingarsamfélags í miðbæ Selfoss. Þetta er afar spennandi verkefni og varðar framtíðarímynd sveitarfélagsins og Selfoss sem höfuðstaðar Suðurlands. Að þessari vinnu hafa komið með sveitarfélaginu m.a. Fræðslunet Suðurlands, Háskólafélag Suðurlands, Háskóli Íslands og lóðarhafar í miðbænum.
Aukin áhersla á menntun, jafnt nám og kennslu sem vísindi og fræðastörf, er lykillinn að farsælli framtíð íslensku þjóðarinnar. Stjórnvöld í Árborg sjá framtíð sveitarfélagsins blómlegasta með öflugu þekkingarsamfélagi, „háskólatorgi“ í nýjum miðbæ á Selfossi, þar sem Jarðskjálftamiðstöð HÍ, Fræðslunetið, Háskólafélagið, Héraðsbókasafnið, Héraðsskjalasafnið, menningarmiðstöð, Landnýtingarsetur, Ölfusársetur, upplýsingamiðstöð ferðamanna, ungmennahús og fleiri stofnanir og fyrirtæki myndu saman skapa sannkallaðan suðupott mannlífs, nýsköpunar og ómældra, spennandi tækifæra fyrir komandi kynslóðir.
Þetta er raunhæf framtíðarsýn og að henni vinnum við af fullum krafti og bjartsýni.
Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg