„EFNAHAGSLEG velferð á Íslandi, lífskjörin, mun batna í hlutfalli við þau verðmæti sem hér verða sköpuð á næstu árum. Við þurfum að auka framleiðni í þeim atvinnugreinum sem fyrir eru og við verðum að skapa nýtt,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, í ræðu við brautskráningu kandídata á laugardaginn.
Háskólarektor sagði frá hlutverki Háskóla Íslands í þeim efnahagserfiðleikum sem nú steðja að þjóðinni.
Þurfum að bregðast við
„Í starfi sínu þjónar Háskólinn jafnt efninu og andanum. Hann sinnir verkefnum sem leggja grunn að efnahagslegri velferð og verkefnum sem miða að því að gera samfélagsgerðina og mannlífið betra. Nú þegar við þurfum að bregðast við breyttum kringumstæðum og mótlæti þjónar Háskólinn okkur best ef við eflum jafnt báða þessa þætti í starfi hans. Háskólinn er vel í stakk búinn að sinna þessu starfi,“ sagði Kristín í ræðu sinni.Hún lýsti þeirri skoðun sinni að Háskóli Íslands ætti að leggja aukna áherslu á nýsköpunarverkefni á öllum sviðum vísinda og fræða innan skólans. „Markmiðið er að skólinn geti ungað út hugmyndum, verkefnum og sprotafyrirtækjum sem verði nýr þáttur í atvinnulífinu. Til að þetta gerist munum við styrkja enn umgjörð nýsköpunarverkefna til að hraða þróun þeirra og auka líkur á að þau verði að fullburða fyrirtækjum sem láti að sér kveða í atvinnu- og verðmætaskapandi starfsemi.“
Nefndi rektor í þessu sambandi að Marel hefði orðið til sem afsprengi rannsóknarverkefnis innan Háskólans og sagði frá fleiri sprotafyrirtækjum sem þar hefðu byrjað.
Kristín sagði að það væri einnig hlutverk Háskólans að leggja á ráðin um uppbyggingu til framtíðar og rifjaði upp í því sambandi reynslu Finna af efnahagsþrengingum og hvernig þeir byggðu efnahagslífið upp á nýjum grunni bættrar menntunar, rannsókna og tækniframfara.
Í hnotskurn
» Brautskráðir voru 448 kandídatar frá Háskóla Íslands.» Jafnframt var lýst kjöri þriggja heiðursdoktora. Þeir eru Søren Langvad, verkfræðingur og fyrrverandi forstjóri, frá verkfræðideild, Jónatan Þórmundsson og Sigurður Líndal frá lagadeild. Jónatan og Sigurður störfuðu báðir lengi sem lagaprófessorar við Háskóla Íslands.