LÖGREGLAN í Jórdaníu handtók rithöfund í landinu í síðustu viku fyrir að nota vers úr hinni heilögu bók Kóraninum í ástarljóð sem hann samdi.
Ljóðasafnið Grace like a Shadow eftir ljóðskáldið Islam Samhan þótti móðgun við hina helgu bók og var gefið út án samþykkis stjórnvalda í Jórdaníu, að sögn embættismanns þar í landi.
Samhan var ákærður fyrir að skaða íslamska trú og brjóta útgáfulög með því að nota hið heilaga orð Kóransins í kynferðisleg þemu. Ef ljóðskáldið verður dæmt gæti það þurft að eyða þremur árum í fangelsi.
Lög í Jórdaníu banna útgáfu bóka eða greina sem gætu verið álitnar skaðlegar íslam og spámanninum Múhameð. Fyrir tveimur árum voru ritstjórar tveggja dagblaða í landinu dæmdir í tveggja mánaða fangelsi fyrir að móðga íslam eftir að þeir birtu hina frægu dönsku teikningu af Múhameð í blöðum sínum.
Rithöfundar og listamenn í Jórdaníu hafa farið fram á það við stjórnvöld að þau láti Samhan lausan og segja að handtakan sé afturför í tjáningarfrelsi og kalla eftir endalokum kúgunar og ógnana sem eigi sér stað gegn menntamönnum.